Gamlir skartgripir bumbur og þjóhnappar

Lifðu núna hefur a að skipta einvalaliði pistlahöfunda og eftirfarandi pistlar voru mest lesnir á árinu sem er að líða.

1. Gamlir skartgripir öðlast nýtt líf, höfundur Sigrún Stefánsdóttir. Í pistlinum segir Sigrún meðal annars. „Tíminnn leið og lífið átti eftir að þróast þannig að ég eignaðist töluvert af skartgripum. Ég naut þess að nota þá og eiga til skiptana, hringa til skiptanna, hálsmen, armbönd og nælur. Allt ekta vara út eðalmálmum. Ég skreytti mig með þessu í takt við tækifærin og fötin mín. Reyndar þróaðist þetta smám saman þannig að ég tók meira ástfóstri við einstaka gripi en aðra og nota þá enn“. Forvitnilegur pistill sérstaklega fyrir þá sem eiga gamla skartgripi sem sumir eru kannski lítið notaðir. Með því að smella hér, geturðu lesið allan pistilinn.

2. Barist við bumbur og þjóhnappa eftir Jónas Haraldsson. Eins og svo margir dreif Jónas sig í sólina ásamt sinni ektakvinnu og í pistlinum segir. „Rasskinn mannsins þrýstist fast að öxlinni á mér, fyrst önnur, svo hin. Þetta var fullorðinn maður og kinnarnar nokkuð farnar að slappast, þótt eflaust hafi hann verið með kúlurass á yngri árum. Ég reyndi að víkja mér undan en átti ekki hægt um vik, í gangsæti í sætaröð númer 34 af 35 í flugvél á leið til lands þar sem viðrar betur í febrúar en á landinu bláa“.  Smelltu hér til að lesa pistlinn í heild.

3. Einmana makar alzheimersjúklinga, sem Guðrún Guðlaugsdóttir skrifaði. Þetta er málefni sem er kannski ekki svo mikið í umræðunni. En ef marka má lestur pistilsins er þetta efni sem margir hafa áhuga á og eru ef til vill að glíma við.  Grípum niður í pistilinn. „Hvað gerir maki alzheimersjúklings við slíkar aðstæður? Það er vafalaust eins misjafnt og mennirnir eru margir. Ekki standa margir kostir til boða. Annað hvort að taka þessum örlögum, heimsækja makann og styðja sig við ættingja og vini. Hinn kosturinn er að horfast í augu við að makinn sem viðkomandi gekk að eiga á sínum tíma er orðinn harla ólíkur því sem hann var. Segja má að þegar fólk er komið með langt genginn Alzheimer séu forsendur fyrir hjónabandi brostnar. Sambúð er lokið og jafnvel þekkir sá sjúki ekki maka sinn lengur“. Hér er pistillinn í heild

4.  Hugleiðingar um einsemd í sorg, eru ekki samdar af föstum pistlahöfundum Lifðu núna, en einn lesenda síðunnar sendi okkur þennan pistil til birtingar, þar sem hún miðlar af eigin reynslu. Hún þekkir hvernig það er að sitja og horfa á símann. „Hann hringir sjaldan núna. Þegar sorgin skall á mér fyrst, hringdi hann stöðugt. einmitt þá vildi ég helst ekki að hann hringdi, átti bágt með að svara og tala. Það hringdu gamlir vinir mínir, ættingjar og allir vildu segja mér að þeir hugsuðu stöðugt til mín og að þeir vildu gjarnan hjálpa. En smá saman hægði á símtölunum og vinirnir og ættingjarnir höfðu annað að gera“. Hér er allur pistillinn.

5. Tvær brauðsneinar og tvö vötn, eftir Sigrúnu Stefánsdóttur sem veltir fyrir sér þróun tungumálsins í pistlinum.  „Ungur maður afgreiddi mig í verslun á dögunum. Þegar ég ég var búin að setja vörurnar mínar í poka og borga, sagði pilturinn: „Eigðu góðan dag“. Ég verð alltaf orðlaus þegar ég er kvödd á þennan hátt og verður hugsað til elskulegrar Vigdísar Finnbogadóttur og baráttu hennar fyrir íslenskri tungu“, segir Sigrún og hér má lesa pistilinn í heild.

6. Forréttindablinda í algleymi alsnægtanna, eftir Ingu Dóru Björnsdóttur. Kveikjan að þessum pistli var sú ákvörðun bankaráðs Landsbankans að hækka laun bankastjórans um eina milljón króna á einu bretti. Inga Dóra segir í pistlinum „Orðið forréttindablinda hefur tvíbenta merkingu. Í fyrsta lagi þýðir það að fólk sé blint á að það njóti efnahagslegra og félagslegra forréttinda. Fyrir því er það sjálfgefið að búa í vönduðum og fagurlega búnum híbýlum, keyra um á góðum bílum, eiga allt til alls, nóg að bíta og brenna, að geta farið í ferðalög innan lands sem utan, þegar því hentar, hafa aðgang að góðum skólum og góðri menntun og að vellaunuðum störfum, og svona mætti lengi telja. Hin merking orðsins forréttindablinda er sú, að fólk sé blint á, að til sé fólk, sem ekki býr við sömu góðu kjör og það sjálft, og ef það gerir það, þá sé það bara því sjálfu að kenna“. Smelltu hér til að lesa pistilinn í heild.

 

Ritstjórn desember 27, 2019 16:31