Glæsilegustu og best klæddu menn sögunnar

Margir hafa velt því fyrir sér hvar tískan verði til og hverjir leggi línurnar í þeim efnum. Sumir telja að stóru tískuhönnuðirnir ráði mestu en aðrir segja að tískan verði til á götunni þar sem ungt fólk rotti sig saman. Enn aðrir benda á að hver hópur hafi sína tísku og núorðið sé ekki lengur hægt að tala um að einhver ein lína sé ráðandi. Lifðu núna telur að kvikmyndir móti tískuna mun meira en við höfum hingað til haldið og í kvikmyndum birtast stundum erkitöffarar sem aldrei fara úr tísku þótt myndirnar sem þeir voru persónur í eldist. Skoðum nokkra ódauðlega og flott klædda karlmenn í kvikmyndasögunni.

Klassískur og einstakur

Cary Grant bar allt jafnvel sem hann klæddist. Hann gaf klassískum jakkafötum líf og stíl og ekki mörgum karlmönnum hefur tekist að leika það eftir. Fötin sem hann klæddist voru sniðin og saumuð af Kilgour í Savile Row í London þannig að ekki var við öðru að búast en þau færu vel. Þetta fyrirtæki er rúmlega hundrað og tuttugu ára gamalt og veit enn í dag hvernig á að klæða karlmenn. En Cary leit líka vel út í hvítum buxum, peysum og skyrtum, í  sundbuxum með skálmum og nánast bara  hverju sem er. Sagt er um sumar konur að þær gætu klæðst strigapoka en samt litið vel út. Cary Grant var þess konar karlmaður.

Screenshot

Sportlegur og æðislegur

Robert Redford var mikið glæsimenni og ótrúlega sportlegur í búninnguum í kvikmyndinni, Three Days of the Condor. Búningarnir í myndinni voru þó ekki flóknir því að sögn Sidney Pollack leikstjóra var hann í sömu fötunum út alla myndina. Það er þó ekki alls kostar rétt því búningarnir voru nokkrir þótt þeir hefðu allir yfir sér ákveðið svipmót, enda var það með ráðum gert. Bernie, bróðir Sidneys, sá um búningana og markmið hans var að gefa Redford prófessorslegt yfirbragð, sýna hann sem mann sem venjulega vinnur við skrifborð en er vegna óvæntra atburða neyddur til að hætta sér langt út fyrir það svið sem hann  þekkir. Hann mátti til að mynda ekki klæðast áberandi jökkum og alls ekki vera með silkibindi. Bindið varð að vera úr ull. Hvað sem því líður var Redford ótrúlega flottur í þessari mynd og fötin sem hann klæðist gætu alveg gengið enn í dag.

Karlmennið sem lætur engan segja sér fyrir verkum

Michael Caine var ekta karlmenni í Get Carter. Hönnuður búninga í þeirri mynd var Evangeline Harrison. Hún nýtti sér tískuna á götum Newcastle árið 1970 til að skapa föt á „gangsterinn“ Jack Carter sem er harðákveðinn í að hefna dauða bróður síns. Einn gagnrýnenda líkti myndinni við góðan slurk af gini sem maður væri neyddur til að hella í sig fyrir morgunverð. Micheal Caine í svörtum jakkafötum með haglabyssu í hönd átti áreiðanlega sinn þátt í að sú líking varð til.

Geislandi af sjálfstrausti

Warren Beatty bókstaflega geislaði af sjálfstrausti í myndinni Shampoo frá árinu 1975. Yfirleitt eldast búningar frá þessum tíma ekki vel en Warren er flottur í hlutverki kvennabósans og hárgreiðslumannsins George Roundy. Í kvikmyndinni naut persóna hans þess að kynnast flottustu konum Hollywood á hárgreiðslustofu sinni og fara með þeim í rúmið óáreittur því eiginmennirnir voru allir sannfærðir um hárgreiðslumeistarinn væri hommi.

Séntilmaður í húð og hár

Marcello Mastroianni var séntilmaður í húð og hár og þeir gerast ekki glæsilegri. Hið einkennilega við þennan mann var að hann varð fallegri eftir því sem hann eltist. Í myndinni eftir Fredrico Fellini var sagt að hann hefði apað eftir klæðaburð og fas leikstjórans og að sjálfsögðu borið fötin mun betur en hann. Marcello lék leikstjóra í myndinni sem ekki gat lengur skapað. Hann reyndi að fela vanmátt sinn með svörtum valdsmannslegum jakkafötum og dökkum sólgleraugum. Piero Gherardi búningahönnuður myndarinnar sá svo um að skapa einmitt þetta útlit.

Alltaf flottur

Steve McQueen hafði þetta tímalausa útlit. Hann var alltaf flottur. Í Bullitt klæddist hann grófum buxum, rúllukragabol og tvídjakka og leit út fyrir að vera sá svalasti á staðnum. Theodora van Runkle hannaði búninga og taldi að önnum kafin lögga myndi sennilega ekki hafa fyrir því að fara í verslanir þá sjaldan sem tími gæfist til og búningarnir áttu að endurspegla persónuna.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.