Líklega er óhætt að kalla Louis-François Cartier föður hátískuhönnunar skartgripa. Hann stofnaði fyrirtæki sitt árið 1847 og fljótlega urðu kóngafólk, aðalsmenn, auðkýfingar og stórhöfðingjar hans helstu viðskiptavinir. Hann var aldrei hræddur við stóra og áberandi gripi og margt af þeim skartgripum sem nú eru í tísku minna á það sem hann gerði. Í eina og hálfa öld skapaði fyrirtæki hans meistaraverk úr dýrum málmum og eðalsteinum. Meðal fastra viðskiptavina Cartiers í gegnum tíðina voru meðal annarra hertogahjónin af Windsor, prins Aly Khan, furstahjónin í Mónakó og Elisabeth Taylor.
Louis-François fæddist árið 1819 í Frakklandi. Faðir hans framleiddi púðurhorn en drengurinn hafði ekki áhuga á að taka við rekstri föður síns og hóf ungur nám í gullsmíði. Hann tók við rekstri verkstæðis meistara síns tuttugu og átta ára gamall. Hæfileikar gullsmiðsins unga voru miklir en það var ekki fyrr en hann opnaði búð á Boulevard des Italiens að hann vakti athygli þeirra sem virkilega höfðu peninga til að kaupa skartgripi. Fatahönnuðurinn Charles Frédéric Worth kom þar auga á verk hans og þeir hófu samstarf. (Charles var sá sem ábyrgur var fyrir krínólínunni og pilsunum víðu.) Þetta var í fyrsta sinn sem tískuhönnuður og skartgripasmiður unnu saman og markaði upphafið að þeim tengslum sem hafa haldist síðan milli þessara tveggja framleiðslugreina. Árangurinn lét ekki á sér standa og yfirstéttarkonur Evrópu hófu að flykkjast að búðardyrum Cartiers.
Louis-François var þrjátíu og sex ára þegar greifynjan af Nieuwerkerke gekk í fyrsta sinn inn í búðina hans. Á næstu þremur árum þar á eftir keypti hún af honum fimmtíu og fimm gripi sem voru hver öðrum íburðarmeiri. Maður hennar var yfirmaður lista- og menningarmála við hirð Napóleons III og þeirra besta vinkona var Matilde prinsessa, systurdóttir Napóleons I. Þær vinkonurnar voru báðar heillaðar af verkum Cartiers og ekki leið á löngu þar til Eugénie keisaraynja tók eftir hversu glæsilega skartgripi þær stöllur báru. Í kjölfarið varð hún einnig fastur viðskiptavinur Cartiers.
Konungar keppast við að komast að
Cartier varð aðalskartgripahönnuður og ráðunautur við skartgripakaup hjá flestum aðalsmönnum við frönsku hirðina. Vinnan við skartgripasmíðina var um það leyti orðin svo mikil að Cartier þurfti að ráða sér ótal aðstoðarmenn. Edward VII Englandskonungur heyrði af snilli Fransmannsins og þegar hann kvæntist smíðaði Cartier tuttugu og sjö kórónur auk annars glingurs handa konungsfjölskyldunni til að bera við það tækifæri. Alfonso XIII Spánarkonungur gat ekki verið minni en hinn enski kollegi hans og síðan bættust við þeir Carlos I í Portúgal, Nikulás II Rússakeisari og George I Grikkjakonungur.
Um þetta leyti hét Taíland Síam og þar réð ríkjum Paramindr Maha Chulalongkorn konungur. Hann hafði mikið uppáhald á armböndum og valdi sér venjulega um það bil bakkafylli af þeim í búðinni hjá Cartier í hverri heimsókn sinni til Evrópu.
Eitt af því sem einkenndi hönnun Louis-François var að hann var ekki hræddur við að sækja sér innblástur í forngríska og fornegypska muni. Hann kom því með ferskan andblæ inn í evrópska hönnun á þeim tíma og breytti svipmóti hennar varanlega. Hann var til að mynda upphafsmaður þess að gera skartgripi í líki dýra, s.s. hesta, fiðrilda og krabba en einnig urðu höggmyndir til að kveikja með honum hugmyndir. Þannig var ein næla eftir hann gerð með höggmyndina Dansinn eftir Jean-Baptiste Carpeaux í huga. Á þessum tíma var þetta bylting í stíl og vinnubrögðum og féll hún vel í kramið.
Sonarsonurinn snillingur
Alfred Cartier tók við fyrirtækinu af föður sínum árið 1874. Hann virðist hafa erft listræna hæfileika hans. Sonur Alfreds, Louis-Joseph, hóf að vinna með pabba sínum um leið og hann hafði aldur til en Louis-Josep hafði þegið í arf nef hans fyrir kaupsýslu- og fjármálavafstri sem var jafnnæmt og Gáttaþefs þegar viðskipti voru annars vegar. Um þetta leyti var ákaflega vinsæll í Evrópu stíll sem kallaður var „style nouille“. Louis-Joseph fannst fylgja honum of mikil fjöldaframleiðsla og einhæfni í hönnun. Hann vildi því halda sig við klassískara útlit og sótti sér innblástur í franska átjándu aldar list. Hann skoðaði langt fram á nætur kniplinga, skreytingar á járnhandriðum, ljósastaurum og handföngum en einnig skoðaði hann málverk ofan í kjölinn.
