Hugleiðingar um heilsuráð.
Allir sem þjást um lengri eða skemmri tíma af einhverskonar vanheilsu, andlegri eða líkamlegri eru um leið komnir í hlutverk þiggjandans. Þ.e.a.s. þess sem þiggur ráð frá lærðum, leikum, fróðum og fávísum um það hvaða ráð duga best til að ná heilsu á ný. Að þiggja er kannski ekki alveg rétta orðið því að ráðin eru ekki alltaf gefin í þökk þess sem verður fyrir þeim og stundum eru þau hreinlega seld, dýrum dómum. Lyfjabúðir, heilsuvöruverslanir, bækur og blöð um heilsu, heilbrigðiskerfi, bæði það opinbera og þau sem starfa á eigin vegum — allir selja okkur réttu lausnina, bæði til að fyrirbyggja veikindi og vinna bug á þeim sem þegar herja á okkur.
Mataræði, hreyfing, lyf, rakastig, loftgæði, eyrnakerti, regndropameðferðir, hugleiðsla, bjartsýni, svartsýni, jákvæðni, neikvæðni, bætiefni, erfðaefni … upptalningin er endalaus á þeim þáttum sem að sögn „sérfróðra“ ráða því hvort okkur tekst að vera heilbrigð.
En heilbrigði er jú umdeilt hugtak og ekki aðeins að heilbrigðisyfirvöld eigi í vandræðum með að skilgreina það heldur er það kannski eitthvað sem hver og einn einstaklingur verður að hugleiða og skilgreina fyrir sjálfan sig. Það er til lítils að teljast heilbrigður á mælikvarða þjóðfélags eða heilbrigðisyfirvalda ef einstaklingurinn upplifir það ekki á eigin skinni. Það er einfaldlega hægt að orða það þannig að manni þurfi að líða vel.
Freud átti fræga skilgreiningu sem var á þá leið að til að teljast heilbrigður þurfi maðurinn að geta elskað og unnið. Þannig sé sá einn heilbrigður sem eigi í innihaldsríkum samskiptum við annað fólk og hafi verðug og viðráðanleg verkefni að vinna að. Það gætu þá sem best verið allir þeir sem annars myndu teljast sjúkir og fatlaðir samkvæmt hefðbundnum skilgreiningum.
En ég ætla að halda mig við þann sem telst vera veikur samkvæmt hinum hefðbundnu skilgreiningum.
Í mínu starfi sem hjúkrunarfræðingur hef ég oftar en ekki rekið mig á vandræði fólks sem veit ekki hverju eða hverjum það á að trúa. Vonin um betra líf og lengra líf er sterk og sjúklingar hafa oftar en ekki keypt bætiefni, birkiösku, ólífulauf, fjallagrös, seyði og vítamín fyrir tugi ef ekki hundruð þúsunda. Lyfjaverslanir hafa keppst við að selja okkur snákaolíur með fram hefðbundnum lyfjum og hver trúir ekki lyfjatækni í hvítum sloppi sem mælir eindregið með einhverjum elexírnum? Nú eða gúrú sem hefur sjálfur legið við dauðans dyr og uppgötvaði þá mataræðið sem læknaði hann fullkomlega?
Það er ábyrgðarhluti og ekki einfalt mál að taka slíka von frá fólki og menntaður og ábyrgur heilbrigðisstarfsmaður hefur jú alltaf sinn vísindalega grunn að byggja á. Sjúklingur á alltaf að njóta vafans þannig að ekki er mælt með ákveðnum lyfjum eða meðferðum nema að undangengnum rannsóknum undir ströngu eftirliti og samþykki frá vísindasamfélaginu. Hins vegar er þróunin að verða sú að heilbrigðisstéttir eru í vaxandi mæli að viðurkenna að eitt og annað getur gagnast fólki, jafnvel þótt slíkar rannsóknir hafi enn ekki verið framkvæmdar. Reynsla kynslóðanna má sín einhvers og húsráð og kerlingabækur hafa ekki alltaf verið út í bláinn. Og svo við vitnum til skilgreininganna um heilbrigði þá má segja að allt það sem lætur sjúklingnum líða vel, sé til bóta svo fremi að það skaði ekki.
Þegar þetta fór að færast í vöxt, m.a. vegna vaxandi þrýstings almennings um að heilbrigðisstéttir væru sveigjanlegri í þessum efnum, þá fóru málin fyrst að verða flókin.
Að vera ábyrgur heilbrigðisstarfsmaður sem gefur ráð samkvæmt þekkingu og á vísindalegum grunni án þess þó að útiloka það sem telst óhefðbundnara, er ekki einfalt.
Við manneskjur erum ekki steypt í sama mót og það sem virkar fyrir einn eða jafnvel fleiri er ekki endilega að virka fyrir næsta mann. Þó að einn geti fundið stórkostlega breytingu á heilsu sinni og líðan við sjósund eða kolvetnasnautt fæði, þá er ólíklegt að það henti öllum. Öfgakenndar aðferðir hafa verið vinsælar um tíma og kenningar um að það þurfi að taka hlutina „alla leið” eigi árangur að nást. En það getur verið ákaflega hættulegt og jafnvel banvænt að ætla öllum að ráða við slíkt og það er mín trú að hóflegar aðferðir gefi oftar góðan árangur og eru í það minnsta öruggari. Hófleg neysla á fjölbreyttu fæði, hófleg en reglubundin hreyfing, jákvætt hugarfar og rólegur lífsstíll — ég er í það minnsta sannfærð um að þetta er öllum hollt. Því eru þetta hlutir sem ég get óhrædd ráðlagt öllum sem hafa áhuga á aukinni vellíðan og heilsuvernd. Fátt annað nema að taka D-vítamín.
Líklega fellur þessi skoðun mín ekki í sérstaklega góðan jarðveg hjá þeim sem telja hjólreiðar ekki vera hjólreiðar nema að hjóla til Reykjavíkur og gönguferð lítils virði nema hún sé á fjöll og vissulega geta slík afrek hentað sumum en aldrei öllum. Fyrir suma er það jafn mikilsvert og aðdáunarvert að ganga hringinn í kring um húsið sitt eins og fyrir aðra að ganga á Everest eða á Norðurpólinn.
Eitt sinn heimsótti ég konu sem var orðin meira en hundrað ára og var bæði hraust og glöð. Hún bakaði sitt. bakkelsi ennþá, kaffið var gott greinilegt að hún hafði langa reynslu af því að hugsa vel um gesti. Þessi kona hafði án efa hreyft sig mikið en alltaf af nauðsyn, hún hafði aldrei heyrt um tækjasal eða cross-fit og það var mikið af hvítum sykri og sultutaui í brauðinu hennar. Hún var hins vegar eins og áður sagði glöð og róleg, treysti lífinu og sínum æðri mætti og kveið ekki óorðnum atburðum. Ef til vill skiptir þetta miklu meira máli heldur en öll önnur heimsins heilsuráð. Langt líf er lítils virði ef það er ekki ánægjulegt líf.
Ég held enn fremur að besta ráðið sem við getum annars gefið er að hver maður læri að þekkja sig sjálfan á sál og líkama. Að við tökum þá ábyrgð á okkur sjálfum að velta fyrir okkur hvað okkur hentar best að gera og gerum einungis það sem okkur líður vel með. Ef við gerumst sérfræðingar í eigin líðan og eigin tilveru þá er þörfin svo miklu minni á því að selja sjálfsábyrgðina okkar í hendur óprúttinna aðila.
Vöndum valið á þeim sem við treystum til að gefa okkur ráð, það er eiginlega besta ráðið sem hægt er að gefa.