Fólk hinna 10.000 skrefa

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar.

 

Ég hef alltaf haft mikla þörf fyrir að hreyfa mig og get gengið endalaust í góðum félagsskap í fallegri náttúru. Tíminn flýgur og skrefin verða óteljandi. En mér hefur aldrei dottið í hug að fara að telja skref. Mér dugar alveg sú góða tilfinning sem fylgir göngunni.

Undanfarin ár hef ég ferðast um landið sem leiðsögumaður Bandaríkjamanna. Við förum oft í göngur saman og þá kynnist maður gjarnan nýjum hliðum á fólki. Ein þeirra er hlið hinna 10.000 skrefa. Ég hef verið með hópa á fallegustu stöðum landsins, bent og útskýrt. Stundum er fólk í hópunum sem virðist vera í sínum eigin heimi og starir í sífellu á armbandstækið eða á símann sinn. Þetta er fólk hinna 10.000 skrefa. Tilgangurinn er ekki sá að njóta náttúrufegurðar heldur að ná skrefunum. Stundum hef ég haft orð á þessu. Þá fer það í hálfgerða flækju, afsakar sig og segir mér gjarnan sögur af einhverjum sem er enn verr staddur í skrefaferlinu. Þessir gestir mínir laumast gjarnan út fyrir háttinn til þess að komast upp í rétta tölu og geta þar með sofið svefni hinna réttlátu.

Ég hef alltaf trúað því að öll hreyfing sé betri en engin. Þessu trúi ég enn. Mér skilst að 10.000 skref séu um það bil 8 kílómetrar. Ég veit ekki hvaða spekingur kom upphaflega með þessa skrefakenningu. Sennilega einhver snillingur í markaðssetningu. Skrefateljari, jólagjöfin í ár fyrir pabba gamla og mömmu!  Um daginn heyrði ég í fréttum í að kannski væru 7.500 skref á dag alveg nóg fyrir hinn dæmigerða meðalmann. Ég ætla ekki að dæma um það.

Í vikunni var ég í göngu með bandarískri konu. Hún spurði mig um holdarfar Íslendinga. Út frá því fórum við að tala um hreyfingu og gildi hennar. Við vorum sammála um skrefateljarana. Hún sagði mér að mörg fyrirtæki í Bandaríkjunum væru með bónusa fyrir fólk sem fylgdi 10.000 skrefa kenningunni. Svipuð hugmyndafræði og við notum um að ganga eða hjóla í vinnu. Svo hló hún og fór að telja upp leiðir sem fólk notaði til þess að svindla, bæði gagnvart vinnuveitandanum og sjálfu sér. Hún sagði mér frá systur sinni sem sæti heima fyrir framan sjónvarpið á kvöldin og hristi handlegginn með græjunni til þess að plata hana upp í 10.000. Hún hafði líka heyrt um fólk sem setti græjuna í þurrkara og léti hana hristast þar upp í rétta tölu.

Íslenska vegkerfið gæti verið gott á köflum fyrir teljarana, sundfataþeytarar og jafnvel gamaldags hrærivélar. Vonandi kemur fljótlega að því að einhver hugvitsmaður finni upp hina fullkomnu skrefaþeytu. Þá væri búið að leysa þennan vanda með skrefin. Dagurinn byrjaði þá með því að skrefateljarinn færi í skrefaþeytuna sem þeytti honum upp í 10.000 skref. Eigandi teljarans og þeytarans gæti þá um frjálst höfuð strokið,  gengið sér til heilsubótar og notið þess að horfa í kringum sig á okkar fallegu íslensku náttúru.

Venjulegir þurrkarar reynast víst vel í baráttunni við skrefin.