Þurfum betri lýsingu með árunum

Guðrún Helga Sigurðardóttir skrifar

 Eitt af því sem fer að gefa sig þegar árin líða, er sjónin.  Lifðu núna leitaði til Sigríðar Þórisdóttur augnlæknis sem gefur mönnum hér fimm ráð til að halda augunum heilbrigðum og sjóninni góðri.

1 Fara reglulega í skoðun hjá augnlækni.

Miklu skiptir að augnsjúkdómar séu uppgötvaðir sem fyrst því flesta sjúkdóma er hægt að lækna eða hægja á ef þeir eru greindir snemma. Fólk vill oft gleyma að fara í skoðun á augunum vegna þess að ekkert sérstakt virðist hrjá augun, fólkið sér vel og því virðist allt vera í lagi. En Sigríður segir að það geti verið ýmsir sjúkdómar undirliggjandi sem komi ekki fram fyrr en þeir fari að hafa veruleg áhrif á sjónina. Það sé hægt að fyrirbyggja með því að láta augnlækni fylgjast reglulega með sér. Þá hjálpi að þekkja til ættarsögu um augnsjúkdóma með því að spyrja fjölskyldumeðlimi um augnheilsu, gláku, ellihrörnun í augnbotnum og slíkt.

Sigríður mælir með því að fólk á aldrinum 55-64 ára fari til augnlæknis á tveggja til þriggja ára fresti. Eftir 65 ára aldur segir hún gott að fara á eins til tveggja ára fresti.

2 Borða rétt.

Fæðan skiptir máli hvað augnheilsuna varðar. Fæða sem inniheldur mikið af grænmeti og ávöxtum er gott fyrir augun. Sérstaklega er grænt grænmeti gott, spínat og kál, einnig fiskur sem inniheldur omea 3-fitusýrur eins og lax, silungur og lúða. Sigríður mælir með því að taka inn lýsi reglulega í ráðlögðum skömmtum því lýsið hjálpar.

Þeir sem eru of þungir eiga frekar á hættu að fá sykursýki, hátt kólesteról og háan blóðsykur og það getur haft áhrif á augnheilsuna og sjónina. Það skiptir því miklu máli að gæta hófs í mataræði og halda sér í kjörþyngd. Sigríður mælir með því að 65 ára og eldri láti mæla blóðþrýstinginn reglulega einu sinni á ári til að útiloka sykursýki, hátt kólesteról og þvíumlíkt.

3. Nota hlífðar- og sólgleraugu.

Sólgleraugu eru nauðsynleg til að verja augun fyrir útfjólubláum geislum sólar. Þegar sólgleraugu eru keypt skiptir máli að verja gleraugu sem verja augun vel gegn UVA og UVB geislum. Oft vantar upp á það þegar ódýr gleraugu eru keypt.

Þegar unnið er inni á heimilinu eða stússast eitthvað í garðinum geta hlutir skotist eða vökvi slest í augun. Sama gildir þegar flugeldum er skotið upp. Við allar slíkar aðstæður er alltaf gott að vera með hlífðargleraugu.

4 Hætta að reykja.

Reykingar geta haft slæm áhrif á sjónina og því gefur Sigríður ráðið að hætta að reykja og náttúrulega helst að byrja aldrei að reykja.

5 Næg lýsing.

Fólk þarf meira ljós eftir því sem það eldist og því getur þurft að passa lýsinguna heima hjá sér og í umhverfi sínu. Við lestur er gott að nota sterkari perur í ljósum til að lýsa vel á textann og sömuleiðis umhverfið. Augun þurfa meira ljós til að skynja betur eftir því sem fólk eldist. Það skiptir því miklu máli að passa vel upp á lýsinguna.

 

 

Ritstjórn mars 25, 2014 14:16