„Mér fannst ágætt að hætta á meðan ég var enn í góðu formi“, segir Guðbjörg Þorsteinsdóttir snyrtifræðingur og fótaaðgerðafræðingur, en hún ákvað að hætta að vinna fyrir tæpum tveimur árum. „Ég hætti á toppnum 74ra ára“, segir hún og hlær. Hún vann síðast við fótaaðgerðir í þjónustuíbúðum eldri borgara við Lönguhlíð. Guðbjörg rak á sínum tíma Snyrtistofuna Mandý á Laugavegi, en venti sínu kvæði í kross þegar hún var fimmtug og fór til Danmerkur að læra fótaaðgerðir. Hún segir að það hafi verið mikið spurt um þær á snyrtistofunni og því hafi hún ákveðið að bæta þeim við sig. Þegar hún hætti með stofuna, fékk hún pláss í Lönguhlíðinni þar sem hún var með fótaaðgerðir í 5-6 ár.
Fór í leikfimi fyrir vinnu á morgnana
Það er með hreinum ólíkindum hvað Guðbjörg er ungleg og í góðu formi, enda hefur hún verið í leikfimi hjá Báru í JSB síðan 1970. Fyrst tvisvar í viku, en síðan fór hún að mæta þrisvar og fjórum sinnum í viku. „Þetta gerir manni svo gott“, segir hún. Aðspurð segist hún ekki enn finna að hún sé að verða stirðari en áður, en sjálfsagt komi að því. „Annars er þetta svo misjafnt, sumir eru frekar stirðir og hafa kannski alltaf verið, en sumir ekki“. Hún fer enn þrisvar í viku í leikfimi, en fór mun oftar þegar hún var að vinna, en þá brá hún sér stundum í leikfimi á hverjum morgni áður en hún fór í vinnuna.
Klippa neglur og taka af sigg
Fótaaðgerðirnar hjá eldri borgurum snúast um margt að sögn Guðbjargar. „Sumir geta ekki lengur klippt neglurnar og það kemur sigg á fæturna. Það er svo erfitt að ná því af að maður verður að nota hníf. Fullorðið fólk ræður kannski ekki við það. Það er hægt að fá sérstaka skera í apótekum, til að taka af sigg en það eru margir sem hafa skorið sig illa við það“. Hún segir að fótaaðgerðafræðingar noti sérstaka hárbeitta hnífa við þetta verk og svo þurfi að raspa húðina á eftir. Fólk sé sett í fótabað með góðri sápu og neglurnar klipptar á meðan húðin er mjúk og hreinsað í kringum þær.
Sumir hafa góða fætur aðrir slæma
Annað vandamál sem Guðbjörg segir að margir glími við með aldrinum er, niðurgrónar neglur, en þá vaxa neglurnar niður í húðina þegar þær þykkna. „Þetta er mjög sárt og það er vont að fara í skó. Stundum þarf að fara til sérfræðings og þá er stundum sett spöng á tána, eða þá að bómull eða renningur er settur undir nöglina til að halda henni frá húðinni“, segir hún. „Síðan þarf að taka harða húð af hælunum og líkþorn ef fólk fær þau. En það er misjafnt hvernig fætur fólk er með, sumir hafa góða fætur en aðrir slæma“, segir Guðbjörg. Hún segist hafa haft gaman af fótaaðgerðunum, það sé svo skemmtilegt að sjá hvað hægt sé að gera fyrir fólk sem sé að drepast í fótunum.
Fá tábergssig af háum hælum
Margir fá tábergssig og sumir segja að konur sem hafi verið mikið á háum hælum eigi frekar á hættu að fá það. „Þá er um að gera að leita til sérfræðinganna“, segir Guðbjörg og segir að það sé hægt að kaupa tábergspúða til að setja inní skóna, en það séu til margar gerðir af þeim. Þegar hún vann við fótaaðgerðirnar í Lönguhlíðinni, kom það sér vel að vera líka snyrtifræðingur. „Sem betur fer eru komnar snyrtistofur á flest elliheimili. Það þarf að plokka augabrúnir og stundum að setja smá lit í þær. Fullorðið fólk fær oft hárvöxt í andlitið, sumir mikið og sumir minna. Þetta eru hár sem þarf að klippa og taka burt. Það er auðvitað mikið atriði að hafa ekki hár um allt andlit og augabrúnir og ég gat stundum bjargað þeim, þegar ég var í fótaaðgerðunum“. segir hún.