Eftir að hafa grandskoðað franska muni af þessum toga sneri hann sér að íslömskum mynstrum og austurlenskri list. Markmið hans var að einfalda stíl og einbeita sér að hreinleika formsins en hann trúði að það myndi bæta flókin blómamynstur, sem Art Noveau tískan var svo hrifin af, til muna. Hann dáðist einnig óskaplega að fegurð eðalsteina einkum og sér í lagi demanta, og taldi að skartgripirnir ættu að taka mið af því að ljósbrot steinanna nytu sín sem allra best. Árangur þessa erfiðis hans var að stíllinn „Guirlande“ (blómsveigur) varð til og hefur hann síðan verið vörumerki Cartier fyrirtækisins.
Louis-Joseph tók einnig þá ákvörðun að hætta að vinna með silfur. Honum fannst það of mjúkt og sú staðreynd að á það fellur fór í taugarnar á honum. Þetta gerði ekki jafnmikið til meðan Evrópa var lýst með kertaljósum en í tíð Louis-Josephs höfðu rafmagnsljósin haldið innreið sína og dökkt silfur naut sín að hans mati alls ekki við skæra birtu þeirra. Hann leitaði að málmi til að nota í staðinn og fann út að platína myndi duga mjög vel. Þetta umbylti skartgripaiðnaðinum og sömuleiðis sú ákvörðun Louis-Josephs að setja ekkert bak við steininn til að ljósbrot hans nyti sín sem best.
Nýstárlegar hugmyndir og fáguð hönnun
Nýstárlegar hugmyndir og aðferðir Louis-Josephs slógu í gegn og fljótlega opnaði hann útibú í London og New York. Fyrirtækið var eftir sem áður fyrst og fremst fjölskyldufyrirtæki og bræður Louis-Josephs, Jacques og Pierre, sáu hvor um sína verslun og segja má að þeir hafi skipt hinum vestræna heimi á milli sín.
Helsti keppinautur þeirra bræðra um þær mundir var Carl Fabergé sem sló í gegn eftir að hafa smíðað páskaeggin frægu fyrir Nikulás Rússakeisara. Svar Louis-Josephs við eggjunum var að smíða glæsilegar borðklukkur og gimsteinum skreyttar styttur. Hann smíðaði einnig tvö egg í svipuðum stíl og Fabergé en klukkurnar og stytturnar urðu fljótt það vinsælar að hann þurfti ekki að leita í smiðju annarra. Um tíma veltu þeir bræður því fyrir sér hvort borgaði sig að opna búð í Sankti Pétursborg en þeir féllu frá því og fengu sér umboðsmann í staðinn. Það reyndist skynsamleg ákvörðun þar sem rússneska byltingin var á næsta leiti.
Á árunum fyrir fyrri heimsstyrjöldina varð eftirtektarverð breyting á kventískunni. Einfaldleikinn var það sem gilti og skrautlegir kjólar skreyttir loðskinni, blúndum og pífum hurfu eins og hendi væri veifað. Líkt og venjulega var Louis-Joseph fljótur að skynja hvað við átti. Hann hannaði perlufesti sem var ekki annað en tvær raðir af perlum festar saman með skrautlegum lás og viti menn, þetta sló í gegn og er reyndar vinsælt enn þann dag í dag.
Aðallinn og konungdæmi líða undir lok
Millistríðsárin og heimsstyrjöldin síðari mörkuðu mikla þjóðfélagsbreytingu. Aðallinn bar aldrei sitt barr eftir það og hirð og konungdæmi liðu undir lok í mörgum ríkjum. Cartier fyrirtækið hvarf þó ekki af sjónarsviðinu heldur fundu þeir bræður fljótt hvar nýja viðskiptavini var helst að finna. Indverskir smákonungar urðu þeim drjúg uppspretta og síðar kvikmyndastjörnur og olíufurstar. Í kreppunni kynntist Louis-Joseph, Coco Chanel og kvenfatatíska hennar varð honum innblástur til að hanna hina frægu hlébarðanælu en vinir Coco kölluðu hana hlébarðann. Segja má að samstarfið við Coco hafi orðið til þess að Cartier fór fremstur í flokki inn í hönnun á nútímaskarti og fylgihlutum. Klemmur, nælur og prjónar urðu allsráðandi en einnig stofnsetti Cartier S deildina sem sá um að hanna kveikjara, beltissylgjur, vasaúr og fleira.
Árið 1942, eftir dauða bræðranna Louis-Josephs og Jacques, tóku Jeanne Toussaint og Pierre Lemarchand við rekstri Parísarfyrirtækisins. Þeir héldu áfram að nota dýr sem fyrirmyndir að skartgripum og sömuleiðis stofnuðu þeir listasafn Cartiers árið 1983 þar sem safnað var saman eins miklu og hægt var af upphaflegum teikningum og smíðisgripum fyrirtækisins.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.