Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara segist verða vör við það í samtölum við eldra fólk að það sé einmana, en Lifðu núna hefur birt greinar um einmanaleika fólks, bæði í Bandaríkjunum og í Danmörku. Einmanaleiki færist þar í vöxt hjá eldra fólki. „Ég get nefnt sem dæmi konu sem varð ekkja. Hún hafði verið mikið í félagslífi með sínum maka og þau ferðuðust mikið. Þegar hann féll frá, datt þetta út. Hún fór að leita inná félagsmiðstöðvar, en fann sig ekki þar. Það er staða sem margir upplifa, móttökur í félagsmiðstöðvunum eru mjög mismunandi þegar nýtt fólk kemur þar inn. Við höfum ekki síður orðið vör við að karlar séu einmana ef þeir verða ekklar. Einn þeirra sagði að það vildi enginn sitja hjá sér eða spjalla við sig á félagsmiðstöðinni sem hann leitaði til, þannig að hann hefði hætt“.
Einmalaleiki eykst ár frá ári
Þórunn segir þetta tengjast rannsókn sem Pétur Kári Olsen gerði meðal starfsmanna dvalarheimila og í félagsstarfi aldraðra, á einelti meðal aldraðra. „Það er töluvert einelti í gangi og það tengist einmanaleika“, segir hún. „Við verðum að taka umræðuna um einmanaleikann. Við verðum að vernda þá einstaklinga sem eru brothættir“, segir hún og bendir á að það eigi við um þá sem hafi misst maka eða börn, vinnu eða eignir. Hún segir að einmanaleiki meðal eldra fólks hér á landi hafi aukist um 1% á ári, eftir að hún fór að fylgjast með. „Fyrstu tölurnar sem ég sá voru að 14% væru einmana, en ég held að þetta séu um 18% í dag. Það er ekki vafi á því að Íslendingar glíma við þetta eins og aðrir, þetta er falið heilsufarsvandamál“.
Vilja fjölga heimsóknarvinum og símavinum
Þórunn segir að í nýrri skýrslu frá Skotlandi, komi fram að einmanaleiki valdi bæði þunglyndi og öðrum kvillum. Fólk leiti til læknis sem finni ekkert að. Með því að smella hér er hægt að sjá hvaða heilsufarsafleiðingar einmanaleikinn getur haft. Þórunn segir að menn séu að huga að þessu hér og Landssambandið sé að vinna að því í samstarfi við Rauða kross Íslands að fjölga heimsóknarvinum eða símavinum. Það sé hugsað til að draga úr einmanaleika.
Einmana fólk nýtir sér útvarp og sjónvarp
„Margir sem eru einmana nýta sér útvarpið“, segir Þórunn. Það sé eldra fólkið sem hlusti á fréttir á klukkutíma fresti. Unga fólkið lesi þær á netinu. Hún segir að í Skotlandi hafi sjónvarp verið frítt fyrir eldra fólk. Menn hafi verið að hugsa um að hætta því, en þá hefði hins vegar verið búist við að einmanaleiki myndi aukast enn meira. Þórunn segist vera með bækling frá Skotlandi og þar sé langur listi yfir það sem stjórnvöld ætli að skoða og gera. „Ég myndi vilja sjá eitthvað svona koma út úr samvinnu okkar við stjórnvöld, að það verði sett niður ákveðin markmið og reynt að ná þeim.
9500 eldri borgarar búa einir hér á landi
Þórunn segir að það sé sáralítil nágrannavarsla hjá eldra fólki. Ef það verði hált eða ófært úti á landi, komi einhver og moki, en það gerist ekki á höfuðborgarsvæðinu. „ Það eru 9500 eldri borgarar sem búa einir á Íslandi og einmanaleika er einnig að finna á hjúkrunarheimilum. Ég á nokkra kunningja sem heimsækja reglulega samferðamenn sem eru komnir á hjúkrunarheimili. Okkur vantar tilfinnanlega þessa hugsun um sjálfboðaliða. Allir sem gerist sjálfboðaliðar finna hvað það gefur þeim mikið“, segir hún að lokum.