Steinunn Þorvaldsdóttir sjálstætt starfandi textahöfundur og líkamsræktarkennari skrifar
Fýla, fúllyndi, ólund, geðvonska, lunti og þumbaldaskapur eru samheiti sem draga vægast sagt upp óaðlaðandi mynd. Það er annars merkilegt að velta því fyrir sér hvers vegna fólk sem er að glíma við erfiðar tilfinningar sínar, án þess að vera með öskur og læti, fær á sig þennan ljóta stimpil.
Hvað er að vera í fýlu?
Þeir sem eru óánægðir með eitthvað og gefa það til kynna með því að þegja, vera kuldalegir, gramir, afskiptir, móðgaðir og í vondu skapi, eru sagðir vera í fýlu. Fýla er viðbragð við einhverju sem hefur verið sagt eða gert og brýtur gegn vilja, afstöðu eða kenndum fólks, án þess að það telji ástæðu til að tjá hug sinn með orðum. Ástæður þessara sterku viðbragða eru eingöngu ljósar þeim sem finna til þeirra og þeir gera jafnframt enga tilraun til að skýra afstöðu sína eða leita lausna. Þó má ætla að heilmiklar innri samræður eigi sér stað um réttmæti tilfinninganna og þess að viðhalda leyndarhjúpnum sem yfir þeim hvílir.
Tilfinningalegt svigrúm
Á vissan hátt má segja að fýla veiti fólki tilfinningalegt svigrúm því að þögnin, sem er eitt af aðalsmerkjum hennar, gefur færi á að raða saman stríðum tilfinningum svo að þær nái að ríma við rödd skynseminnar. Oft er sagt um börn að þau fari í fýlu vegna einhvers sem þeim er bannað að gera, eða þegar þau finna sig sigruð og vanmáttug gagnvart flóknu regluverki þeirra fullorðnu. Þá grípa þau til fýlunnar því að þeim finnst þau hafa verið beitt misrétti en kunna ekki að orða tilfinningar sínar og neyðast til að játa sig sigruð án þess að vera sátt við þá niðurstöðu. Ef til vill speglar fýla fullorðna mannsins ólund barnsins þegar honum finnst hann ekki geta komið orðum að hugsunum sínum og skýrt ástæðu þess með nógu haldbærum rökum að honum sé misboðið.
Hver er munurinn á sársauka?
Sá sem er í fýlu hefur ekki tjáð tilfinningar sínar nema með svipbrigðum og fálæti þannig að hann lætur öðrum eftir að skilgreina ástand sitt. Oft verður sú túlkun óvægin og viðkomandi gerðar upp meiningar sem eiga ekki endilega við rök að styðjast. Samt ætti vanlíðan hans ekki að fara fram hjá neinum. Bágindi annarra geta því vakið tortryggni og háðsglósur sem hvarflar ekki að fólki að auðsýna ef orsök kvalarinnar hefur hlotið náð fyrir augum þess. Þannig myndum við auðsýna ekkju samúð, sem sýnir af sér fálæti með myrkum svip og niðurdregnum munnvikum í jarðarför eiginmannsins, en alls ekki segja að hún væri í fýlu.
Að una sér í þögninni
Við ætlumst til þess að fólk segi meiningu sína til þess að geta skilið það. Ef maður hefur óafvitandi brotið gegn öðrum, reynist eðli málsins samkvæmt erfitt að bæta fyrir misgjörðirnar fyrr en sú vitneskja liggur fyrir. Hvers vegna lætur sá sem telur sig hafa verið beittan misrétti ekki viðkomandi heyra það? Jú, það getur verið erfitt að koma orðum að erfiðum tilfinningum, sérstaklega þegar manni finnst vegið að stolti sínu. Þá er skiljanlegt að fólk vilji gefa sér tíma til að róa sig áður en það telur sig tilbúið til að fara í orðaskak. Það hefur upplifað sársauka sem það vill ekki að gert sé lítið úr en á erfitt með að færa rök fyrir þannig að mark sé á takandi. Það kann að vera ástæðan fyrir því að sumir virðast hreinlega una sér í þessu ástandi, sækja jafnvel kraft, stuðning og ákveðna fró í að leggja fæð á meinta misgjörðarmenn sína með því að beita þagnarvopninu, hunsa þá og virða að vettugi. Þannig fær sársaukinn óskilgreinda víðáttu og dýpt og viðkomandi nær að sveipa sig dulúð, í stað þess að afhelga tilfinningarnar með hversdagslegri orðræðu. Með þessu móti er hægt að firra sig ábyrgð og gefa í skyn að hinn brotlegi sé svo ómerkilegur pappír að hann sé ekki þess virði að við hann sé talað.
