Ég hef oftar en einu sinni mætt hópi unglinga á göngustíg klæddum samkvæmt nýjustu tísku með hljóðgræjur í eyrunum og fýlusvip og hugsað með mér: Skyldi maður verða barinn? Svo hefur einhver þeirra boðið kurteislega gott kvöld. Þetta hefur minnt mig á að það er ekki gáfulegt að gera sér of almennar hugmyndir um aldurshóp, jafnvel þó að hann kunni að bera sameiginleg útlitsmerki.
Sjá má margs konar einfaldanir og fordóma varðandi fólk sem komið er yfir sextugt sem sýna að það þykir ekki sérlega fínt að vera gamall. Þetta birtist til dæmis í því að hópnum eru oft valin jákvæð og smjaðursleg nöfn á borð við úrvalsfólk eða sextíu plús. Það þætti líklega jafngilda hálfgerðri árás að tala um gamla eða aldraða.
Aldursfordómarnir eru úti um allt. Vinur minn á Facebook gat ekki orða bundist í byrjun árs þegar hann fékk sendan myndskreyttan bækling þar sem fjallað var um þjónustu við hópinn. Á þremur myndanna var verið að spila á harmonikku. Hann benti á að rokkkynslóðin væri nú um áttrætt þannig að harmonikkan væri kannski ekki alveg einkennishljóðfærið. Efnið var greinilega gert af fólki með fastmótaðar hugmyndir um aldraða sem hafði gleymt að það er stöðug nýliðun í gangi.
Aðrir algengir fordómar varðandi gamla er að þeir eigi erfitt með að ná sambandi við tölvur. Það þykir til dæmis nánast fréttaefni ef þeir geta átt myndspjall í gegnum tölvu hjálparlaust. Í því sambandi vil ég geta þess að þó að Steve Jobs heitinn, Bill Gates og ég höfum ekki oft verið nefndir í sömu andránni þá fæddumst við um svipað leyti og ég hef notað tölvur frá þeim frá því að þær komu á markað fyrir nokkrum áratugum. Getur verið að það séu smá einfaldanir í gangi?
Svo ég stundi smá sjálfsgagnrýni verð ég að viðurkenna að aldursfordómana má mögulega að einhverju leyti rekja til míns eigin aldurshóps en við vorum uppreisnargjörn og drógum visku hinna eldri í efa. Nú er því kannski kominn tími til að vera harðskeytt gamalmenni og reyna að kveða niður fordómana.
Maður á að vera stoltur af og þakklátur fyrir að fá að eldast. Aldri fylgir bæði reynsla og viska. Meðal þess sem ég hef lært á langri og góðri ævi er að það er árangursríkt og gefandi að lifa og starfa saman í fjölbreyttum hópum þar sem jafnvægi ríkir ekki bara varðandi kyn, litarhátt, menntun og lífsviðhorf, heldur einnig hvað varðar aldur.