Það eru ákveðin tímamót að hætta launaðri vinnu, en það ætlar Halldór V. Kristjánsson stjórnsýslufræðingur í innanríkisráðuneytinu að gera um mitt næsta ár. Áður en hann hóf störf í ráðuneytinu vann hann hjá Byggðastofnun um tíma og þar áður hjá Ríkisútvarpinu. Hann segir einkum þrjár ástæður fyrir því að hann tók þessa ákvörðun. „ Í fyrsta lagi þá verð ég 69 ára á næsta ári og er því kominn á aldur eins og sagt er. Ég hafði hugsað mér að hætta fyrr en persónulegar aðstæður réðu því að ég var lengur í vinnu en ég ætlaði mér. Eiginkonan mín til 42 ára, lést úr krabbameini fyrir tæpum 3 árum og þá ákvað ég að halda áfram að vinna. Í öðru lagi langar mig að taka ákvörðun um að hætta sjálfur, frekar en að aðrir geri það fyrir mig. Í þriðja lagi vil ég hætta að vinna á meðan ég er við fulla heilsu og get nánast gert það sem ég vil“
Búinn að vinna í meira en hálfa öld
Halldór segist hafa velt því nokkuð lengi fyrir sér, hvað hann ætti að gera þegar hann þyrfti ekki lengur að mæta í vinnu klukkan 8 á hverjum degi. „Hugurinn hefur helst leitað í að sinna sjálfum mér meira og vera opinn fyrir þeim tækifærum sem skapast frekar en að ákveða hvað ég ætla að gera við þann tíma sem skapast“, segir hann. Hann segist vilja venjast þeirri hugsun að þurfa ekki lengur að vinna, eftir að hafa unnið fyrir sér, fjölskyldu og fyrir samfélagið í meira en hálfa öld.
Verkefni sem ég þarf að bera mig eftir sjálfur
„Ég ætla að byrja á að sinna mínu nærumhverfi með því að huga betur að viðhaldi á húsi og garði ásamt því að kynnast fólki sem er á svipuðum stað í lífinu. Ég geri mér grein fyrir að breytingin er mikil og að ég þarf að takast á við önnur verkefni sem ég þarf að bera mig eftir sjálfur, því tækifærin koma ekki til mín. Ég hef alla tíð stundað íþróttir og er nýlega byrjaður að spila golf sem ég hef aldrei nægan tíma til að stunda. Næstu sumur munu því fara í golf og garðvinnu“ segir Halldór.
Þarf að laga útgjöldin að tekjunum
Þótt það sé ljóst að þegar menn hætta launaðri vinnu og fara á eftirlaun lækki tekjur þeirra almennt kvíðir Halldór því ekki. „Ég mun hafa lægri tekjur eftir að ég hætti að vinna og því þarf ég að stilla útgjöldin miðað við það. Geri mér ekki alveg grein fyrir hvaða tekjur ég muni hafa en reikna með að það verði ekki vandamál þar sem ég er skuldlaus og á nokkrar eignir. Á meðan heilsan er góð hef ég engar áhyggjur, því lít ég björtum augum á framtíðina án þess að stunda launaða vinnu og hlakka til að takast á við breytta lifnaðarhætti þar sem ég stjórna mínum tíma og geri það sem hugurinn stendur til hverju sinni“.