Hvernig er að giftast aftur eftir andlát maka? Um það er fjallað í eftirfarandi grein eftir Kathleen M. Rehl, á vefnum Sixty and me. Greinin fer hér á eftir í lauslegri þýðingu.
Fyrir tveimur mánuðum gekk ég aftur í hjónaband orðin 71 árs. Já, við Kalli gengum upp að altarinu eftir átta ára samband og létum pússa okkur saman.
Við erum bæði ánægð með að hafa stigið þetta skref og byrjað nýjan kafla í sambandinu sem hjón. Kalli segir að það sé gæfa hans í lífinu að hafa kynnst mér og mér finnst það sama um hann, ég elska hann heitt.
Elska líka fyrri manninn
Ég var eyðilögð þegar fyrri maðurinn minn lést fyrir 12 árum. Þá var ég viss um að ég myndi aldrei elska annan mann, ég gæti það hvorki né vildi. Tom hafði verið sálufélagi minn, besti vinur, elskhugi, faðir barnanna minna og við rákum fyrirtæki saman. Allt mitt líf snerist um hann.
Eins og mörg pör höfðum við heitið því að standa saman í blíðu og stríðu, alveg sama hvað á dyndi. Við áttum góða tíma þessi ár en einnig aðra tíma sem voru ekki jafn góðir. Við hétum hvort öðru meira að segja, að við myndum aldrei giftast aftur ef eitthvað kæmi fyrir. En síðan kom krabbameinið og tók manninn minn frá mér.
Sagði mér að finna ástina aftur
Mánuði áður en Tom lést, sagði hann við mig, „Ég vil að þú gleymir loforðunum okkar um að eignast ekki nýjan maka, ef eitthvað kæmi fyrir annað hvort okkar. Finndu ástina á ný þegar ég er farinn. Ekki eyða því sem eftir er ævinnar ein. Þú hefur svo margt að gefa og þarfnast þess að elska einhvern. Ekki vera ein það sem eftir er“.
Ég gat ekki komið upp orði. Ég vildi ekki heyra hann segja þetta. Eftir áratuga samband, gat ég ekki gert mér í hugarlund líf án hans. Ég var þess fullviss að ég myndi aldrei elska annan mann, hvernig væri það líka hægt?
Ég var alveg örugg á því að ég yrði ánægð með að lifa lífinu ein, ég myndi njóta þess að vera með fjölskyldunni og vinkonum mínum. Ég myndi hafa vinnuna og alls kyns félagskap sem ég var með í. Ég kærði mig ekki um að taka ráðum Toms um framtíð mína, eða þannig hugsaði ég þá.
En mér skjátlaðist.
Þá hitti ég Kalla
Fjórum árum eftir andlát Toms fór sorgin að sefast og ég kynntist Kalla á netinu. Hann var ekkill og átti svipaða sögu að baki og ég. Áður en konan hans kvaddi þennan heim, sagði hún honum að hann ætti að gifta sig aftur, einn góðan veðurdag.
Hún vildi ekki að Kalli yrði einmana. Hún mælti meira að segja með því að hann giftist einni vinkvenna hennar sem var ekkja. En árin liðu og ekki fór hann að ráðum hennar. Þar skipti máli að hann var ekki hrifinn af konunni sem hún vildi að hann giftist.
Við Kalli fórum mjög varlega í sakirnar þegar við fórum að hittast. Við vildum halda í heiðri fyrrverandi maka og samböndin sem við höfðum verið í . Okkur leið vel í félagsskap hvors annars, allt varð svo auðvelt þegar við vorum saman. Jafnvel þótt hundruð kílómetra skildu okkur að, gekk okkur vel að vera í rómantísku fjarsambandi.
Kærastinn minn sem var „farfugl“ var einungis fjóra mánuði í Florida. Ég fór nokkrum sinnum til New York á sumrin áður en ég fór á eftirlaun. Eftir það vorum við til skiptis í húsinu hans fyrir norðan og mínu fyrir sunnan.
Þegar við komumst á sjötugsaldurinn fórum við að venjast lífi hvors annars, börnum og barnabörnum. Þegar við urðum nánari, hvöttum við börnin okkar til að hittast sem fjölskylda. Þau komu frá ýmsum stöðum á landinu og hittu okkur við nokkur tækifæri. Með tímanum þróaðist ágætis samband milli sona minna og dóttur Kalla, ásamt mökum þeirra og börnum.
Við Kalli snerum okkur að fjárhagslegum og lagalegum atriðum. Við vildum hafa allt rétt í þeim efnum og allt uppi á borðum. Við höfðum lesið okkur til um að ósætti vegna peninga, gæti eyðilagt sambönd sem hefjast á efri árum. Við ræddum mikilvæg atriði varðandi peningamálin, vegna þess að góð og hreinskilin umræða, er lykillinn að sterku sambandi okkar á milli.
Sönn ást deyr aldrei
Já, ég mun alltaf elska fyrri manninn minn hann Tom. Sú ást er frábrugðin ástinni sem ég ber til Kalla, nýja mannsins í lífi mínu. Ég verð alltaf ekkja Toms, en ég er líka eiginkona Kalla. Það er gæfa mín að elska báða þessa yndislegu menn – eins ólíkir og þeir eru og mér svo óumræðilega dýrmætir.