Nú að loknum hátíðahöldum með hefðbundnum matarveislum er ekki úr vegi að velja súpur í máltíðirnar nú í janúar. Margir elda sama matinn á hverjum jólum og þykir ekki gott að breyta út af þeirri venju. Máltíðirnar samanstanda af kjöti sem oft er reykt, sumir velja villibráð og enn aðrir kalkúnakjöt. Meðlætið er hefðbundið og bragðmiklar sósur fylgja en þær eru oft eldaðar með smjöri og rjóma sem gerir þær feitar og saðsamar. Mörg okkar finna fyrir þörf til að létta máltíðirnar eftir hátíðina og þá eru súpur góður valkostur. Hér er uppskrift að einni slíkri en í henni er ekki kjöt heldur kjúklingabaunir og grænmeti.
Tómatsúpa með kjúklingabaunum og spínati:
1 laukur, saxaður smátt
1 hvítlauksrif, marið
1 rauð paprika, skorin í bita
2 msk. ólífuolía
1 1/2 tsk kummin (cumin)
1 dós (250 ml) tómatmauk
1 grænmetisteningur
700 ml sjóðandi vatn
1 dós kjúklingabaunir
1 msk. rauðvínsedik
2 tsk. hunang
nýmalaður pipar að vild
salt
hnefafylli spínat
Saxið laukinn og hvítlauksrifið. Skerið paprikun í bita. Hitið olíuna í potti og látið laukinn, hvítlaukinn og paprikuna krauma við vægan hita í 5 mínútur. Hrærið kummin saman við og síðan tómatmaukinu. Myljið grænmetisteninginn út í vatnið og bætið því út í pottinn. Látið kjúklingabaunirnar út í ásamt ediki, hunangi, pipar og salti og látið malla í 8 mínútur. Mjög gott er að hafa súpuna vel pipraða og bætið því svörtum pipar út í og smakkið til. Bætið að síðustu spínati út í og látið malla með í 1 til 2 mínútur og berið súpuna fram með góðu brauði.







