Okkur hefur verið uppálagt að tala ekki mikið um dauðann, sér í lagi í návist barna eða viðkvæmra því dauðinn sé eitthvað hræðilegt og umræða um hann gæti skaðað þá sem á hlýða. Staðreyndin er sú að nákvæmlega jafnmörg tilfelli eru af fæðingum og dauðsföllum í heiminum og á meðan við fögnum fæðingum eigum við erfitt með að sjá eitthvað jákvætt við það þegar fólk deyr. Söknuðurinn verður öllu öðru yfirsterkari og við nemum oft enga aðra tilfinningu sem er svo eðlilegt, sér í lagi þegar nákomnir hverfa fyrirvaralaust.
Þegar betur er að gáð er kannski meiri samsvörum milli þessara tveggja fyrirbæra, fæðingarinnar og dauðans. Fæðingin á sér aðdraganda, er mjög erfið en uppskeran er mikil þegar vel gengur. Dauðinn á sér oft aðdraganda og sá aðdragandi getur verið mjög erfiður. Mótsagnakennt er að tala um uppskeru líkt og við fæðinguna. Og þó? Því ef við lítum á líf þess sem deyr er augljóst að í afkomendum felst mikil uppskera og þar trúi ég að sé í raun framhaldslífið okkar. Ég upplifði það mjög sterkt nýverið þegar ég var svo lánsöm að vera viðstödd dauðastund kærrar vinkonu.
Allir sem fæðast munu deyja
Þrátt fyrir þrá mannsins að lengja lífið eins mikið og mögulegt er verða tilraunir okkar og vilji lítils megnug því við mætum dauðanum alltaf að lokum en erum bara sjaldnast tilbúin. Við leitum oft að skýringu á því af hverju svo illa fór en ef til vill er dauðinn ekki það versta þegar upp er staðið.
Erfiðast af öllu er auðvitað þegar við verðum að sætta okkur við það þegar saklaus börn deyja sem því miður gerist of oft. Margir leita í trúna og aðrir sætta sig alls ekki við þessi ósanngjörnu endalok dásamlegrar lífveru. En þegar fullorðnir neyðast til að mæta þessu ofsalega afli sem dauðinn er þá þarf geysilegan kraft til að sjá eitthvað jákvætt við hið óumflýjanlega. Er þá hægt að koma auga á eitthvað fallegt við dauðann?
Að skilja dauðann
Ég upplifði sannarlega fegurð og jákvæða tilfinningu þegar dauðastund þessarar vinkonu minnar nálgaðist. Allir hennar góðu kostir og snilli urðu enn skýrari. Börnin hennar og barnabörn voru viðstödd og hún hafði valið staðinn þar sem hún vildi skilja við. Svo heppilega vill til að tvö barna hennar eru læknar og gátu séð um að hún þurfti ekki að líða kvalir. Það var mikið hlegið því ánægjulegar stundir voru rifjaðar upp og nóg var af þeim en svo var líka grátið því allir viðstaddir voru meðvitaðir um það sem var að gerast.
Aðdragandinn hafði verið nokkur því þessi vinkona mín hafði veikst þremur árum fyrr. Læknavísindunum hafði fleygt þannig fram að það sem hefði áður verið dauðadómur breyttist og hún fékk mjög góð tvö ár eftir erfiða meðferð. Hún var sannarlega þakklát og nýtti tímann vel, hefði auðvitað kosið að fá lengri tíma með sínum nánustu en sætti sig við orðinn hlut. Henni var boðið að fara aftur í gegnum meðferð en afþakkaði það sem þýddi bara eitt. Hún tók ákvörðunina þess vegna sjálf um að taka á móti dauðanum og af þeirri ástæðu er hægt að tala um að stundin hafi verið falleg.
Þessi vinkona mín bjó í Bandaríkjunum og náði að koma til Íslands í brúðkaup kærrar frænku og hitta vini og ættingja. Fyrir okkur öll var það ómetanleg stund þar sem við nutum samvista við hana. Það varð svo kristaltært að við ráðum ekki skapadægrum okkar og sýndi okkur fram á fegurðina við að standa augliti til auglitis við hið óskiljanlega. Við getum nefnilega aldrei skilið dauðann.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar







