Dauðadjúp sprunga er nýjasta bók Lilju Sigurðardóttur og sýna alla hennar bestu kosti. Líkt og venjulega er í bókum Lilju koma upp nokkrir mismunandi flæktir endar sem síðan taka að rakna upp og fléttast saman. Morðið á Ísafold ásækir enn Áróru, systur hennar. Morðinginn er ekki fundinn og fyrst lík Björns, sambýlismanns hennar, finnst á sama stað lítur ekki út fyrir að hann hafi drepið kærustu sína þrátt fyrir að hafa beitt hana ofbeldi.
Áróra þráir svör en lögreglan er þögul um framvindu rannsóknarinnar, jafnvel Daníel getur ekki hjálpað henni því honum er líka haldið utan við rannsóknina. Hann fær peningaþvættismál til rannsóknar og fær Áróru til að aðstoða sig. Brátt kemur í ljós að angar þess máls tengjast Birni.
Lilja kann vel þá list að halda lesandanum við efnið og hún er mjög snjöll í að finna leiðir til að rekja söguþráðinn áfram með nýjum og nýjum vísbendingum. Þeir sem hafa lesið fyrri bækur hennar um Áróru eru orðnir vel kunnugir persónuleika hennar en í þessar bók fáum við enn betri innsýn í hugarheim Ísafoldar og við kynnumst einnig Birni betur. Loks tekst að leiða til lykta gátuna um hvarf Ísafoldar en spurningin er hvort það nægi til að Áróra finni frið og nái að festa rætur á Íslandi.