Heilbrigt kynlíf eftir miðjan aldur

Kynlíf leikur stórt hlutverk í lífi flestra og gegnir lykilhlutverki í rómantískum samböndum. Þótt hugmynd margra sé að kynlöngun hverfi eftir ákveðinn aldur þarf það alls ekki að vera raunin. Kynlífið breytist bara eftir því sem við eldumst.

Allir ganga í gegnum breytingar þegar aldurinn færist yfir, bæði konur og karlar. Þessar breytingar hafa áhrif á það hvernig við bregðumst við kynferðislegum athöfnum, þar á meðal kynlöngun. Sumir finna fyrir sársauka við kynlíf, virkni og þol minnkar og hormónamagn í líkamanum minnkar.

Þótt þessar breytingar geti gert okkur erfiðara með að taka þátt í skemmtilegu kynlífi er mjög mikilvægt fyrir alla að skilja breytingarnar sem þeir eru að ganga í gegnum og læra hvernig bregðast skuli við, til að hægt sé að halda áfram að eiga hamingjusamt og heilbrigt kynlíf.

Hvaða breytingar hafa áhrif á kynferðislega virkni?

Aldursfordómar gera ráð fyrir að fólk hætti að stunda kynlíf eftir vissan aldur. Það er hins vegar alrangt. 65% fólks á aldrinum 65 – 80 ára segjast enn hafa áhuga á kynlífi og eru kynferðislega virkir. Kynlíf hefur m.ö.o. ekkert aldurstakmark.

Algengasta kynlífstruflun kvenna er minnkuð löngun á meðan risvandamál hrjáir karla. Rannsóknir hafa bent til að 50% karla yfir 40 ára glími við þetta vandamál að einhverju leyti. Ástæðurnar eru af ýmsum toga en lyf og áfengi spila þar stóran þátt. Almennar ráðleggingar til manna með stinningarvandamál geta t.d. falið í sér að hætta reykingum, grenna sig, minnka áfengisneyslu, auka hreyfingu og gæta að mataræði, en mjög algengt er að sértækum meðferðarúrræðum sé líka beitt.

Einkenni sem trufla

Verkir við kynlíf af völdum breytinga á kynfærum vegna tíðahvarfa gerir oft vart við sig en þá verður ekki nægur náttúrulegur smurningur í leggöngunum, en við því eru ráð.

Ýmsir sjúkdómar, þar á meðal liðagigt, vitglöp, hár blóðþrýstingur, langvarandi streita, sykursýki, kvíði eða þunglyndi geta einnig haft áhrif á kynlíf einstaklingsins, sér í lagi þegar hann eldist enn meira. Lyfin sem ávísað er við þessum sjúkdómum geta haft frekari áhrif á kynhvöt og því er mikilvægt að ræða við lækni ef talið er að svo sé.

Vandamál sem geta komið upp hjá kynferðislega virku fólki

Vandamál, sem konur á miðjum aldri ættu að varast ef þær eru kynferðislega virkar, eru nokkur. Ef þær upplifa að fullnægingin sé minna áköf eða önnur örvunarvandamál séu til staðar gæti verið ráð að láta athuga ástand hjartans. Þetta geta verið merki um hjarta- og æðasjúkdóma sem fara að láta á sér kræla 7-10 árum síðar hjá konum en körlum og er ein helsta dánarorsök kvenna eldri en 65 ára.

Annað áhyggjuefni sem gott er að hafa í huga eru kynsjúkdómar. Á meðan getnaður er ekki lengur inni í myndinni eftir tíðahvörf er þörfin fyrir að nota smokk ekki lengur fyrir hendi. En þótt ekki sé lengur hætta á að verða barnshafandi er engin ástæða til að hætta að lifa öruggu kynlífi.

Tölfræði frá CDC, eða Centers for Disease Control and Prevention, sýnir að fjöldi lekandatilfella jókst um 164% í Bandaríkjunum í aldurshópnum 55 ára og eldri á árunum 2014 – 2018. Tilfellum sárasóttar fjölgaði um 120% hjá sama hópi og clamydiu um 85%. Mælt er með því að fólk láti prófa sig fyrir þessum sjúkdómum ef samfarir eru hafðar við nýja bólfélaga.

Að viðhalda heilbrigðu kynlífi

Þurrkur og sársauki í leggöngum við kynlíf getur fælt konur frá því að stunda kynlíf. En góðu fréttirnar þær að til eru ýmsir meðferðarmöguleikar til að draga úr óþægindum og gera kynlífið skemmtilegt aftur. Hægt er að fá lyf hjá læknum til að meðhöndla þurrk í leggöngum. Einn valkostur er að fá hjá lækninum staðbundna hormónameðferð en sú meðferð þykir ákjósanlegust til að viðhalda og byggja upp slímhúð legganganna og aðstoða við að búa til smurningu. Þessi kostur þykir öruggari en hormónauppbótarmeðferð.

Ástæður minni kynhvatar

Lítil kynhvöt getur stafað af breytingum eins og tíðahvörfum og veikindum. Þar að auki geta sálrænar orsakir, streita og léleg líkamsímynd haft áhrif. En til eru leiðir fyrir konur til að yfirstíga þessar hindranir og auka kynhvöt sína aftur ef þær vilja.

Fólk á miðjum aldri er hvatt til að ræða við kynlífráðgjafa sem getur veitt fræðslu sem hentar hverjum og einum best. Slík manneskja getur einnig útvegað lesefni og ráðleggingar fyrir pör sem vilja viðhalda kynferðislegri löngun.

Leiðir til að stjórna heilbrigðu kynlífi

  • Vertu opinn fyrir því að breyta skilgreiningu þinni á kynlífi.
  • Vertu opinn í samskiptum við maka.
  • Prófaðu kynlífsmeðferð.
  • Ráðfærðu þig við lækninn þinn.

Nánd er mikilvægur þáttur í öllum rómantískum samböndum. Breytingar sem verða á líkömum okkar eftir því sem við eldumst neyða okkur til að njóta kynlífs á annan hátt en þegar við vorum yngri og það er bara gott.

 Upplýsingar af vef Sixty and me og af vef þvarfæraskurðlækna.

 

 

Ritstjórn júlí 28, 2022 07:00