Hver var hún þessi langamma sem var til í fótbolta í stofunni heima?

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir forseti hug- og félagsvísindadeildar HA skrifar

Um daginn var ég í gönguferð með sex ára herra. Hann sá flottan vélsleða sem heillaði hann og hann vilda festa kaup á. Hann bað mig um að lána sér peninga fyrir honum. Mér leist illa á þessa fjárfestingu og neitaði á þeirri forsendu að ég væri að safna peningum til elliáranna. Hann horfði á mig undrandi og sagði ”amma, eru þau ekki löngu liðin?”

Það er ekki nema von að barnið spyrji –því tíminn líður svo hratt. Kannski eru elliárin bara liðin án þess að ég hafi tekið eftir því. Hver veit? En mér finnst ég alltaf jafn ung og hress en samhliða þarf ég að horfast í augu við það að vera orðin elst í minni fjölskyldu.

Ég horfi oft á fallega mynd af pabba og mömmu og stend mig að því að tala við þau. Auðvitað vænti ég ekki svars, en mikið vildi ég að ég hefði tekið betur eftir þegar þau voru að miðla sögum úr þeirra eigin lífi – fróðleik um hver var skyldur hverjum, hver bjó hvar og hvernig vorum við sem litlir krakkar – þessi sex stórveldi þeirra, hvert með sínar sérþarfir. Ég fæ engin svör – þau hvíla bara í friði í fallega kirkjugarðinum á Akureyri með útsýni út á Pollinn.

Hvað er hægt að læra af þessu? Ég læt mig ekki dreyma um að synir mínir og barnabörn megi vera að því að setja niður við fótskör mína og hlusta á mig rausa um mína æsku og hvernig það var að alast upp í „gamla daga”, þegar maður var baðaður í bala á eldhúsgófinu og pabbi bjó til ís og frysti í boxi úti í skafli af því að það var ekki til ísskápur heima hjá okkur. Ég tala nú ekki um frásagnir af því hvernig var að alast upp án sjónvarps og ipads.

Ég hitti konu á dögunum sem sagði mér fá dýrmætustu jólagjöfinni, sem hún hafði nokkru sinni fengið. Þetta var lítil bók sem hafði komið út í sex eintökum. Eitt fyrir hvert barn foreldra hennar. Mamma hennar hafði fengið heilablóðfall og þegar hún var að ná sér eftir áfallið notaði hún tímann til þess að skrifa niður minningabrot úr sínu eigin lífi og fjölskyldunnar. Konan sagði að þessi brot úr fortíðinni hefðu skýrt svo margt fyrir henni og m.a. skildi hún ömmu sínu heitna svo miklu betur og hvaða leiðir hún hafði valið í lífinu.

Ég held að þarna sé leiðin. Ég er ekki að tala um einhverjar ævisögur – heldur minningabrot. Það þarf ekki annað en klukkutíma hér og þar og minniskubb í tölvuna. Þessi litli kubbur gæti orðið áhugaverður seinna – þegar barnabörnin þurfa að fara að reyna að útskýra fyrir sínum börnum hvernig hún var eiginlega þessi kona – hún langaamma ykkar, konan sem þvældist um allan heiminn og var alltaf til í að fara í fótbolta í stofunni heima.

 

 

 

 

 

 

Sigrún Stefánsdóttir janúar 25, 2016 11:30