Elsta kvennfataverslun landsins færir út kvíarnar

Guðrún R Axelsdóttir

„Nei við erum svo sannarlega ekki að loka á Laugaveginum, við höfum hins vegar  opnað aðra verslun í Skipholti 21b,“ segir Guðrún R Axelsdóttir annar eigandi Bernhards Laxdal og bætir við að það sé brjálað að gera í Skipholtinu. Þúsundir kvenna á öllum aldri hafa í tugi ára verið dyggir viðskiptavinir Bernhards Laxdal. Mörgum brá í brún þegar það fréttist að nýja verslunin væri að opna í því þeir héldu að þar með væri verið að loka á Laugarveginum.

Bernhard Laxdal er elsta starfandi kvennfataverslun landsins. Hún var stofnuð af Bernhard Laxdal á Akureyri árið 1938 og seldi utanyfirhafnir. Verslunin sendi yfirhafnir í póstkröfu um allt land sem þótti ansi góð þjónusta á þeim tíma. Útibú frá Bernhard Laxdal var opnað á annari í hæð Kjörgarði árið 1959. Kjörgarður var þá glæsilegasta verslunarhúsnæði landsins og þar voru 25 verslanir og rúllustigi á milli hæða sem þótti miklum tíðundum sæta á þeim tíma. „Í versluninni er gott úrval af kápum og jökkum og þar fást einnig húfurnar, veskin og hanskarnir,“ sagði í blaðagrein frá upphafi sjöunda áratugarins. Tímamót urðu svo í sögu Bernhards Laxdal 1982 þegar verslunin flutti úr Kjörgarði á Laugaveg 59. Enn önnur tímamót urðu svo þegar Guðrún og Einar Eiríksson keyptu verslunina árið 2001 en fram til þess tíma hafði Bernhard Laxdal verið í eigu sömu fjölskyldunnar.

„Við höfum verið trú upprunanum og höfum lagt áherslu á að vera með mikið úrval af kápum og öðrum utanyfirhöfnum. Á sama tíma höfum við líka lagt kapp á að vera með gott úrval af  almennum kvenfatnaði,“ segir Guðrún. Hún segir að það verði mismundi áherslur í búðunum. Það verði lögð meiri áhersla  á að vera með fjölbreyttar utanyfirhafnir í Skipholtinu en á Laugarveginum ætli þau að vera með léttari fatnað, fatnað sem henti jafnt ferðamönnum sem Íslendingum.

 

 

 

Ritstjórn mars 28, 2017 12:35