„Ég hætti að vinna síðast liðið vor, þannig að það má segja að ég hafi síðustu mánuðina fengið aðlögunartíma, fyrir það sem hellist yfir mann á þessum tímum. Það breytist margt þegar maður hættir að vinna, það þarf að koma sér upp annarri rútínu. Áður var ég í daglegum samskiptum við fólk í vinnunni en núna er maður nánast ekkert í kringum fólk en það venst,“ segir Katrín Kristinsdóttir kennari. Þegar hún hætti að vinna, hafði hún kennt í 45 ár. „Ég ákvað að hætta á meðan ég væri en við góða andlega og líkamlega heilsu, þannig að ég gæti gert eitthvað og ég réð líka við þetta fjárhagslega. Ég var líka orðin langþreytt eftir öll þessi ár, nánast útbrunnin. Þetta er slítandi starf, en líka skemmtilegt, eins og öll önnur vinna,“ segir hún við blaðamann Lifðu núna.
Skrítnir tímar
Dagarnir hjá Katrínu eru hver öðrum líkir á dögum kórónuveirunnar. „Ég er voðalega lítið í kringum fólk, fer út í búð og versla ef ég þarf á því að halda og er í kringum son minn sem á tvo drengi, tveggja og sex ára og þó það sé ekki mælt með því þá passa ég þá oft. Ég er ekki alveg tilbúin að kyngja því að ég sé orðin svo gömul að ég sé í miklum áhættuhópi. Ég er frísk, það er ekkert að mér, þannig að það er kosturinn. Það breytir miklu fyrir mig að hafa litlu strákana í kringum mig af og til. Þetta eru skrítnir tímar.
Margir sem óhlýðnast Víði
Maður var búinn að koma sér upp rútínu, að fara alltaf í ræktina og hreyfa sig, en nú breytist það“, segir hún og hefur í staðinn farið daglega í um klukkutíma göngur, svona eftir því hvert hún leggur leið sína. „Ég fer mikið í Elliðaárdalinn, en það er reyndar mikil umferð þar og margir sem eru ekkert að hlýða Víði. Ef ég mæti þremur manneskjum er undantekning ef þær fara í röð, en taka þess í stað allan stíginn. Svo þarf ég stundum tilbreytingu frá umhverfinu hér í kring. Þá fer ég kringum Rauðavatn eða geng t.d.í miðbænum kringum Tjörnina og í Hljómskálagarðinum. Ég hef líka farið menningargöngu inní Laugardal, í Grasagarðinn, skoðað stytturnar hjá Ásmundi Sveinssyni í leiðinni og svo er alltaf gaman að koma í garð Einars Jónssonar á Skólavörðuholtinu. Á Kjarvalsstöðum eru menn búnir að setja listmuni út í lglugga, það er allt mögulegt hægt að gera til að stytta sér stundir“.
Eru nánast búnar að loka sig inni
Katrín segist hætt að fara á kaffihús til að hitta fólk, veit ekki einu sinni hvort þau eru enn opin. Rétt áður en samkomubannið skall á ætluðu þær að hittast nokkrar gamlar skólasystur, en ekkert varð af því. „Svo nýtir maður tímann núna líka til að vera í símasambandi við ættingja og vini, ég er enn duglegri en áður að hringja í systur mínar, þær eru allar eldri en ég og eru nánast búnar að loka sig inni“, segir hún og hringir líka oftar í vinkonur sínar og börnin sín, en hún og eiginmaðurinn Árni Þorvaldsson eiga tvær dætur og einn son sem öll eru uppkomin. „Ég er nánast í daglegum samskiptum við son minn og tala líka oft við stelpurnar. Ég les mikið og finnst það óskaplega gaman, svo prjóna ég og horfi meira á sjónvarpið en áður, t.d. ýmsa þætti og alla þessa menningu sem verið að er bjóða uppá. Meðan maður kemst út í búð til að kaupa í matinn, út að ganga og hefur símann og sjónvarpið, bækurnar, handavinnuna og litlu börnin, þá er manni engin vorkunn. Auðvitað sakna ég þess að komast ekki innan um fólk, fara í leikhúsið eða í bókaklúbbinn, þar sem þessum viðburðum hefur veriðð frestað. Það er leiðinlegt að komast ekki út á meðal fólks og geta ekki sest niður og spjallað“ segir Katrín sem segist loka sig af eins mikið og hægt er. En það er að vísu svipuð staða hjá ættingjum mínum og vinum.
Notar tímann í hestana
„Ég hef gaman af því að ferðast og nú er ég að flokka dót og henda. Þetta eru meðal annars gamlir ferðabæklingar og þess háttar. Maður er bara að taka til hjá sér. Viðfangsefnin sem hægt væri að ráðast í á heimilinu eru ótal mörg. Hún segir eiginmanninn aðallega stunda hestamennsku þessa dagana. „Hann notar sinn tíma fyrst og fremst í hestana, er með hesta upp í Víðidal og er mikið þar. Þar er margt um manninn en passað vel uppá tveggja metra fjarlægðina. Hann fer líka í verslanir þegar með þarf, en við erum almennt ekki í samskiptum við fólk. Það er rétt að forðast smit með öllum ráðum og fara varlega. Það væri ekki gott að fá þetta,“ segir Katrín.
Fer bara þegar flugleiðin opnast
Önnur dætranna býr í Reykjavík og á tvö börn. „Ég sé þær af og til,“ segir Katrín. Hin dóttirin býr í Bandaríkjunum. „Hún var svolítið hikandi hvað hún ætti að gera, vildi jafnvel koma heim en óvíst er hvort hún hefði komist svo hún ákvað að vera úti. Hún hafði verið á Nýja Sjálandi með kærastanum sínum sem sótti þar ráðstefnu. Þau rétt sluppu þaðan áður en öllu var lokað. Þau búa í Oregon fylki, í litlum bæ Corvallis skammt frá Portland. Þar er matvöruverslun opin, apótek og blómabúð. Ég ætlaði í heimsókn til þeirra og á bókað flug sem óvíst er að verði nokkuð af. En ég hætti ekkert við það og fer bara þegar flugleiðin opnast, hvenær sem það verður. Svo ætluðum við gamlar skólasystur í ferð til Rómar, eigum bókað þangað 30.apríl. Við vorum búnar að greiða inná ferðina en höfum svo ekkert heyrt frá ferðaskrifstofunni. Það hefur engin okkar gert ferðina upp, enda verður hún örugglega ekki farin. En Róm fer ekkert,“ segir hún æðrulaus.
Verið að fækka fólkinu á jörðinni
Katrín gerir að umtalsefni að heyrst hafi kenningar um að maðurinn sé búinn að haga sér svo illa á jörðinni að það sé verið að fækka þar fólkinu þar. „Það verður reyndar áhugavert að sjá hvernig heimurinn verður þegar þetta er gengið yfir. Ætli hugsunarhátturinn breytist, þannig að menn átti sig á hvað það er sem er mest virði í lífinu og láti af græðgisvæðingunni? „Það er mikið talað um að að við stöndum saman í þessu, við eigum að vera góð við hvort annað á þessum tímum. Það væri óskandi að veiran gæti leitt til þess að samskipti meðal manna yrðu enn betri. Ég hef auk þess miklar áhyggjur af umhverfinu. Það verður hins vegar engin breyting í umhverfismálunum nema við breytum okkar lifnaðarháttum. Kannski getum við litlu breytt, en ef við fullnýtum matvæli, drögum úr fatasóun, ökum á vistvænni bílum og gerum öll eitthvað, skiptir það máli. Það er greinilegat að við þurfum að taka okkur á ef ekki á illa að fara,“ segir hún.
Veturinn búinn að vera erfiður
Katrín segist aldrei hafa verið jafn dugleg að sá fræjum fyrir sumarblóm og kryddjurtir eins og núna. „Ég bíð eftir að komast í garðinn og fara að planta út. Þegar ég tala við dóttur mína í Ameríku á Facetime, situr hún úti á stuttermabol og sýnir mér blómin sem hún er að gróðursetja. Þar er komið sumar en hér hefur veturinn verið svo erfiður. Það er fyrst og fremst veðurfarið, svo veiran og hver veit hvað gerist næst. Eldgos við Grindavík?“