Ingibjörg Sverrisdóttir

Þriðjudaginn 16. júní fer fram aðalfundur Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) á Hótel Sögu í Súlnasal kl. 14:00, þar sem kosið verður um nýjan formann og stjórn. Málefni eldri borgara eru mín hjartans mál og því gef ég kost á mér í embætti formanns.

Skerðingar eru eitt aðalumræðuefnið þessa dagana meðal eldri borgara eins og gefur að skilja, því nú hefur þessi hópur um land allt móttekið uppgjör sitt frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) fyrir síðasta ár. Niðurstöðurnar hjá hverjum og einum eru auðvitað misjafnar en hægt væri að setja saman smásagnasafn með mismunandi reynslusögum af skerðingunum því sumar geta verið nokkuð ævintýralegar.

Það, sem veldur skerðingunum almennt, eru breytingar á tekjum sem ekki voru fyrirsjáanlegar þegar tekjuáætlun var gerð fyrir síðasta ár. Tekist hefur að gera fjármál lífeyrisþega svo flókin að mörgum reynist erfitt að komast til botns, eða átta sig á, hvað veldur skerðingunni í hvert skipti, því mismunandi tekjuflokkar skerða lífeyristekjur frá TR mismikið og sumir reyndar ekkert líkt og greiðslur úr séreignasjóðum. Spurning er hvort ekki sé ámælisvert að flækja málin svo mikið fyrir borgarana að þeir skilji ekki hvernig kerfið virkar og að auki að breyta því svo oft í áranna rás að fyrirsjáanleiki þess er lítill.

Hvatann til sjálfsbjargarviðleitni má aldrei taka af fólki, en lífeyrisþegum er nánast refsað með miklum skerðingum fyrir það eitt að reyna að bæta hag sinn með launuðu vinnuframlagi. Slík ráðstöfun hlýtur að vera samfélagslega mjög óheppilegt fyrirkomulag. Meðan skerðingarhlutfallið er í því fari sem það er í dag, fæst lítið sem ekkert út úr styrkjum og öðrum viðbótargreiðslum sem fólk á rétt á hvaðan sem þær koma. Til þess að eldri borgar geti notið fjárhagslegs frelsis er alger undirstaða að taka á skerðingunum.

Sem liðsmaður Gráa hersins og í hópi þeirra sem eru í málaferlum við ríkið vegna skerðinganna, mun ég að sjálfsögðu halda málinu á lofti og baráttunni áfram fyrir réttlæti og bættum hag eldri borgara.

Ég mun beita mér í húsnæðismálum eldri borgara því ég tel að endurskoðunar sé þörf. Mjög nauðsynlegt er að byggja íbúðir á hagstæðara verði en verið hefur til að mæta þörf þeirra efnaminni í samfélaginu og það á við hvort sem er varðandi íbúðir til kaups eða leigu. Nauðsynlegt er að ná hagstæðum samningum við Reykjavíkurborg og byggingaraðila til að ná niður húsnæðisverði því nýjar eignir, ætlaðar eldri borgurum, hafa einfaldlega verið of dýrar til þessa fyrir þá sem minna hafa milli handanna.

Til að ná til fleiri félagsmanna vil ég sjá okkur nýta tæknina í meira mæli svo fleiri geti notið þess sem félagið hefur upp á að bjóða eins og námskeiða, fyrirlestra, funda og annars sem í boði er fyrir félagsmenn hverju sinni. Þannig ætti búseta ekki lengur að skipta máli hvað það varðar.

 

 

 

 

Ritstjórn júní 14, 2020 12:16