Hvorki í samræmi við launaþróun né kosningaloforð

Stjórn Landssambands eldri borgarasamþykkti í gær ályktun, þar sem tillögur um ráðstafanir í kjaramálum eldri borgara eru gagnrýndar. Ályktunin hljóðar þannig:

 

Stjórn Landssambands eldri borgara undrast þær tillögur sem fyrir liggja hjá ríkisstjórnarflokkunum að hækka frítekjumark atvinnutekna aðeins í 100 þúsund krónur á mánuði. Fyrir ári var þessi fjárhæð 109.000 krónur og hafði þá verið óbreytt frá ársbyrjun 2009. Ef frítekjumarkið hefði fylgt launaþróun ætti það að vera 195 þúsund krónur í dag. Eðlilegast væri að fella alveg niður skerðingar vegna atvinnutekna eins og gert er víða á Norðurlöndunum.

Þá er sú ráðastöfun óásættanleg að að hækka lífeyri almannatrygginga aðeins um 4,7%. Sú hækkun er ekki í samræmi við launaþróun í landinu sem ber að fara eftir sem fyrsta valkosti samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þetta er ekki heldur í  neinu samræmi við öll kosningaloforðin.

Skerðingar gagnvart lífeyrisjóðsgreiðslum  eru einnig óhóflegar og ekki í neinni sátt við samtök eldri borgara.

Fjármagnstekjuskattur er tvísköttun, jafnvel þrísköttun og heggur allt of nærri lágum sparnaði eldra fólks sem vill gjarnan eiga  einhvern varasjóð þegar laun lækka á efri árum.

Við skorum á nýja ríkisstjórn að gera nauðsynlegar breytingar á frumvörpum sem nú liggja fyrir Alþingi og varða þessi mál. Stjórnvöld eiga að bretta upp ermarnar fyrir kjósendur og eldra fólk í landinu.

 

Ritstjórn desember 20, 2017 13:41