Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar
Nú eru innanlands ferðlög Íslendinga í hámarki. Við hjónin höfum í meira en 40 ár ferðast mikið um landið á sumrin og erum vagnafólk. Við erum enn að finna nýja áhugaverða staði til þess að skoða. Við höfum farið víða um land oftast í góðra vina hópi en stundum ein á ferð. Reynt getur á þolinmæði göngufélaga að bíða eftir ljósmyndurunum eða að missa verður af góðu ljósmyndatækifæri til þess að dragast ekki aftur úr hópnum. Við munum ekki eftir slæmu sumri því ferðir okkar um landið hafa ráðist af hvar góða veðrið heldur sig. Við látum byr ráða för og tökum oft góðan tíma á áhugaverðum stöðum. Sérstakt áhugamál okkar hjóna í ljósmyndun er að safna myndum sem við köllum kynjamyndir í náttúrunni. Einnig höfum við gaman af því að skoða áhugaverða staði og jafnvel finna tilvísun þeirra til lífsins sjálfs. Einn slíkur staður er steinasafn Petru á Stöðvarfirði. Staðurinn höfðar sérstaklega til okkar þar sem Elín kona mín er áhugasamur steinasafnari. Bílinn okkar er oft aðeins þyngri á heimleiðinni en við brottför. Sumarið 2013 vorum við hjónin á ferð á Austurlandi og eftirfarandi pistill varð til og birtist hann á vefsíðu Bústaðakirkju þá um sumarið.
Hamingjusteinar lífsins og steinasöfnun Petru.
Á nýlegri ferð okkar hjóna um Austurland komum við í Steinasafn Petru á Stöðvarfirði. Steinasafnið er einstakt, árangur margra ára elju og þrautseigju. Í sögusafninu má m.a. lesa eftirfarandi texta:
Það dylst engum að Petra ræður yfir sérstakri gáfu til að finna fallega steina. Þeir eru fjölmargir sem hafa farið með henni í steinaleit og hafa lýst því hvernig hún týnir upp glæsilega steina úr slóð þeirra; steina sem þeir veittu enga sérstaka athygli. Suma þeirra hefur Petra sótt niður í fúamýrar án þess að nokkuð gefi það í skyn að þar leynist eitthvað sem vert er að skoða.
Þegar ég las þennan texta kom mér í hug hve fólki er misgefið að finna þá þætti í lífinu sem veita þeim hamingju og gleði. Sumir ösla gegnum lífið og sjá lítið annað á leið sinni en grámyglulega steina meðan aðrir staldra við og átta sig á því að jafnvel ómerkilegir steinar eru gersemar eftir að þeir hafa verið tíndir upp af götunni og fengið umönnun. Sumum er þetta betur gefið en öðrum jafnt í lífinu sem steinasöfnun. Að finna þessa þætti og njóta þeirra er vinna og þjálfun sem stendur ævina alla eins og steinasöfnun Petru. Að vera góður steinasafnari krefst þekkingarleitar um steina og náttúruna. Eins krefst leitin að betra lífi þekkingarleitar og leiðbeininga. Er trúin ekki mikilvæg hjálp í þekkingarleitinni að hamingjusteinum lífsins og betra lífi? Það er mín skoðun.
Ég ræddi við son Petru en börn hennar reka safnið í dag. Fram kom að á hverju vori safnast systkinin saman ásamt fleira fólki en hreinsa þarf steinana fyrir opnunina. Taka þarf sérhvern stein í safninu sem flestir eru utanhús og hreinsa þá. Einnig úða þau reglulega vatni á steinana á opnunartíma til þess að litirnir komi betur fram. Á þetta ekki sama við um hamingjusteina lífsins? Það er ekki nóg að finna þá og vita hverjir þeir eru heldur þurfa þeir reglulegrar umönnunar við.
Petra lést árið 2012. Þeir sem vilja lesa meira um steinasafn Petru á Stöðvarfirði er bent á þennan hlekk www.steinapetra.is