Hin fullkomna jólasulta

Á mörgum heimilum er venja að sjóða niður rauðkál og rauðbeður fyrir jólin og margir eiga frá haustinu gómsætar berjasultur. Þakkargjörðardagur Bandaríkjamanna er í dag og ómissandi hluti af siðum þess dags er að nota trönuber í kalkúnafyllinguna eða búa til úr þeim sósu. Ef einhver hér á landi heldur upp á þakkargjörðardaginn er tilvalið að nota það sem gengur af trönuberjunum í gómsæta jólasultu.

2 bollar frosin trönuber

2 bollar frosin eða fersk jarðarber skorin í tvennt

1 bolli eplasafi, helst sykurlaus

rifinn börkur og safi úr einni meðalstórri appelsínu

2 bollar sykur

1 tsk. kanill

½ tsk. negull

½ tsk. múskat

1 – 2 tsk. sultuhleypir (ath. mismunandi er hversu þykka menn vilja hafa sultuna og það má bæta við hleypi þar til þeirri þykkt er náð.)

Aðferð: Setjið trönuberin, jarðarberin, eplasafann, appelsínubörkinn og appelsínusafann í stóran pott. Stillið á meðalhita og látið suðuna koma upp. Lækkið þá hitann og leyfið blöndunni að malla þar til berin eru orðin mjúk og hafa blandast vel. Notið kartöflumerjara til að losa þau vel í sundur og losa sultuna við kekki. Hrærið sykurinn og kryddin saman við og leyfið suðunni aftur að koma upp. Látið malla á eldavélinni í nokkrar mínútur en hrærið síðan uppleystum sultuhleypinum saman við og látið bullsjóða í um það bil eina mínútu og hrærið stöðugt í sultunni á meðan. Takið af hitanum og setjið sultuna í hreinar heitar krukkur. Hellið krukkurnar ekki alveg barmafullar. Það er betra að sjóða krukkurnar áður en sultan er sett í þær bæði til að sterilísera þær en einnig til að þær séu ekki alveg kaldar þegar heitri sultunni er hellt í þær. Leyfið sultunni að kólna og geymið í ísskáp fram að jólum.