Forvitnilegt var að sjá það sem kom fram á vef Business insider (www.businessinsider.com) um það sem einkennir farsælt fólk. Hér má sjá þessi atriði sem þeir, sem teljast farsælir, eiga sameiginlegt.
Farsælt fólk stjórnast ekki af fortíðinni
Við gerum öll mistök einhvern tímann á lífsleiðinni. Lykillinn er að láta þau ekki stjórna sér heldur læra af þeim. Það er kannski hægara sagt en gert en galdurinn er að búa til tækifæri úr mistökunum.
Það slúðrar ekki
Það er erfitt að standast gott slúður en sannleikurinn er sá að manneskjan sem færir þér slúður mun líka slúðra um þig.
Það segir ekki „já“ þegar það meinar „nei“
Það getur verið erfitt að segja „nei“ þegar þig langar það en til lengri tíma græðir þú á því að vera hreinskilinn.
Það truflar ekki
Það sýnir mikla óvirðingu að trufla annað fólk og tala ofan í það.
Það er aldrei seint (nema af mjög gildri ástæðu)
Þeir sem mæta alltaf of seint telja líklega sinn tíma vera mikilvægari en annarra. Það er okkar val að vera sein/n eða ekki. Farsælt fólk byrjar daginn snemma, undirbýr sig vel og finnur ekki fyrir eins miklu stressi og þeir sem eru alltaf á síðasta snúningi.
Það er ekki langrækið
Langrækni, biturleiki og afbrýðisemi hefur slæm áhrif á þig og engan annan. Ekki setja alla orkuna þína í eitthvað sem þér líkar illa við og getur ekki breytt, þú munt sjá eftir því á endanum.
Það rembist ekki við að passa inn í hópinn
Farsælt fólk hefur tekið ákvörðun um að vera nákvæmlega sá eða sú sem hann/hún er og reynir ekki að breyta sér til að falla inn í ákveðinn hóp. Þau kaupa sér ekki ákveðna hluti til að ganga í augun á öðrum.
Það er ekki hrætt við að gera það sem skiptir mestu máli
Við erum öll hrædd. Hrædd við að framkvæma, hrædd við að mistakast, hrædd við hvað öðrum finnst. En við megum ekki bíða og leyfa vikum, mánuðum og árum að líða. Til að finna fyrir hamingju verðum við að gera það sem skiptir okkur máli og það sem gleður okkur.
Það gerir aldrei ráð fyrir að hafa ekki tíma
Finndu út hvað það er sem gleður þig. Okkur er öllum gefinn jafn mikill tími og við ráðum hvernig við verjum honum. Farsælt fólk nýtir sinn tíma vel.
.