Góður sundsprettur er margra meina bót og styrkir jafnt sem stælir. Sumir synda án sundgleraugna og eiga á hættu að svíða í augun og verða rauðeygðir. Flestum finnst betra að nota sundgleraugu, en vandamálið er að þau þarf að herða vel að höfðinu svo vatnið smjúgi ekki á milli. Vegna þessa fá margir djúp gleraugnaför og poka undir augun, sem hverfa ekki fyrr en mörgum klukkutímum eftir sundsprettinn.
Svæðið kringum augun verður sérstaklega viðkvæmt með árunum þegar húðin missir smám saman teygjanleikann. Sundfólki, einkum í eldri kantinum, finnst það ábyggilega ekkert sérstakt augnayndi með sundhettu og – gleraugu, en setur það þó alla jafna ekki fyrir sig enda tæpast hægt að hafa hégómann í fyrirrúmi við íþróttaiðkun af því taginu. Samt hvimleitt að andlitið beri merki heilbrigðs lífstíls með þessum hætti – ef svo má að orði komast.
Öll sund þurfa þó ekki að vera lokuð því margir hafa gripið til þess ráðs að nota óvenjulega stór sundgleraugu til að koma í veg fyrir gleraugnaförin og hrukkupokana. Slík gleraugu sogast að andlitinu fyrir ofan augabrúnir og fyrir neðan viðkvæmasta svæðið undir augunum. Umrædd sundgleraugu minna svolítið á hlífðargleraugu, sem fólk fær þegar það kaupir flugelda, og geta líka komið sér vel við að skera niður lauk, rétt eins og sundgleraugu í öllum stærðum og gerðum.