Ef foreldrar eru spurðir hvað það sé helst sem þeim finnst að í samskiptum við uppkomnu börnin sín, segja margir að það sé hversu lítið þeir hitti þau. Sambandið sé lítið og börnin hafi ekki samband nema þau þurfi einhvers með. Margir foreldrar skilja ekki þetta sambandsleysi og finnst þeir hafa fjarlægst börnin sem þeir ólu upp. Annað gildir þó þegar alvarleg vandamál eru til staðar hjá uppkomnu börnunum eins og eiturlyfjaneysla eða geðveiki, segir í grein eftir Sally Stich á vefnum Grandparents.com. Greinin fer hér á eftir í lauslegri þýðingu Lifðu núna.
Sálfræðingur að nafni Joshua Coleman sem leitað er álits hjá segir þetta ástand þöglan faraldur, sem eigi rætur að rekja til breytinganna sem orðið hafi í uppeldismálum síðustu 50 árin eða svo. Uppeldisaðferðir hafi breyst . „Það urðu miklar breytingar á sjöunda áratugnum, en þá fóru börnin að verða sá öxull í fjölskyldum sem allt snerist um. Börnin ólust upp við að draga í efa allt yfirvald og sambandið við foreldrana snerist oft um hvað þeim líkaði og hvað ekki. Skilnuðum fjölgaði og það gat haft gríðarleg áhrif, jafnvel á uppkomin börn, ef annað foreldrið snerist gegn hinu.
Hefur myndast gjá á milli ykkar?
Þjóðfélagsbreytingar eða ekki. Ýmislegt hefur gert það að verkum að gjá hefur myndast milli foreldra og uppkominna barna þeirra. Það kann að vera að foreldrarnir geri líka eitthvað óafvitandi sem veldur því að börnin hrökklast í burtu. Það er ekki ætlunin að fæla þau burt, en hefur áhrif engu að síður. Ef börnin þín sýna hegðun sem lýst er hér fyrir neðan, er kannski kominn tími til að skoða samskiptin við þau.
- Þau hringja ekki að fyrra bragði og ef þú hringir, tekur það þau marga daga að svara.
- Það er erfitt að gera plön um að hitta þau, jafnvel þó þau virðist hafa nægan tíma til að hitta vini sína.
- Þau segja lítið um það sem er að gerast í lífi þeirra. „Það er allt í góðu“ er algengt svar ef spurt er.
- Þau eru fljót að láta sig hverfa ef þú kemur með „uppbyggjandi“ komment, jafnvel þó það sé í þeirra þágu.
- Þú varst alltaf til staðar fyrir þau, en þau eru ekki til staðar fyrir þig. Þeim virðist finnast vandræðalegt að heyra eitthvað um þín vandamál.
- Þau kalla þig Fórnarlambið og föður sinn Dýrlinginn. Hvorugt er hrósyrði.
Þú skalt meta stöðu þína og það sem þú getur gert.
Ef þessi atriði hljóma kunnuglega í þínum eyrum , líttu á þau sem viðvörun sem ekki er hægt að leiða hjá sér. Þú vilt hafa betra samband við börnin þín og sem foreldri er það þitt að stjórna því. Spyrðu þig eftirfarandi spurninga.
- Ertu stöðugt að hringja eða senda skilaboð og tölvupósta, þannig að þau upplifa að þú sért alltaf að fylgjast með þeim? Kannski hringirðu of oft, eða á erfiðum tíma, til dæmis þegar þau eru að hátta barnabörnin.Ráð: Ef þig langar að vera í góðu sambandi við þau, spurðu son þinn eða dóttur hvernig þeim finnst þægilegast að þú hafir samband. Í gegnum síma, skilaboð eða tölvupóst og á hvaða tíma sé best að hafa samband við þau. Virtu svo óskir þeirra.
- Fylgistu nákvæmlega með því hversu oft þau hitta vini sína og hversu oft þau hitta ykkur foreldrana? Það má alls ekki, segir sálfræðingurinn. „Sum uppkomin börn vilja frekar vera með vinum sínum, eða eiginkonu og börnum. Það snýst um sambandið við vini, maka og börn, en ekki um að þið séuð slæmir foreldrar“.Ráð: Skipulegðu stuttan hitting með börnum, tengdabörnum og barnabörnum. Kannski pizzu á föstudögum, eða brunch á sunnudögum. Vöfflur á laugardegi eða lambalæri á sunnudegi. Hvaðeina sem hentar.
