Hóf myndlistarferil þegar hún fór á eftirlaun

„Það sem maður lætur hafa sig í á gamals aldri“, segir Vilborg Gunnlaugsdóttir eftirlaunakona, þar sem hún stendur á  bak við búðarborðið í Galleríinu á Skólavörðustíg 20. „Ég er búin að vinna alla mína hunds og kattartíð og svo lætur maður hafa sig út í þetta“, segir hún hlæjandi. „Ég er farin að afgreiða í búð á gamals aldri, langaði ekki allar stelpur til þess, að verða búðarkonur? Að vísu langaði mig það aldrei“, segir hún. Vilborg sem er rúmlega sjötug, fæddist í Reykjavík, gekk í Kvennaskólann og vann ýmis konar skrifstofustörf eftir það. Hún var meðal annars deildarstjóri í fjármálaráðuneytinu, skrifstofustjóri hjá Ríkissáttasemjara um skeið. Síðan fór hún á skrifstofuna hjá Hótel Holti en endaði  ferilinn hjá Icelandair. Um mitt ár 2008 ákvað hún að hætta launuðum störfum, en þá var hún 61 árs. „Og þá hrundi íslenskt samfélag. Ég var svona líka ómissandi það fór allt á hvolf þegar ég hætti!!“, segir hún og nú hlæja þær dátt, Vilborg og blaðamaður Lifðu núna.

Ein er upp til fjalla

Hvers vegna ekki að gerast lúxuskerling?

Vilborg hafði lítið hugsað um starfslokin, áður en hún ákvað að hætta  Ég var búin að vinna frá því ég var 17 ára, oft langan vinnudag í krefjandi en jafnframt skemmtilegum störfum og ég var bara búin að fá nóg. Við hjónin gátum hætt og ég hugsaði bara, hvers vegna ekki að gerast „lúxuskerling“? Mér finnst það hafa verið alger lúxus að hætta fyrir eftirlaunaaldurinn“, segir hún hæst ánægð, þar sem hún gengur um að sýnir blaðamanni myndirnar í Galleríinu. Það voru listakonurnar Gunnella og Laufey Jensdóttir sem stofnuðu Galleríið, og fengu síðan með sér fleiri listamenn. Þetta er hópurin sem stendur að  Galleríinu „Það kom mér á óvart þegar Gunnella hringdi og spurði hvort ég myndi vilja vera með, ég var þá búin að ákveða að halda sýningu  í sal GRÓSKU á Garðatorgi, en það er Félag myndlistarmanna í Garðabæ sem er með hann.  Þannig að það var nóg í gangi“, segir Vilborg sem ákvað þó að slá til og vera með og  það er enn verið að vinna í ákveðnum verkefnum sem þarf að ljúka til að allt verði tilbúið í Galleríinu.

Vildi ekki vinna lengur en hann þyrfti

Eiginmaður Vilborgar, Gamalíel Sveinsson hagfræðingur, sem vann á sínum tíma í Þjóðhagsstofnun og seinna hjá Hagstofu Íslands, langaði einnig að hætta launuðum störfum þegar hann gæti og gerði það. „ Við stundum sund, hann hefur gaman af að lesa, er töluvert í grúski og fylgist með í þjóðmálum og efnahagsmálum. Við höfum ferðast mikið saman og njótum þess“, segir Vilborg sem bætir því við að hann hafi ævinlega staðið við bakið á sér og stutt á alla vegu.

Leiðangur

Heillaðist af myndlistinni

Vilborg málar vatnslitamyndir og hún er ekki alger nýgræðingur í myndlistinni, Hún hafði málað á postulín og var byrjuð að sækja námskeið í myndlist  áður en hún hætti að vinna. „Ég hef alltaf heillast af myndlist, ekki síst málverkum og langaði að prófa sjálf, en gaf mér aldrei tíma til þess vegna langs vinnudags alla tíð. En svo tók ég mér nokkurra vikna frí í vinnunni 1998 og fór á sumarnámskeið í Myndlistarskóla Kópavogs.  Í framhaldi af því síðan þriggja anna námskeið þar í teikningu og sneri mér síðan að vatnslitamálun sem ég stundaði síðan samhliða vinnunni. Þetta var tíu árum áður en ég hætti að vinna“, segir hún.

Finnst það bónus ef öðrum líkar myndirnar

Þegar Vilborg er spurð hvers vegna hún hafi snúið sér að myndlistinni segir hún að hún hafi mikla ánægju af að mála og sér finnist það bónus, ef einhverjum öðrum líki myndirnar. Fyrstu sýninguna hélt hún í Gallerí Ófeigs 2009, en síðan þá hefur hún tekið þátt í samsýningum á vegum Myndlistarskóla Kópavogs og GRÓSKU í Garðabæ.  Hún gerðist félagi í Norræna vatnslitafélaginu og hefur sýnt á nokkrum samsýningum þeirra, í Norræna húsinu í Reykjavík,  í Helsinki og nú í

Í Lóni

Wales. Hún situr því ekki aðgerðalaus Kvennaskólastúlkan sem söðlaði um þegar hún fór á eftirlaun og sneri sér að myndlist.  Hún er til dæmis á leiðinni til Spánar í september, til að fara á 5 daga námskeið hjá virtum áströlskum vatnslitamálara Joseph Zbucvik, og hlakkar mikið til þess.

Myndirnar í greininni eru allar eftir Vilborgu.

 

Ritstjórn júní 28, 2019 14:36