Ekki alls fyrir löngu endurskilgreindi Alþjóðaheilbrigðismálastofnun Sameinuðu þjóðanna sín viðmið um æviskeið þannig að þau rími betur við nútímann. Samkvæmt uppfærðri skilgreiningu stofnunarinnar er manneskjan ung til 65 ára aldurs og miðaldra til 79 ára. Þetta kemur fram í nýju fréttabréfi U3A. Þar birtist einnig pistill eftir Ásdísi Ásgeirsdóttur, blaðamann og ljósmyndara, sem skrifar reglulega pistla um hvernig hún upplifir að eldast.
Í stórskemmtilegum pistli hennar sem birtist í Morgunblaðinu 16. október s.l. upplýsir hún hvernig hægt er staðfesta miðöldrun á einfaldan hátt. Hún segir að þú vitir að þú sért miðaldra kona ef að þú svarar eftirfarandi spurningum játandi:
- Þú manst eftir því þegar það var ekkert sjónvarp á fimmtudögum.
- Þegar þú dvaldir sumarlangt í sveit var þar sveitasími, og já, það var hlerað.
- Þú manst eftir Húsinu á sléttunni og Dallas.
- Þú lærðir á tölvu eftir tvítugt.
- Þú áttir símboða.
- Þú lærðir á myndavél með filmu.
- Vinnufélagar þínir margir gætu hæglega verið börnin þín.
- Á föstudögum geturðu ekki beðið eftir að koma heim og horfa á sjónvarpið undir sæng.
- Þú vaknar hálfsjö um helgar þótt þú vildir sofa út.
- Þú sofnar yfir bíómyndum. Líka stundum í bíó.
- Roger Moore er þinn Bond.
- Eitt helsta tilhlökkunarefni lífsins er kaffibollinn að morgni dags.
- Þú skilur ekkert hvernig Twitter virkar.
- Þú ert nýlega búin að uppgötva nýjan takka á símanum. Að slökkva.
- Eftir bíó eða leikhús eru allir liðir stirðir.
- „Íþróttameiðsl“ gera vart við sig við minnstu áreynslu í ræktinni.
- Undarleg aukakíló laumast á líkamann, þrátt fyrir puðið í ræktinni.
- Þú færð sjokk þegar þú sérð mynd af þér því þú hélst þú værir miklu grennri.
- Það eru hár farin að vaxa út úr hökunni, enninu og nefinu.
- Þú skilur ekki alveg starfsheitið „áhrifavaldur“.
- Einu mennirnir á Tinder sem læka þig eru nánast komnir á elliheimili.
- Þér er alveg sama þótt öðrum finnst þú púkó.
- Þú notar orð eins og púkó, hosiló, sjarmerandi og lekker.
- Unglingarnir þínir rúlla reglulega augunum í návist þinni.
Niðurstaða Ásdísar er að það þýði ekkert að berjast á móti því að vera miðaldra og nær sé að fagna þessu lífsskeiði. „Við miðaldra fólkið erum kannski ekki alltaf með nýjustu tæknina á okkar valdi, vitum ekki hver er heitasti rapparinn, en við vitum okkar viti.“