Svana Helen Björnsdóttir, verkfræðingur, frumkvöðull, stofnandi og einn eigenda hugbúnaðar- og verkfræðifyrirtækisins Stika og fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins ákvað ung að árum að helga hluta starfstíma síns eldra fólki. Stiki hefur þróað heilsumatskerfi sem notað er í öldrunarþjónustu um allt land.
Skynjaði einmannaleikann
Svana Helen segist hafa haft áhuga á málefnum eldra fólks frá barnæsku. Þegar hún var unglingur fór hún annan hvern sunnudag, í tvo vetur, ásamt nokkrum félögum sínum í Kristilegum skólasamtökum (KSS) og KFUM og K og heimsótti aldrað fólk á Hrafnistu í Reykjavík. Sama hvernig viðraði, það var vaknað snemma, farið í strætó ofan úr Breiðholti og niður í bæ, og heimilisfólkið heimsótt. Stelpurnar fóru til kvennanna og greiddu og fléttuðu og hjálpuðu þeim að klæða sig en strákarnir heimsóttu karlana. Í samvinnu við starfsfólk Hrafnistu og Jóhönnu I. Sigmarsdóttur, síðar prest og prófast, skipulögðu unglingarnir svo helgistund með heimilisfólkinu. Þar spiluðu þau á gítar og sungu og fólkið tók undir með þeim. „Ég hitti alltaf sömu gömlu konurnar þegar ég kom í heimsókn á Hrafnistu. Ég sá hvernig búið var að fólkinu. Ég ræddi mikið við heimilisfólkið og skynjaði vel hvernig því leið. Sumir voru afskiptir og fáir sem sinntu um þá, ég skynjaði einmannaleika þess fólks. Það var yndislegt að kynnast þessu fólki og þroskandi,“ segir Svana Helen. En ætli jafnöldrum hennar hafi ekki þótt þetta skrýtið. „Ég sagði engum frá, ég var nú ekki merkilegri manneskja en það á þessum tíma. Ég held að enginn hafi vitað af heimsóknum okkar á Hrafnistu nema foreldrar mínir – og auðvitað þeir aðrir sem þátt tóku – en þetta var gert af einlægum og hlýjum hug og við ætluðumst ekki til að fá neina umbun fyrir,“ segir hún.
Erum efni og andi
Afstaða fólks til aldurs er afar mismunandi og margir vilja ekki viðurkenna það að þeir séu að eldast. „Amma mín var rúmlega áttræð þegar hún fór á hjúkrunarheimili en þá talaði hún samt enn um gamla fólkið – og átti þá aldrei við sjálfa sig. Ég held að við eldumst ekki hið innra, það eru aðrir sem eldast í huga okkar. Okkur finnst við alltaf ung hið innra. Svo lengi sem við erum forvitin um lífið og höfum áhuga á því sem gerist í kringum okkur – þá erum við ung. Við erum efni og andi, þó að efnið hrörni þá er andinn óbugaður,“ segir Svana Helen og bætir við að glíman við elli kerlingu geti reynst mörgum erfið. Fólk missi kæra vini eða maka og það sé áfall fyrir fólk að finna að það geti ekki lengur gert það sem það var áður fært um. Það sé hins vegar hægt að fresta einkennum öldrunar mjög lengi og margt sé hægt til að gera fólki lífið léttbærara. Hver og einn geti svo hugað að eigin heilsu með því hreyfa sig reglulega og borða hollan mat.
Raunverulegur aðbúnaður íbúa
Fyrirtæki Svönu Helenar, Stiki hefur lengi unnið að þróun hugbúnaðarlausna fyrir eldra fólk. „Við hjá Stika þróum hugbúnað til að meta heilsu fólks og þörf fyrir þjónustu og umönnun. Hugbúnaðurinn byggir á alþjóðlegri aðferðafræði sem kennd er við RAI, eða alþjóðleg interRAI samtök vísindamanna og sérfræðinga í heilbrigðisþjónustu. Þessi hugbúnaður er notaður í allri öldrunarþjónustu hér á landi. Við þróun hans er byggt á alþjóðlegri aðferðafræði sem farið var að þróa uppúr 1980 vestanhafs. RAI hefur verið kallað á íslensku: Raunverulegur aðbúnaður íbúa. RAI-mat felur í sér aðferð til þess að meta heilsufar og aðbúnað eldra fólks sem býr á hjúkrunar- og dvalarheimilum eða á eigin heimili en þarf heilbrigðisþjónustu af einhverju tagi . Um er að ræða heildstætt heilsu- og færnimat. Safnað er upplýsingum um heilsu og veikindi, hreyfingu, þjálfun, lyf, meðferðir og svo framvegis. „Með RAI-aðferðafræði er hægt að meta heilsufar hvers og eins og halda utan um sögu hans. Hægt er að reikna út gæði þeirrar þjónustu sem í boði er og er þá talað um gæðastuðla og umönnunarþyngd. Út frá þessum mælikvörðum er svo reiknað hvað þjónustan kostar. Þegar búið er að safna öllum upplýsingum á einn stað er mun auðveldara að skipuleggja vinnu heilbrigðisstarfsfólks, skipuleggja teymisvinnu og sjá til þess að hver og einn fái einstaklingsmiðaða þjónustu“.
