Góð leið til að hressa upp á sambandið

Sigrún Stefánsdóttir

Ég byrja alla morgna á því að ýta í sambýlismanninn og biðja hann um að kveikja á útvarpinu. Það er komin hefð á það að útvarpið sé hans megin. En það er alltaf ég sem vil hlusta á sjöfréttirnar. Það er fyrst í þessum skrifuðu orðum að mér dettur í hug að ef til vill ætti ég að færa tækið yfir á náttborðið mitt. Þetta er bara eitt lítið dæmi úr daglega lífinu sem einkennist af litlum venjum.

Sambúð er nokkurs konar samsafn af venjum tveggja – sumar þeirra eru skemmtilegar en aðrar ekki. Við sitjum oft föst í þessu samsafni og stundum gerist það að við týnum okkum í þessu neikvæða og það kemur þreyta í sambandið.

Í vetur fann ég óvart leið til þess að hressa upp á sambandið við minn yndislega sambýlismann. Við skráðum okkur í skóla saman. Við fórum í Leiðsögumannaskólann.Við héldum að þetta væri létt nám og löðurmannlegt sem mætti leysa með vinstri höndinni og litla heilanum. Það reyndist ekki vera svo. Með fullu starfi var þetta heilmikið álag. Börn og barnabörn voru sett á ís og allar frístundir fóru í lestur og undirbúning fyrir próf. Við sátum heilu helgarnar við stofuborðið, lærðum saman og bölvuðum kennurunum fyrir kröfurnar. Þurrkuðum rykið af enskunni okkar, lærðum allt um plöntur, dýrin smá og stór, landnámið og fólksfjölda á Breiðdalsvík. Við vitum allt um  eldgos, hörmungar, einokun, ofbeldisverk forfeðra okkar, notkun áttavita í regni og náttmyrkri, myndum þúfna og kirkjur Rögnvaldar Ólafssonar. Ég skildi háskólanemana mína allt í einu miklu betur – prófkvíði – hann ber að virða.  Við bjuggum okkur til dagatal þar sem við krössuðum yfir  próf og töldum niður dagana fram að útskrift – alveg eins og í gamla daga. Við héldum partý  þegar þessu var lokið og sögðum stolt  – þetta gátum við !

Þegar þessu öllu var lokið og þreytan að baki uppgötvaði ég að ég á alveg nýjan sambýlismann. Hann er miklu glaðari og ég er það líka. Við eigum alveg hafsjó af nýjum umræðuefnum. Hann tekur fastar utan um mig og við styðjum hvort annað í fyrstu rútuferðunum. Við höfum kynnst nýjum hliðum á hvort öðru. Við hoppuðum saman út í djúpu laugina og göngum nú sterkari saman út í ný ævintýri í íslenskri ferðamennsku.

Auðvitað veit ég að það væri ekki gott að öll pör færu í leiðsögumannanám. En málið er bara það að gera eitthvað saman. Upplifa ögrun saman. Kynnast nýjum hliðum Það hressir upp á sambandið. Áður en að leiðsögumaðurinn sem ég bý með kemur heim úr Mývatnssveit í kvöld,  ætla ég að vera búin að flytja útvarpstækið. Á morgun mun ég bjóða honum góðan dag með kossi í stað þess að ýta í hann og biðja um sjöfréttirnar.

 

 

 

 

 

 

 

Sigrún Stefánsdóttir júní 2, 2017 11:45