Landssamband eldri borgara hefur sent frá sér umsögn um það hvernig fjárlagafrumvarpið snertir hagsmuni umbjóðenda sinna. Aðalatriði umsagnarinnar eru þessi:
- Ellilífeyrir hækki um sömu upphæð og almenn laun
- Almennt frítekjumark verði hækkað
- Rekstur hjúkrunarheimila verði tryggður
- Framkvæmdasjóði aldraðra verði ekki veitt bráðbirgðaleyfi til að taka þátt í rekstri
Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að auk leiðréttingar vegna vanáætlunar á yfirstandandi ári skuli ellilífeyrir hækka á árinu 2022 um 3,8%. Sú hækkun nemur um 10.109 kr. á mánuði en á sama tíma verða almennar launahækkanir 17.250 kr. á mánuði.
Það er skýr krafa Landssambands eldri borgara að Alþingi fari að lögum og ellilífeyrir fylgi almennri launaþróun samanber 69. gr. laga nr. 100/2007. Hækkunin bætist við lífeyrinn eftir að upphæð hans hefur verið hækkuð um 0,8% sem er leiðrétting vegna ársins 2021.
LEB kynnti fyrir Alþingiskosningar öllum stjórnmálaflokkum áherslur sínar í 5 efnisatriðum. Þar er efst á blaði að hækka almenna frítekjumarkið í 100.000 kr. enda myndi sú breyting nýtast þeim sem eru með lægstan lífeyrinn vel.
Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að frítekjumark atvinnutekna hækki um 100.000 kr. á mánuði og verði á ársgrundvelli 2,4 milljónir. Hafa verður í huga að boðuð breyting í frumvarpinu hefur mjög takmörkuð áhrif á afkomu lífeyristaka þar sem einungis um tíundi hver ellilífeyrisþegi hefur einhverjar atvinnutekjur og þar af er meirihlutinn með tekjur undir núverandi frítekjumarki, 100 þús. kr. á mánuði.
LEB krefst þess að rekstur hjúkrunarheimila verði tryggður og þeim gert kleift að veita þá þjónustu sem elsta og veikasta fólkið okkar á rétt til samkvæmt gildandi lögum. Ekki er hægt að sjá í frumvarpinu að verið sé að taka á miklum og viðvarandi rekstrarvanda hjúkrunarheimila um land allt.
Hægt er að nálgast umsögn LEB um fjárlagafrumvarpið í fullri lengd á vef Alþingis með því að smella hér.