Fá lyf sem verka oft illa saman
Svana Helen segir að fólk fari í gegnum a.m.k. eitt heildstætt heilsumat á ári og síðan yfirleitt tvö skemmri möt. „Það er líka gert nýtt mat þegar einhverjar breytingar verða á högum viðkomandi. Mikilvægt er að skoða hvaða lyf fólk er að taka. Margir hafa leitað til sérfæðinga og heimilislækna í áraraðir og fengið alls konar lyf og oft verka lyfin illa saman. Lyfin ein og sér valda því oft að fólk hefur ekki sama kraft og það gæti haft ef það tæki ekki öll þessi lyf. Þetta geta verið geðlyf, kvíðastillandi lyf, svefnlyf, örvandi lyf til að hressa fólk inn á milli, svo eru lyf við sykursýki, hjartalyf og ýmislegt fleira -jafnvel lyf við sinadrætti. Hjúkrunarfræðingar og læknar hafa sagt mér að þetta geti verið tugir lyfja og reynt sé að fækka þeim niður í fimm til sjö. Bara það að ná utan um lyfjanotkunina, bætir oft heilsu fólks ótrúlega mikið og þetta er hægt ef fólk fær heildrænt heilsumat á hjúkrunarheimilum,“ segir hún og heldur áfram að það sé svo nauðsynlegt að til séu réttar upplýsingar um fólk sem hægt er að nálgast þegar á þurfi að halda. „Það er þessi heildræna nálgun sem gefst svo vel,“ segir Svana Helen og bætir við að í grunninn safnist svo smátt og smátt dýrmætar upplýsingar sem meðal annars hafa verið notaðar í langlífisrannsóknir hér á landi.
Vill láta gott af sér leiða
Svana Helen er drifin áfram af þeirri löngun að láta gott af sér leiða í samfélaginu, enda segir hún að það verði fáir ríkir af því að koma að málefnum aldraðra. Hún er frumkvöðull í margvíslegum skilningi. Hún valdi sér karlafag þegar hún fór í framhaldsnám. Lærði rafmagns- og raforkuverkfræði við Háskóla Íslands. „Ég þekkti enga konu sem var verkfræðingur svo ég hafði enga fyrirmynd. Það var gaman í verkfræðinni en það var líka erfitt á köflum,“ játar hún. Þegar hún var búin með þrjú ár í HÍ ákváðu hún og mannsefnið hennar Sæmundur E. Þorsteinsson sem einnig er rafmagnsverkfræðingur að fara til Þýskalands í framhaldsnám. „Hann hafði lokið sínu verkfræðinámi hér heima og var búinn að vinna í eitt ár þegar við lögðum land undir fót til að fara í framhaldsnám. Í Þýskalandi lukum við bæði meistaranámi í verkfræði. Þar var ég eina stelpan í mínum árgangi. Ég féll aldrei alveg inn í hópinn – verandi eina stelpan og útlendingur að auki. Ég var ekki alltaf höfð með þó ég væri félagi strákanna í kennslustundum. En þetta herti mig og í dag finnst mér á margan hátt betra að vinna með körlum en konum,“ segir hún.
