Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar
Móðurforeldrar mínir, Matthildur Kjartansdóttir og Guðbrandur Magnússon voru tíðir gestir í sunndagsmat heima hjá okkur í Grænuhlíðinni. Eftir að búið var að borða, drógu pabbi og afi sig í hlé, mamma fór fram í eldhús til að vaska upp, en amma sat eftir við borðið með okkur systrum og sagði okkur sögur úr sveitinni. Sveitin hennar var Staðarsveit á Snæfellsnesi, þar bjó hún á nokkrum bæjum, einna lengst að Búðum. Þaðan rak faðir hennar, Kjartan Þorkelsson, skútuútgerð, þar til hún fór á hausinn. Hún varð undir þegar vélbátar ruddu sér til rúms. Sögurnar voru margar, fróðlegar og skemmtilegar, en ég minnist einna best sögunnar sem hún sagði okkur um Draumamanninn og skeiðina sem hvarf. Vel má vera að ég muni hana betur en aðrar sögur vegna þess að áhugi okkar systra á draumum var mikill. Við fylgdumst vel með draumum okkar og þegar við vöknuðum fórum við beint í draumráðningabókina til að komast að því hvað þeir boðuðu. Pabbi gerði grín að okkur og sagði draumráðningabókina vera mest lesnu bókina á heimilinu.
Amma sagði okkur að draumamenn birtust fólki reglulega í draumum og segði þeim fyrir um allt milli himins og jarðar. En það áttu sér ekki allir draumamenn, aðeins fáir útvaldir voru svo lánsamir að eiga sér einn slíkan. Draumamaðurinn gat til dæmis sagt bónda til um hvernær best væri að reka ær á fjall, hvenær hentugast væri að hefja sláttinn, fara í róðra og svo framvegis. Draumamaðurinn var kröfuharður, hann vildi að orðum hans væri í öllu hlýtt, annars hætti hann að vitja manna í draumi.
Einn bóndi í sveitinni hennar ömmu átti sér draumamann. Að vonum vegnaði honum vel og var hann vel fjáður og átti gott safn silfurskeiða. Einn dag um vetur uppgötvaði bóndinn, þegar hann var að telja skeiðarnar, að eina vantaði. Hann gerði húsleit að skeiðinni en fann hana hvergi og næstu nótt spurði hann draumamanninn hvar skeiðin væri niður komin. Hann svaraði því að hún væri í buxum. Strax daginn eftir leitaði bóndinn í buxum vinnumanna sinna, en án árangurs, þar var enga skeið að finna. Næstu nótt spurði hann draumamanninn sömu spurningar og fékk sama svarað, skeiðin væri í buxum á bænum. Þá fyrtist bóndinn við að sagði það ekki vera rétt, hann væri búinn að leita í öllum buxum á bænum og enga skeið fundið. Draumamaðurinn reiddist bóndanum svo að hann vitjaði hans aldrei framar í draumi, en um vorið, þegar verið var að taka til í skemmunni, fannst skeiðin falin í broti á gömlum sjóbuxum. – Eftir þetta, að sögn ömmu, varð hagur bóndans aldrei jafn góður, því hann naut ekki lengur leiðsagnar draumamannsins.