Nú er Edda Björgvins komin á þennan skemmtilega aldur þegar samfélagið gargar á okkur að hætta nú og fara að taka því rólega en hún er fædd 1952. Hún segir ,,nei takk, ég ætla sko ekki að hægja á“ og heldur ótrauð áfram. Við hin fáum að njóta góðs af þessum eldmóði því Edda hefur með fullu starfi í leiklistinni verið iðin við að halda ýmiskonar námskeið og nú stendur fyrir dyrum það nýjasta í EHÍ sem nefnist ,,Hætt að vinna, farin að leika!“
Fyrirsögnin á þessu námskeiði segir allt um tilganginn, sem sagt að þegar að starfslokum kemur er kominn tími til að fara að ,,leika sér“ og sannarlega ekki að láta sér leiðast.
Húmor er grafalvarlegt samskiptatæki
Edda er svo þakklát fyrir að hafa fengið að halda fyrirlestra og námskeið fyrir svo marga, meðal annars við háskólana á íslandi út frá mastersritgerð sinni. Hana skrifaði hún í menningarstjórnunarnámi sínu hjá Bifröst og ber titilinn ,,Húmor í stjórnun“.
Edda er endalaust að bæta við sig námi til að halda áfram að vaxa og þroskast en líka til að fá fleiri tæki og tól til að nýta á námskeiðum sínum. Hún skráði sig í námið ,,Jákvæða sálfræði“ í EHÍ og kláraði það fyrir nokkrum árum síðan. Í tengslum við það nám fór Edda til London til að læra styrkleikaþjálfun og hefur verið að vinna með það sem hún lærði þar og samskiptatækið húmor inni á vinnustöðum og víðar. Nýverið lauk Edda síðan sálgæslunámi í EHÍ.. ,,Ég er búin að vera í mörg ár að kenna í Endurmenntun HÍ með alls konar útgáfur af því hvað húmor er grafalvarlegt fyrirbæri en nýtist óskaplega vel, meðal annars sem hamingjuaukandi afl og gleðisprauta í vinnuumhverfi. Nýjasta námskeiðið sem Edda kemur að í Háskóla Íslands, sem sagt ,,Hætt að vinna, farin að leika“ er hluti af því að halda í jákvæðni og gleði fram eftir öllum aldri. Hún er líka í hópi leiðbeinenda í mjög spennandi námi sem kallast Magna Vita námið og er haldið í Háskólanum í Reykjavík. Það nám er einnig ætlað fólki sem er komið að starfslokum en er þó byggt upp á annan hátt, en bæði námskeiðin miða að því að gera þennan tíma, sem forfeður okkar pökkuðu saman og urðu ,,gamlir“, sem skemmtilegastan. ,,Í seinni tíð er sá tími nefnilega orðinn ansi langur meðal vestrænna þjóða og getur verið svo skemmtilegur ef rétt er á málum haldið,“ segir Edda. ,,Svo kynnist maður alltaf svo skemmtilegu fólki í öllu námi, fólki sem á það sameiginlegt að vilja bæta við sig þekkingu í því markmiði að auðga líf sitt,“ segir Edda.
Mæðgin saman með námskeið
Edda hefur verið með námskeið við Háskólann á Akureyri í nokkur ár með syni sínum Björgvini Franz. ,,Þetta er stjórnendaþjálfun með áherslu á tjáningu og samskipti. Við Björgvin höfum verið að flækjast saman í alls konar kennslu og verkefnum sem er óendanlega skemmtilegt. Þetta eru leynistörf segi ég því þessi kennsla er ekki auglýst í fjölmiðlum eins og leiklistarstarfið er gjarnan,“ segir Edda.
Hugmynd fyrir starfslokahópinn
,,Stjórnendur Endurmenntunar komu að máli við mig og buðu mér að taka þátt í hugmyndavinnu varðandi námskeið fyrir þá sem eru að ljúka starfsævinni. Ég sagði þeim frá því að ég væri nýbúin að tala við tvær vinkonur mínar sem voru að klára Jákvæðu sálfræðina í vor, þær Soffíu Vagnsdóttur og Thelmu Björk Jónsdóttur. Þær tvær voru með sérstaklega áhugaverð lokverkefni um þroskað fólk og hamingjuaukningu. Lokaverkefni Thelmu Bjarkar hét einfaldlega ,,leikskóli fyrir fullorðna“ og það var í rauninni kveikjan að þessu námskeiði og starfsfólkið í EHÍ hoppaði strax á vagninn.
Við erum allar þrjár búnar að ljúka diplómanámi í jákvæðri sálfræði þar sem við fengum afskaplega góða verkfærakistu til að nýta.
Við bjuggum til námskeið þar sem kjarninn var ,,að leika sér“. Niðurstaðan er því sú að við reynum að svara spurningunni um það hvernig við förum að því að skemmta okkur vel eftir starfslok.“
Edda segir að EHÍ stilli verði námskeiðanna í hóf svo allir geti tekið þátt. ,,Það er svo dásamlegt að báðir háskólarnir í Reykjavík bjóða þessum aldri upp á stórkostleg námskeið sem eru mjög ólík en bæði með það meginmarkmið að auðga líf fólks eftir starfslok. Ég mæli með því að það fari á bæði námskeiðin ef fólk hefur tök á“ segir Edda og brosir.
