„Mér hefur alltaf þótt mjög gaman að vinna með eldra fólki. Það býr yfir hafsjó af visku og fróðleik. Mannsævin skiptist í fjögur skeið. Fyrsta æviskeiðið eru bernskan og unglingsárin. Annað æviskeiðið markast af barnauppeldi og vinnu. Á þriðja æviskeiðiðinu er farið er að huga að starfslokum og eftirlaunaárunum, fjórða æviskeiðið telst síðan til þess þegar líður að lokum ævinnar og einstaklingurinn er oft upp á aðra kominn hvað varðar umönnun,“ segir Olga Ásrún Stefánsdóttir, kennari við Háskólann á Akureyri. Meistaraprófsritgerð hennar í fjölskyldumeðferð við Háskóla Íslands fjallar um starfslok og ber yfirskriftina Farsæld og frelsi –reynsla hjóna af starfslokum.
Lítið til af efni um aldrað fólk
Olga Ásrún starfaði sem forstöðumaður Þjónustu og félagsmiðstöðva eldri borgara á Akureyri á árunum 2005 til 2013. Hún segist á því tímabili mikið hafa velt því fyrir sér hvort það væri þörf á fjölskylduráðgjöf fyrir aldraða. Nokkuð hafi verið um að öldruð hjón leituðu ráðgjafar hjá henni , ýmist saman eða í sitt hvoru lagi. Þá hafi fullorðin börn aldraðra mikið leitað til hennar þegar foreldrar þeirra þurftu á þjónustu að halda. „Í þeim úrræðum sem opinberir aðilar veita er í flestum tilvikum lagt of mikið upp úr einstaklingsmiðaðri þjónustu í stað þess að horfa á einstaklingin sem hluta af heild og taka mið af þeim aðstæðum sem hann býr við, tengslum hans við fjölskylduna, vini og samfélagið,“ segir hún. Eitt af því sem kom Olgu Ásrúnu á óvart í námi hennar í fjölskyldumeðferð var að ekkert kennsluefni var um öldrun. „Þetta vekur spurningar um viðhorf almennings til aldurskeiðsins og hvort að ekki væri talin nein þörf á fjölskyldumeðferð á þessu æviskeiði,“ segir hún.
Gift í áratugi
Meistaraprófsritgerð Olgu Ásrúnar byggir á viðtölum við fimm hjón á aldrinum 67 til 75 ára sem hætt voru störfum á vinnumarkaði. Við upphaf rannsóknarinnar setti hún sem skilyrði að tvö ár yrðu að vera liðin frá því að viðmælendur hennar hættu að vinna. „Það varð að vera komin reynsla á hvernig fólk tókst á við breytta tíma. Starfslok marka þáttaskil í lífi hvers einstaklings og hafa í för með sér margháttaðar breytingar,“ segir hún.Viðtölin tók hún við hjónin sitt í hvoru lagi. Hjónin áttu það sameiginlegt að hafa verið gift lengi eða frá 46 árum upp í 54 ár og höfðu sinnt margvíslegum störfum. Þau eiga öll börn ogbarnabörn og tvenn þeirra barnabarnabörn. Olga Ásrún segir að það sé stórt skref fyrir fólk að hætta að vinna og það skipti máli hvernig starflokunum sé háttað. „Sjálfsmynd fólks breytist við það að hætta að vinna,“ segir hún og bætir við að það hafi skipt máli varðandi starfslokin, hversu ánægð þau voru í störfum sínum, hvað varðaði vinnufélaga, vinnuumhverfi og verkefni. Þau vildu fá tækifæri til að miðla reynslu sinni og þekkingu áfram áður en þau hættu að vinna. Þau vildu gefa af sér og vildu skila góðu ævistarfi. Í rannsókn Olgu Ásrúnar kemur fram að misjafnt var hvernig starfslok fólksins bar að og hvort fólk hafði haft tækifæri til að undirbúa þau á einhvern hátt. „þegar spurt var um hvernig undirbúningi starfslokanna hefði verið háttað kom í ljós að hann er ekki sameiginlegur hjá hjónum heldur ferli sem allir viðmælendur fóru í gegnum á sínum forsendum. Misjafnt var hvernig starfslokin bar að hjá þeim og hvort þeir höfðu haft tækifæri til að undirbúa þau á einhvern hátt. Þeir viðmælendur sem höfðu sjálfir ákveðið starfslok sín voru mun fljótari að aðlagast og voru sáttari að segja skilið við hlutverk sitt en hinir sem höfðu ekki tækifæri til þess.