- Skiptir þú þér af öllu? Það kann að vera ástæðan fyrir því að börnin hafa ekki áhuga á að segja þér hvað er að gerast í lífi þeirra. Af því þú spyrð of margra spurninga og gefur góð ráð óumbeðin.Ráð: Ef sonur þinn segir þér að hann hafi sótt um nýtt starf, ekki fara að spyrja hann í þaula um laun, vinnutíma og ábyrgð. Gerðu ráð fyrir að hann muni segja þér frá því ef hann fær starfið. Ef þú hefur ekkert heyrt eftir ca. mánuð spurðu þá hvort það sé eitthvað að frétta. Ekki ráðleggja honum að hringja í fyrirtækið til að sýna hvað hann hefur mikinn áhuga á starfinu.
- Eru þín góðu ráð kannski gagnrýni í dulargervi? Sonur þinn veit að hann er of þungur og að það er ekki gott fyrir heilsuna. Dóttir þín veit að það er verið að slíta henni út í vinnunni. Öll börn vilja að foreldrarnir séu dús við það sem þau eru að gera, alveg sama á hvaða aldri þau eru.Ráð: Vertu óspar á hrós og hrósaðu þeim af einlægni, Hrósaðu dóttur þinni fyrir hversu góð móðir hún er eða segðu syni þínum hvað hann stendur sig vel í vinnunni. Haltu neikvæðu athugasemdunum fyrir sjálfa þig.
- Er foreldrahlutverkið mikilvægasta hlutverkið í lífi þínu? Colemen segir að foreldrar sem lifa eingöngu fyrir börnin sín, geri oft til þeirra óraunhæfar kröfur. „Þetta er sérstaklega erfitt hjá foreldrum sem reikna með að börnin þeirra leysi vandamálin sem þeir upplifðu sem börn, sem vilja fá að leita huggunar hjá börnunum sínum eða vilja að þau séu þeirra helstu trúnaðarmenn. Uppkomin börn vilja helst ekki vera í því hlutverki, segir hann.Ráð: Þetta eru vandamál sem þú verður sjálf að leita lausnar á. Það þarf hver að vinna í sínum málum, án þess að blanda því saman við foreldrahlutverkið eða ömmu og afa hlutverkið.
- Segir þú alltaf „já“, jafnvel þótt þú viljir segja „nei“. Það finnst engum fórnarlömb vera skemmtileg, þannig að ef þú segir já, þótt þú myndir stundum frekar vilja segja nei, hugsaðu þá um þetta. Það er í góðu lagi að segja nei við óskum eða kröfum sem þig langar ekki að mæta, eða getur ekki tekið að þér, nema með mikilli fyrirhöfn. En það þarf að sjálfsögðu að greina hvort börnin hafa raunverulega þörf fyrir aðstoð.Ráð: Ef barnið þitt hefur eingöngu samband þegar það þarf á aðstoð að halda, notaðu þá beiðni um aðstoð til að segja. „Það er sjálfsagt að gera það, eða Því miður get ég ekki gert þetta núna. En mér fyndist mjög gaman að verja meiri tíma með ykkur við tækifæri, því mér finnst stundum að ég sjái ykkur aldrei nema þegar þið þurfið aðstoð við eitthvað“.
Þegar allt kemur til alls
Við verðum foreldrar alla ævi. Það er okkar að vera við stjórnvölinn, jafnvel þótt við séum pirruð við ofurviðkvæmu börnin okkar eða dramadrottningarnar. Vegna þess að það erum við sem þurfum að sýna þeim hvernig eðlileg sambönd virka. Það þýðir jafnframt að það er allt í lagi að setja uppkomnu börnunum okkar mörk. Ekkert okkar er fullkomið, en við getum alltaf spurt okkur sjálf. Er sambandið mitt við börnin eins gott og það getur verið, þó við séum ólíkt fólk – og ef það er það ekki, hvað er þá hægt að gera?
Þessi grein birtist fyrst á vef Lifðu núna í nóvember 2019