Rýnt til gagns eða einhvers annars?
Það er þetta með ábyrgðina og orðræðuna. Hvort tveggja leggur grunn að góðum samskiptum. Þegar við finnum til ábyrgðar höfum við m.a. öðlast þroska til að útskýra afstöðu okkar, skiptast á skoðunum og umgangast hvert annað með þeirri virðingu sem við viljum að siðað samfélag einkennist af. Ef okkur verður á í messunni sætum við gagnrýni sem við reynum að taka mark á til þess að eflast og verða betri menn. Hversu ríkan ávöxt ætli gagnrýni, sem felst í afskiptaleysi, lítilsvirðingu, háði eða óvild, sé líkleg til að bera? Þannig viðbrögð eru okkur vissulega eðlislæg að einhverju leyti, að minnsta kosti þegar við kveðum upp þann dóm að einhver sé í fýlu. Þegar við bregðumst þannig við börnum sem draga sig í hlé með ólund segjum við gjarnan að það eigi ekki að „sleikja þau upp“ og að þau eigi að læra að haga sér almennilega. Þegar fullorðinn einstaklingur á í hlut gerum við meiri kröfur og hreinlega ætlumst til þess að hann segi hvað honum býr í brjósti í stað þess að senda misvísandi skilaboð sín með þögn og beiskju.
Sleikjuskaðinn
Barn sem er látið afskiptalaust þegar það er í „fýlu“ fær þau skilaboð að enginn hafi áhuga á því að tala við það þegar því líður svona. Það hefur því val um að kljást við tilfinningar sínar upp á eigin spýtur eða koma hugsunum sínum í orð og biðja þannig um samúð og skilning. Sú almenna skoðun að það hljóti skaða af því að vera „sleikt upp“, þ.e. að einhver spyrji það að fyrra bragði hvort eitthvað ami að, er umhugsunarverð. Ætli skaðinn sé fólginn í því að barnið færi að beita þagnaraðferðinni á sína nánustu í stað þess að læra að herða sig upp og tjá hug sinn með orðum? Hugsanlega gæti nærgætni og skilningur þeirra fullorðnu frekar verkað hvetjandi og ýtt undir þroska barnsins til þess að læra að tjá sig án skammar og hræðslu. Ef til vill gæti afskiptaleysið einmitt hvatt til þess að barnið fari að loka sig af og sækja styrk í þögninni.
Íslenski karakterstyrkurinn
Svo er það íslenska leiðin. Margir kunna sögur úr sinni sveit af fólki sem bjó steinsnar hvert frá öðru en hafði ekki talast við í fjöldamörg ár. Aldrei kom til tals að farið væri í saumana á misklíðinni og reyna að ná sáttum. Ósættið var einfaldlega staðreynd og svo var jafnvel litið upp til deiluaðila fyrir staðfestu þeirra og karakterstyrk. Það hefur nefnilega lengi vel ekki þótt til siðs að flíka tilfinningum sínum hér á landi og beri fólk harm skal það gert í hljóði. Ennþá eimir eftir af þeim hugsunarhætti eins og tungutakið okkar ber m.a. merki um. Erfiðar tilfinningar sem við nefnum ólund og fýlu á ekki að tala um heldur skammast sín fyrir.
Spáum í það.