Að aka bíl felur í sér frelsi og sjálfstæði að margra mati. Þannig er upphafssetningin í grein í Fréttablaðinu í dag, þar sem fjórir fagmenn, þar af tveir öldrunarlæknar fjalla um það hvenær sé rétt að eldra fólk hætti akstri. Höldum áfram með greinina.
Þegar aldurinn færist yfir geta þó verkefni sem áður voru einföld orðið krefjandi og flókin. Heilbrigðir aldraðir eru almennt góðir ökumenn og búa yfir reynslu. Þeir valda þegar á heildina er ltið fáum banaslysum. Erlendar rannsóknir sýna þó að miðað við fjölda slysa á hvern ekinn kílómetra valda aldraðir mun fleiri banaslysum og verða sjálfir fyrir alvarlegri áverkum en yngri ökumenn.
Ýmsar breytingar verða með hækkandi aldri. Sjón og heyrn daprast, viðbragð verður hægara auk þess sem vöðvastyrkur og samhæfing hreyfinga skerðist. Sjúkdómar eru einnig algengari, t.d. heilabilunarsjúkdómar og samhliða sjúkdómum fylgir oft aukin lyfjanotkun. Við flóknari athafnir eins og akstur verður erfiðara að viðhalda einbeitingu og athygli.
Í greininni eru raktar þær reglur sem gilda um veitingu ökuskírteinis, en fram kemur að hér á landi sé ekki til samræmt verklag við mat á aksturshæfni aldraðra. Við séum eftirbátar Norðurlandaþjóða, Kanada og Breta í þessum efnum. Við Sjúkrahúsið á Akureyri hafi verið stofnað þverfaglegt teymi fyrir tveimur árum í þeim tilgangi að þróa verklag við mat á akstursfærni aldraðra. Fram kemur að á síðasta ári hafi 46 einstaklingar komið til mats hjá teyminu og 25 þeirra hafi verið ráðlagt að hætta akstri.
Höfundarnir segja að með greininni vilji þeir vekja almenning til umhugsunar um öryggi aldraðra í umferðinni. Margir aldraðir velti fyrir sér hvenær rétt sé að hætta akstri og það sé mikilvægt að jafnræðis sé gætt við mat á því. Hér má sjá blaðið í heild.