Hvar á að geyma spariféð?

Getur þú sagt mér hvernig er best að geyma spariféð?  Þessa spurningu fékk blaðamaður Lifðu núna á fundi fyrir nokkru síðan. Sá sem spurði, sagðist eiga orðið nokkrar milljónir króna inná banka, því eiginkonan vildi endilega safna fyrir jarðarförinni. En nú væri ávöxtunin farin að skerða hjá þeim eftirlaunin frá TR.  Þau væru með peningana á sparireikningum með lágum vöxtum. Það sem væri nöturlegt við það, væri að ef þau færu í bankann og tækju út peninga, væri tekin þóknun af þeim fyrir það. Hvað á að gera svo Bjarni nái ekki í þetta allt saman? spurði hann og hló. Kannski væri best að geyma þetta undir koddanum – eða setja það á aflandsreikninga, sagði hann kíminn og skellti hann uppúr.  Það varð fátt um svör hjá blaðamanni, þannig að Lifðu núna leitaði til Jafets Ólafssonar viðskiptafræðings og spurði hann ráða. Það er vísu ljóst að fjármagnstekjuskattur er greiddur af fjármagnstekjum, en hvernig er best að geyma spariféð? Hann sendi vefnum þetta stutta og greinargóða yfirlit yfir ávöxtun fjármuna.

Fólk er íhaldssamt þegar kemur að viðskiptum með fjármuni, skiptir sjaldan um banka og tekur möglunarlaust við þeirri ávöxtun sem að þeim er rétt. Skipulag fjármála var lengi vel ekki vinsælt viðfangsefni hér á landi, það borgaði sig að skulda sem mest, útlánavextir voru neikvæðir og þar af leiðandi litlir möguleikar á ávöxtun fjármuna. Spariféð brann upp.  Margir brugðu á það ráð að fjárfesta í „steinsteypu“ hún hefur alltaf staðið fyrir sínu og gerir enn, ég tala ekki um eftir að Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög sprengdu upp lóðarverð. En möguleikar til ávöxtunar hafa gjörbreyst á síðustu 30 árum. Eftir því sem aldurinn færist yfir er ráðlegt að takmarka áhættu í ávöxtun. Skynsamlegt er því að kaup á hlutabréfum séu lágt hlutfall af fjárfestingum eldri borgara, þótt færa megi rök fyrir því að hlutabréf geti gefið hæstu ávöxtunina yfir lengri tíma.

Ef við veltum fyrir okkur möguleikunum. Miðað við að fjárfesta fyrir 100 þúsundir eða 100 milljónir þá eru hagsmunirnir eru þeir sömu, að ná sem bestri ávöxtun. Það munar um hvert prósentustigið.

  1. Innlán í bönkum. Sparnaðarreikningar eru með frá 0% vöxtum upp í 4% vexti, þ.e. nafnávöxtun, verðtryggðir reikningar með hæst 1,7%. Ég hef séð ávöxtun hjá nokkrum einstaklingum á síðasta ári og að meðaltali var hún um 2%, ríkið tók síðan 22% fjármagnstekjuskatt, í reynd var því ávöxtun tæp 1,6%. Verðbólgan var 2,9%, þannig að sparifjáreigandinn var að tapa 1,3% að raungildi, ríkið skattlagði tapið! Nýlega kom Kvika banki með nýja innlánsreikninga sem kallast „Auður“, þeir bera 4% ávöxtun og miðast við óbundinn reikning. Yfirleitt fer ávöxtun hækkandi eftir lengd binditíma og hækkandi upphæðum, getur farið í 4,35% vexti, en sumir bankar taka þá úttektargjald allt að 1,5%, sem er furðulegt! Flestir bankar bjóða sérkjör fyrir þá sem eru 60 ára og eldri.
  2. Verðbréfasjóðir. Mikið úrval er af verðbréfasjóðum, hreinir hlutabréfasjóðir, hreinir skuldabréfasjóðir, ríkisskuldabréf, veðskuldabréf og síðan sambland af skuldabréfum og hlutabréfum. Hlutabréfasjóðir komu ekki vel út árið 2018, voru yfirleitt með neikvæða ávöxtun, skuldabréfasjóðir voru yfirleitt með um 4% ávöxtun. Nokkrir voru með mun hærri ávöxtun eða allt að 7,5%, blandaðir sjóðir voru með um 5% ávöxtun árið 2018.
  3. Hlutabréf. Ekki er ráðlegt að fjárfesta nema óverulega í hlutabréfum, hægt er að búa til sitt eigið hlutabréfasafn, t.d. getur verið gaman að kaupa í fjórum til fimm félögum og upplýsandi að fylgjast með þeim, hvort maður sé betri fjárfestir en hlutabréfsjóðurinn.
  4. Erlendir sjóðir. Lífeyrissjóðirnir okkar fjárfesta um 40% af sínu fé erlendis og flestir bankar bjóða upp á erlenda sjóði.
  5. Nú er mjög auðvelt að kaupa gjaldeyri annaðhvort að kaupa seðla og skella þeim í bankahólfið eða leggja féð inn á gjaldeyrisreikning en vextir þar eru yfirleitt engir. Hægt er að fá 0,5% vexti ef bundið er í 6 mánuði. Ávöxtun kemur ef íslenska krónan veikist, en hún hefur verið ótrúlega sterk á undanförnum árum og gjaldeyrisforði þjóðarbúsins er risastór. Alltaf má búast við sveiflum á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum svo þetta getur verið áhættusamur kostur.
  6. Fasteignakaup, gamla steinsteypan stendur fyrir sínu, en þetta krefst smá umstangs, leigusamningar, viðhald o.fl.
  7. Aðrar leiðir varðandi sparnað/ávöxtun sem hægt er að fara, þá má til að mynda nefna kaup á málverkum, mynt, eðalmálum (gulli) og fleira, en þetta er vandasamt og ekki alltaf á vísan að róa.

Niðurstaðan er sú að skynsamlegast sé fyrir þá sem eru 65 ára og eldri að ávaxta fé sitt sem mest á góðum innlánsreikningum og í tryggum skuldabréfasjóðum. Það er kjörið að skella sér í viðtal hjá þjónustufulltrúum í fleiri en einum banka og fá tillögur um ávöxtunarleiðir, bera saman og velja síðan það besta. Alltaf ætti að bera saman ávöxtunina minnst einu sinni á ári.

Ritstjórn apríl 17, 2019 08:12