Finnum fjörið
Edda segir að þær þrjár leggi saman í púkk og finni fjör og skemmtilegar og öðruvísi leiðir til að fara eftir en með þeim séu Guðrún Bergsteinsdóttir sem er frábær lögfræðingur og sérfróð um erfðamál og svo er sérfræðingur í lífeyrismálum sem heitir Lilja Lind Pálsdóttir.
,,Svo er spennandi að vita hvort fólk skráir sig á þetta námskeið. Ég er svo hrædd um að of margir sinni svo vel því hlutverki að eldast illa, hratt og örugglega og þurfi þess vegna hjálp við að eldast fallega og í gleði. Það er margsannað að það er hægt að framkalla gleði fram eftir öllum aldri alveg eins og það er hægt að framkalla leiðindi.“
Námskeiðið ,,Hætt að vinna, farin að leika“ er haldið á mánudögum og miðvikudögum í EHÍ klukkan 16:15 – 19:15 í þrjár vikur og hefst 2. október. ,,Það er gott að geta bent á að stéttarfélögin taka þátt í kostnaði við þessi námskeið,“ tekur Edda fram.
Búin að sjá og reyna margt sjálf
Edda hefur alveg fengið sinn skammt af áföllum í lífinu eins og aðrir en segist vera svo lánsöm að hafa fengið léttleika og gleði í vöggugjöf. ,,Ég er geðgóð manneskja að öllu jöfnu og fyllist mjög auðveldlega tilhlökkun og það er gjöf. Mér þykja áskoranir skemmtilegar ef lífið er í jafnvægi. Það er ekkert að marka þau tímabil þegar fólk er að ganga í gegnum áföll sem valda ójafnvægi. Við getum auðvitað ekki alltaf verið hoppandi kát og verðum að gefa okkur rými til að þjást alveg eins og við verðum að gefa okkur leyfi til að vera hamingjusöm,“ segir Edda og er fúlasta alvara.
Andleg umhverfismengun
,,Á þessum tuttugu árum sem ég er búin að koma inn í fjölmörg fyrirtæki er alltaf viss hópur sem telur sig vera gagnrýninn en er í rauninni bara bullandi mengun og gleðispillandi manneskjur. Þetta fólk veit ekki muninn á því að rýna til gagns og því að sturta yfir aðra neikvæðni. Ég veit að neikvætt fólk nýtist ver en aðrir í samfélagi manna, en ef við komumst nær því markmiði að vera jákvæð þá nýtumst við öllum heiminum betur.
Á leið í jógakennaranám
,,Ég veit að jógaiðkun gerir mér rosalega gott en ég hef ekki verið nógu staðföst í þeirri ástundun því ég tel mér trú um að ég hafi alltaf svo mikið að gera. En nú ætla ég í jógakennaranám hjá Auði Bjarnadóttur til þess að þrýsta á mig til að stunda jóga daglega. Svo gæti dottið í mig að bjóða upp á námskeið fyrir stirða, óþolinmóða og þá sem halda að þeir geti ekki stundað jóga,“ segir Edda og skellihlær.
Síðan er Edda að fara að stunda sjóinn undir leiðsögn Margrétar Leifsdóttur. Hún segist vita núna að það þurfi ekki endilega að henda sér til sunds í sjónum. Það geri ótrúlega mikið gagn að vaða bara í sjónum, fá ,,kikkið“ í kuldanum og öll góðu söltin og steinefnin sem þar eru.
Sér unga stelpu í speglinum
,,Þvílík gæfa að sjónin skuli versna með aldrinum,“ segir Edda. ,,Þegar ég lít í spegil sé ég bara tiltölulega unga konu,“ segir hún og skellihlær.
Fyrirmyndirnar mínar í lífinu eru foreldrar mínir og ekki síst sterku kvenfyrirmyndirnar í móðurætt. Þegar amma mín var búin að koma börnunum úr hreiðrinu var hún búin að nurla saman fyrir ódýrri ferð til Danmerkur og enn ódýrari ferðum með Tjæreborg og hélt út í heim. Það hvarflaði ekki að henni að hún gæti ekki gert allt sem hana langaði til að gera. Ég drakk í mig allt sem hún sagði og gerði og hafði áhuga á öllu sem hún var að bardúsa. Hún hafði mikla visku úr dönsku blöðunum og var óþreytandi að segja okkur ýmis sannindi um hollustu vítamína. Hún var ein sú fyrsta sem náði sér i Kákasusgerilinn og Himalayasveppinn, drakk kartöfluvatn og sagði það bæta minnið. Margir kölluðu þetta dellu en ég gleypti við þessu öllu. Og pabbi var óstjórnlega jákvæður og orkumikill og einstakur gleðigjafi og sá alltaf ljósið í öllu. Fjölskylda mín var og er mikill fjársjóður í lífi mínu,“ segir Edda.
Skemmtilegir uppalendur mömmu sinnar
Edda á fjögur börn, tvær dætur, Margréti Ýrr og Evu Dögg, sem hún segir hlæjandi að séu báðar orðnar eldri en hún og svo á hún tvo syni, Björgvin Franz og Róbert Ólíver sem séu alveg að ná henni í aldri.
,,Þau eiga það sameiginlegt börnin mín að vera sérstaklega hjartagóðar og vel gerðar manneskjur og einstaklega skemmtilegir uppalendur mömmu sinnar,“ segir Edda Björgvins og brosir.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.