Hægt að breyta heiminum
Svana Helen segir mjög skapandi að vera verkfræðingur og hún segist aldrei hafa skilið af hverju fleiri konur fari ekki í tækninám og til starfa í tæknigeiranum. „Ég á þrjár frábærar systur sem allar eru miklar lista- og skáldkonur og mjög skapandi í störfum sínum. Það er ekki þar með sagt að það búi ekki listamaður í mér líka. Það mætti alla vega kalla mig athafnaskáld,“ segir Svana og kímir en heldur svo áfram. „Það er hægt að gera alveg ótrúlega skapandi hluti í tæknigreinunum. Að skilja tækni og geta notað hana gerir manni kleyft að framkvæma ótrúlegustu hluti. Ef maður er hugmyndaríkur og tileinkar sér ákveðna færni er hægt að raungera hugmyndir af stærstu gráðu. Það er í raun og veru hægt að breyta heiminum og bæta lífskjör fólks á stórkostlegan hátt, líkt og með heildræna öldrunarmatinu. Heildrænt öldrunarmat er lykillinn að betra lífi fyrir eldra fólk.“ Svana Helen segir að þeim tíma sem notaður er til að hugsa hluti í stóra samhenginu sé vel varið. „Ég sé sjálfa mig ekki öðru vísi en sem tannhjól í gangverki sköpunar Guðs. Þegar maður vinnur við nýsköpun er maður ekki að búa til mestu peningana fyrir sjálfan sig. Ef maður er eingöngu drifinn af peningum velur maður ekki nýsköpun því hún er svo áhættusöm. Maður vinnur í frumhugsun og við koma hlutum í gang. Það þarf mikla orku í slíkt og það er margt sem ekki gengur upp eins og ætlað er. Mér er sagt að ég hafi frumkvöðlaeðli. Sem frumkvöðull sér maður sjálfan sig ekki sem aðalatriðið heldur er verkefnið aðalatriðið. Maður vill taka þátt í að koma gagnlegum og góðum hlutum til leiðar – helst bæta heiminn.“
Formaður SI í tvö ár
Svana Helen var formaður Samtaka iðnaðarins í tvö ár, 2012-2014, og vakti mikla athygli fyrir framgöngu sína. Mörgum þótti kveða við nýjan tón hjá samtökunum eftir að hún tók við. Hún var fyrsta konan sem var formaður SI. „Það var mjög mikilvæg reynsla fyrir mig. Að vera formaður SI gefur góða yfirsýn yfir atvinnulífið í landinu. Innan vébanda samtakanna eru margvísleg fyrirtæki, frumkvöðlar, matvælafyrirtæki, upplýsingatæknifyrirtæki, verktakafyrirtæki, málmfyrirtæki, kvikmyndafyrirtæki, álfyrirtæki, klæðskerar og snyrtifræðingar, svo eitthvað sé nefnt. Hagsmunir þeirra eru ólíkir og allir berjast fyrir sínum hagsmunum og þeirra greina sem þeir standa fyrir. Að vísu eru nokkur öflug fyrirtæki sem standa utan SI og vilja vera þiggjendur að hagsmunabaráttu hinna fyrirtækjanna. Það finnst mér siðlaust. Menn eiga að standa saman, taka þátt og kosta vinnuna saman,“ segir Svana Helen. Meðan hún var formaður fjölgaði félagsmönnum í Samtökum iðnaðarins umtalsvert og hún segist hafa lagt áherslu á að efla samtökin sem vettvang umræðu og skoðanaskipta um mikilvæg hagsmunamál iðnaðarins, t.d. Evrópumál og gjaldmiðilsmál. Þá hafi hún reynt að gera ákvarðanatöku í stjórn samtakanna gegnsærri og samtökin öll ásamt undirdeildum þeirra virkari á sem flestum sviðum.
Hún segist hafa kynnst öllum kimum og skotum atvinnulífsins. Skynjað stóra samhengið og skilið gangverk atvinnulífs og hagkerfisins alls betur. „Maður skynjar kraftana í hagkerfinu og hvernig þeir takast á, þeir eru ekki alltaf samverkandi.“ Gjaldeyrishöftin voru þá eins og nú ofarlega á baugi þegar Svana Helen var formaður og spurningin um hvort ætti að skipta um gjaldmiðil. „Króna eða ekki króna.“ Ég tel ólíklegt að unnt sé að afnema fjármagnshöft að fullu verði krónan áfram við lýði. Hún er vissulega mikilvægt stjórntæki og getur virkað sem vörn gegn öflum sem ógna okkar smáa og viðkvæma hagkerfi. Krónan er aftur á móti kostnaðarsöm, bæði fyrir fólk og fyrirtæki, og hún er takmarkandi fyrir margt í atvinnulífinu. Sumum fyrirtækjum líður vel í gjaldeyrishöftunum á meðan öðrum líður illa. Fyrirtæki sem búa við tollvernd á heimamarkaði geta látið sér líða vel innan haftakerfisins á meðan fyrirtækin sem eru í alþjóðlegri samkeppni eiga erfitt innan hafta, búa við meiri áhættu og geta t.d. ekki fjármagnað vöxt eins og þörf er fyrir.. Ég tel að krónan muni hafi mikið að segja um atvinnu og lífskjör ungs fólks í framtíðinni.“
Svana Helen stundar nú doktorsnámi í kerfisverkfræði samhliða störfum sem stjórnarformaður Stika og vonast til að ljúka því námi á næsta ári. Verkefni hennar fjallar um aðferðafræði við áhættugreiningu og tengist viðskiptatækifærum Stika á alþjóðavettvangi. „Ég er hvergi nærri hætt ég hef ástríðu fyrir öllu því sem ég er að gera,“ segir hún að lokum.