Ungt fólk í blóma lífsins býst sjaldnast við öðru en það fái að njóta langra og farsælla ævidaga. Engu að síður kjósa flestir að tryggja sig gegn sjúkdómum eða tryggja afkomu nánustu aðstandenda ef þeir falla frá. Líftrygging veitir fjárhagslega vernd og getur munað öllu fyrir þá sem eftir lifa ekki hvað síst meðan fjölskyldan er að festa sig í sessi og koma sér upp þaki yfir höfuðið. En ekki allir vita að líftryggingar gilda eingöngu til 75 ára aldurs og Lifðu núna veit dæmi þess að fólk hafi greitt af slíkum tryggingum án þess að vita að þær séu ekki í gildi.
Nýlega fékk Lifðu núna sendan tölvupóst frá lesanda sem hafði uppgötvað að líftrygging sem sonur viðkomandi hafði tekið út fyrir hann og borgað af væri ekki í gildi lengur. Viðkomandi var orðinn 79 ára og tryggingarverndin því runnið út fyrir fjórum árum en sonurinn verið rukkaður áfram. Honum hafði láðst að skoða skilmálana og hélt því áfram að borga reikningana þegar þeir bárust. Fyrir tilviljun rak kona hans augun í að inn í tryggingapakkanum væri líftrygging fyrir foreldri mannsins og hún vissi að samkvæmt vátryggingalögum falla slíkar tryggingar niður þegar tryggingataki nær 75 ára aldri. Lesandi okkar og sonur hans eru nú að reyna að fá endurgreitt iðgjaldið frá tryggingafélaginu sem um ræðir.
Yfirleitt velur fólk í upphafi samnings hver er fær greiddar bætur ef tryggingatakinn fellur frá. Hann verður sjálfur að breyta því ef aðstæður hans breytast. Til dæmis ef fólk skilur eða rétthafi tryggingarinnar fellur frá á undan tryggingataka. Sé það ekki gert getur það flækt málin verulega og það hefur gerst að fyrrverandi maki njóta bóta úr líftryggingu en ekkja/ekkill eða sambúðaraðili viðkomandi einskis. Einfalt er að breyta um arftaka eða rétthafa tryggingar á samningstímanum. Í þeim tilfellum sem einstaklingar eru ekki giftir er hægt að tilgreina sambúðarmaka sem rétthafa líftryggingar.
Hjá Allianz eru viðskiptavinir upplýstir
Lifðu núna hafði samband við tryggingafélagið Allianz til að athuga hvort fólk þyrfti í öllum tilfellum að vera vakandi fyrir því sjálft að tryggingar þess væru að renna út. Þar fengust eftirfarandi svör:
Ber tryggingafélögum ekki að upplýsa tryggingataka um að verndin sem trygging veitir sé að renna út?
„Hjá Allianz eru viðskiptavinir upplýstir þegar tryggingarvernd er að renna út eða fellur niður. Við innheimtum ekki iðgjöld af óvirkum tryggingum.“
Líftryggingar Allianz eru með föstu iðgjaldi út allan samningstímann. Iðgjaldið er reiknað við upphaf samnings út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir og helst síðan óbreytt í Evrum út samningstímann. Þess vegna geta samningar hjá Allianz verið mjög hagstæðir fyrir viðskiptavini, einfaldlega vegna þess að þeir halda sama iðgjaldi, óháð aldri eða heilsufarsbreytingum síðar meir.
Borgar sig að halda við gamalli líftryggingu eða ætti fólk að hætta að kaupa slíkar tryggingar t.d. við 60 aldur?
„Hvort fólk velur að halda tryggingu er alfarið þeirra ákvörðun, en í okkar tilviki skiptir mestu að iðgjaldið helst stöðugt. Það eina sem getur mögulega haft áhrif á virka tryggingu hjá Allianz er að ef tryggingataki reykir. Ef viðskiptavinur hættir að reykja getur iðgjaldið lækkað, en ef hann byrjar að reykja getur það hækkað. Að öðru leyti helst iðgjaldið óbreytt og verndin óbreytt.“
Hvað með sjúkratryggingar?
Þótt Íslendingar búi að mörgu leyti við gott heilbrigðiskerfi eru sjúkdómatryggingar aukin vernd. Það er dýrt að verða veikur og Lifðu núna lék forvitni á að vita hvort sjúkdómatryggingar væru á einhvern hátt háðar aldri. Við leituðum til Tryggingamiðlunar Íslands og spurði um hvernig því væri háttað.
Getur fólk búist við að fá fullar bætur úr sjúkratryggingum veikist það af einhverjum þeirra sjúkdóma sem það er tryggt gegn í skilmálum þeirra þegar það er komið á efri ár?
„Ef tryggingataki greinist með sjúkdóm sem fellur undir skilmála tryggingarinnar þá MUN upphæðin greiðast út svo lengi sem tryggingin er virk og í skilum,“ segir Anna Margrét Árnadóttir tryggingaráðgjafi hjá Tryggingamiðlun Íslands.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







