„Mannréttindabrot gagnvart eldra fólki eru látin viðgangast og það versta er að engar lausnir virðast í sjónmáli til að leysa vandann. Aðgerða er þörf og það strax,“ segir í ályktun frá Félagi eldri borgara í Reykjavík. Félagið er að vísa til þess ófremdarástands sem ríkir í málefnum eldri borgara sem fá ekki pláss á hjúkrunarheimilum. Mikið hafi verið fjallað um þessi mál á undanförnum árum og fréttir undanfarinna daga sýni svo ekki verði um villst að ekki ekki verði við þetta ástand unað lengur. „Það það þarf að setja meiri peninga í þetta strax,“ segir Ellert B. Schram formaður Félags eldri borgara í Reykjavík. Ellert segir að í kosningunum í haust hafi nánast allir flokkar lýst þeirri stefnu sinni að það bæri að sinna hagsmunum eldri borgara. „Eitt af því fyrsta sem ný ríkisstjórn hlýtur að ganga í er að fjölga hjúkrunarheimilum og bæta þjónustu við eldri borgara sem farnir eru að heilsu.“ Fólk eigi ekki að þurfa að leita sér að hjúkrunarheimili þegar það sé orðið fárveikt. Það sé ekki bjóðandi. „Fólk á ekki að þurfa að bíða árum saman eftir að fá inni á hjúkrunarheimilum,“ segir Ellert og bætir við að það sé skylda stjórnvalda að sinna þessari kynslóð. Menn verði að fara að skipuleggja hvernig þessum málum verði háttað í framtíðinni því eldra fólki fjölgi hratt á næstu árum.
Allir sem vilja ættu að eiga kost á að dvelja á hjúkrunarheimili.