Íbúar Evrópu eru að eldast og þeir eignast æ færri börn. Það liggur því fyrir að á komandi áratugum mun Evrópubúum fækka. Lýðfræðisérfræðingar og ráðherrar frá fjölda landa funduðu nú í vikunni í Sofia, höfuðborg Búlgaríu, til að ræða íbúaþróun álfunnar á ráðstefnu á vegum UNFPA, Mannfjöldastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Meðal sláandi talna um lýðfræðiþróunina í Evrópu eru þessar: Um aldamótin síðustu voru íbúar Austur-Evrópu, að Rússlandi meðtöldu, um 300 milljónir. Nú er því spáð að sú tala verði komin niður í um 250 milljónir árið 2075. Íbúafjöldi Búlgaríu náði hámarki í lok níunda áratugar síðustu aldar, 8,9 milljónum. Nú er hann um 6,9 milljónir. Um fjórðungur allra íbúa Evrópu er núna yfir sextugu og um miðja öldina verður meira en þriðjungurinn í þeim aldurshópi.
Lýðfræðibreytingar sem tækifæri
Forsvarsfólk UNFPA vill líta á þessa þróun jákvæðari augum en hefð er fyrir; þannig segir Alanna Armitage sem fer fyrir svæðisskrifstofu stofnunarinnar fyrir A-Evrópu og Mið-Asíu að „tími sé kominn til að hætta því svartagallsrausi sem einkennt hefur umræðuna, og líta á lýðfræðibreytingar frekar sem tækifæri til að byggja upp aðgreiningarlaus, fjölbreyttari og, þegar allt kemur til alls, sterkari velsældarsamfélög“.
„Oft er þessum lýðfræðibreytingum lýst sem kreppu. En hinir undirliggjandi þættir sem drífa þessa þróun áfram eru þegar nánar er að gáð að mörgu leyti fagnaðarefni frekar en hitt,“ skrifar Armitage. Þjóðfélög Evrópu séu að eldast vegna þess að fólk lifir lengur og heldur heilsunni. Frjósemi sé lægri m.a. vegna þess að konur hafi meira valfrelsi og fleiri tækifæri. Og sums staðar fækki fólki vegna þess að fólk nýtir sér aukið frelsi til að velja sér stað til atvinnu og búsetu.
Vissulega felist áskoranir í því að fást við afleiðingar slíkra lýðfræðibreytinga. Æ færri vinnandi hendur þurfi að standa straum af kostnaðinum við þjónustu við æ fleiri aldraða. Og það er dýrt að halda uppi innviðum og þjónustu í æ fámennari dreifbýlisbyggðum. En þetta séu ekki vandamál sem ógni grunnstoðum samfélaganna. Heldur einfaldlega vandamál sem kalli á lausnir. Og lausnin geti ekki síst falist í því að líta á eldri kynslóðir Evrópubúa sem eina af helstu vannýttu auðlindum álfunnar. Áskorunin felist í því að sjá til þess að íbúar Evrópu eigi ekki aðeins lengri ævidaga heldur haldi heilsunni og virkninni lengur líka.
Í umfjöllun The Economist um málið segir að ástæðulaust sé að tala um öldrun samfélaga sem „lýðfræðilega sprengju“, nær sé að fagna „silfurhærðu hagkerfi“ framtíðarinnar.
Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar