Ingibjörg R. Guðlaugsdóttir formaður stjórnar Háskóla þriðja æviskeiðsins hér á landi, lýsti því á ráðstefnu í síðustu viku, hvernig hún hóf undirbúning fyrir þriðja æviskeiðið, tveimur árum áður en hún ætlaði að hætta að vinna. Hún ákvað að taka þetta sem verkefni enda vön verkefnisstjórn úr sínu starfi. Hún réði Hansínu B. Einarsdóttur sem verkefnisstjóra og þær settust síðan niður við áætlanagerð um hvað skipti máli og hvernig næstu árum yrði varið. Hansína gaf verkefninu heitið „Silfurdagarnir“.
Tími til að láta draumana rætast
Hugmynd Ingibjargar var að þriðja æviskeiðið byði uppá tækifæri, ný ævintýri og þar sem hún var heilsuhraust, tíma til að láta draumana rætast. Þá hugsaði hún sér að þetta æviskeið yrði gæðaár fyrir sig og fjölskylduna. Það er skemmst frá því að segja að Ingibjörg telur verkefnið hafa skilað góðum árangri, enda var hún farin að hlakka til að geta farið að sinna sínum hugðarefnum. En hún benti á að í BALL verkefninu sem Evrópusambandið styrkir, væri rætt um að fólk ætti að byrja að undirbúa þriðja æviskeiðið eftir fimmtugt.
Lærir svo lengi sem lifir
Ingibjörg vílar ekkert fyrir sér. Hún fór seint í nám, beið eftir að bóndinn lyki doktorsprófi og fór þá í öldungadeildina í Menntaskólanum í Hamrahlíð til að taka stúdentspróf, en þá var hún búin að eignast þrjú börn og það fjórða bættist við. Þaðan lá leiðin í landafræði í Háskóla Íslands og eftir það lauk hún tveimur mastersgráðum, annarri þeirra sem var master í mannauðsstjórnun lauk hún um sjötugt. Hún vann lengi hjá Borgarskipulaginu í Reykjavík.
Byrjaði sextug í karate
Þegar Ingibjörg var sextug byrjaði hún í karate. Hún hringdi í íþróttafélagið, sagðist vera sextug og spurði hvort hún mætti koma. Starfsstúlkunni heyrðist hún segja fertug og tók fram að flestir nemendur þarna væru 35 ára. Ingibjörg ítrekaði að hún væri sextug og þá áréttaði starfsstúlkan að hún yrði að hafa sterk bein. Ingibjörg átti á þessum tíma barnabarn sem var í karate og yngri dóttir hennar ákvað líka að byrja að stunda íþróttina.
Spænska og málaralist
En verkefninu „Silfurdagarnir“ er ekki alveg lokið. Ingibjörg gerði hlé vegna veikinda eiginmannsins sem nú er fallinn frá. Hún þurfti líka sjálf að gangast undir stóra aðgerð og það tók tíma að jafna sig eftir hana. Hún stundar ekki lengur karate, en ætlar að ljúka starfslokaverkefninu með því að fara erlendis í þrjá mánuði og sinna sjálfri sér, eins og hún orðar það. Hún er enn að læra. Hefur stundað spænskunám og spreytt sig á að mála.