Áhrif á sjálfsmynd
Í verkefni Olgu Ásrúnar kemur fram að konur og karlar tókust á við starfslokin á mismunandi hátt.Þrír karlanna minnkuðu við sig vinnu þegar dró að starfslokum þeirra og fannst það mikilvægt en þrjár kvennanna höfðu ákveðið að hætta á einhverjum tímapunkti og stóðu við það. Einn karlanna glímdi við veikindi og varð að hætta störfum af þeirri ástæðu og einum var gert að hætta þegar hann náði 67 ára aldri. Ein kvennanna varð að hætta að vinna í kjölfar heilsubrests og ein hætti að vinna vegna veikinda maka síns.Það hafði mikil áhrif á sjálfsmynd þátttakendanna í rannsókninni að vera hættir á vinnumarkaði. „Að horfa á eftir starfshlutverkinu og fá ekkert annað í staðinn er staðreynd sem að þau þurftu að horfast í augu við hvert á sinn hátt og aðlagast því. Ein konan sagði til að mynda að það hefði verið æðislegt að hætta að vinna og geta gert það sem henni sýndist. Einn karlanna var hins vegar ekki alveg eins kátur svona fyrst í stað, hann skammaðist sín, hann kunni ekki við að láta sjá sig labbandi niður í bæ og vera ekki að vinna.
Karlarnir gera hlutina öðruvísi
Olga Ásrún segir að reynsla hjónanna af starfslokum hafi verið jákvæð í tengslum við hjónabandið.Hugsanlega hefði niðurstaðan orðið önnur ef rætt hefði verið við hjón sem hefðu verið gift í styttri tíma eða hefðu átt fleiri hjónabönd að baki. „Þegar hjónin hafa gengið saman um langan veg í farsælu hjónabandi, virðast aðstæður eins og starfslok ekki rugga bátnum mikið hvað það snertir. Það kom skýrt fram að starfslokin væru ákveðin áskorun á hjónalífið sem hvert og eitt þeirra þurfti að vera meðvitað um að takast á við, eins og venjast meiri samveru með maka sínum og láta ekki hluti í fari hvors annars fara í taugarnar á sér.“Olga Ásrún segir að það hafi vakið athygli sína að karlar og konur búi sig ekki undir starfslok á sama hátt. Hjónin hafi ekki undirbúið starfslokin sameiginlega nema að því marki að safna í séreignasjóði eða leggja til hliðar fjármagn. Konurnar takist meira á við undirbúning sinn með ígrundun og horfi inn á við en karlarnir þurfi að aðgerðabinda undirbúning sinn með því að minnka við sig vinnuna áður en kemur að starfslokum þeirra. „ Svo virðist sem starfið og starfshlutverkið sé meira ríkjandi í hugum karla en kvenna sem geti ráðist af því að á fyrri árum hjónabandsins voru konurnar flestar heimavinnandi á með börnin voru lítil en fóru út á vinnumarkaðinn efir að þau uxu úr grasi. Það sé konum því ef til vill eðlislægara að geta verið heima og fundið sér eitthvað við að vera, því verði breytingin við starfslokin ekki svo mikil hjá þeim. Aftur á móti hafi karlarnir verið útivinnandi í samfellt hálfa öld. Þá komi á daginn að breytingin varð meiri hjá þeim þar sem starfslokin skullu fyrirvaralaust á og þar hafi aðlögunarferlið tekið lengri tíma. Hjá þeim þátttakendum sem gátu undirbúið sig með því að minnka vinnuna virtist aðlögunin eftir vinnu taka styttri tíma og gefa betri líðan og ánægju.
Fyrir þá sem vilja kynna sér verk Olgu Ásrúnar er hægt að smella hér.