Sjálfsagt kannast sumir lesendur ástarsagna við að hafa tárast yfir frásögnum af hestasveinninum unga sem hleypst á brott með brúði sína, hina fögru dóttur óðalseigandans. Síðan er haldið áfram og sagt frá píslargöngu unga parsins þar til það annaðhvort hlýtur fyrirgefningu föður stúlkunnar í gegnum afkomanda eða að hestasveinninn reynist launsonur lávarðs sem deyr án annars erfingja og allir hljóta uppreisn æru. Sjaldnast gerast atburðir sem þessir í raunveruleikanum en svipað hefur þó gerst. Hið furðulega er að þá þurfa hestasveinarnir ekki að uppgötva göfugan uppruna sinn eða deyja til að afkomendurnir mættu njóta sín heldur eru þess dæmi að dugnaður og hæfileikar þessara lágstéttarmanna fleyttu þeim og ástkonum þeirra yfir alla hjalla og jafnvel á Íslandi hafa slíkir menn verið til.
Í Birgittubæ við Bröttugötu í Reykjavík fæddist Gísla Jónssyni snikkara og konu hans, Rósu Grímsdóttur, sonur árið 1836. Drenginn skírðu þau Odd Vigfús. Sagt er að Gísli, faðir Odds, hafi verið hæglætismaður en þeim mun meira sópað að konu hans, Rósu. Hún mun hafa verið hávaxin, þrekin, skapmikil og mikilúðug í svipmóti. Svo stjórnsöm var Rósa að allt nágrennið lét meira og minna að hennar stjórn og vegna þess var Brattagatan um tíma nefnd Rósustígur. Engan þarf því að undra að slík kona hafi getið af sér son sem var stoltur og fylginn sér.

Oddur V. Gíslason hefur verið svipsterkur maður..
Oddur var einbirni og þótti bera af jafnöldrum sínum að gáfum og þroska. Foreldrar hans ákváðu því að setja hann til mennta þótt það væri sjaldgæft að almúgabörnum væri veittur slíkur munaður. Oddur lauk stúdentsprófi og nam síðan guðfræði við Prestaskólann. Prestaskólinn var undanfari Háskólans og námið þar tók tvö ár. Oddur hefur sjálfsagt láitð sér nægja að nema guðfræði vegna þess hve handhægt það var en í raun og veru hneigðist hugur hans til náttúruvísinda. Fyrstu árin eftir útskrift frá Prestaskólanum fékk hann vinnu við námaleit og náttúrurannsóknir. Mörg sumur fylgdi hann Englendingum sem voru á ferð um landið og höfðu meðal annars í huga stórfellt brennisteinsnám í Krýsuvík en Einar nokkur Benediktsson hafði vakið athygli breskra á möguleikum þar um slóðir.
Neitaði að hlýða biskupi
Oddur sýndi því lítinn áhuga á því að sækja um nokkurt prestakall eða brauð. Nafn hans varð hins vegar á hvers manns vörum á landinu þegar hann neitaði að taka við Grímseyjarprestakalli sem var hálfgert, eða kannski algert, rúgbrauð í þá tíð ef menn nota skilgreiningu Ómars Ragnarssonar á prestsembættum. Biskup var skyldugur til að manna öll prestaköll í landinu og venjan var sú að rýrari sóknirnar féllu í hlut fátækari prestsefna og ekki hvað síst þeirra sem höfðu þegið skólastyrk. Hafði biskup ýmis ráð til að neyða menn til að þiggja brauð og meðal annars það sem kallað var skikkunarvald og tryggt var með lögum frá 1737 og 1791 lögum sem sett voru tæpri öld áður en að Oddur V. Gíslason fæðist. Guðfræðistúdentinn sá kunni hins vegar ekki við að láta segja sér fyrir verkum og hefur sennilega haft nægilegt sjálfstraust til að telja hæfileika sína geta nýst víðar en meðal hinna allra fátækustu og aumustu af sóknarbörnum biskups.
Það vakti að sjálfsögðu mikla athygli að hinn ungi og fátæki kandíat skyldi neita biskupi sínum en ekki síður vöktu viðbrögð hans mikla reiði ráðamanna á Íslandi. Þeir settu saman lagafrumvarp þess efnis að prestsefnum frá Prestaskólanum væri skylt að hlýða skipun stiftsyfirvalda um brauð á Íslandi sem enginn sækti um en ella mætti endurkrefja þá um styrk þann, eða „ölmusu“ eins og það var jafnan kallað í þá tíð, sem þeir höfðu þegið. Þessi tilskipun mæltist að sjálfsögðu illa fyrir meðal alþýðunnar sem var bæði þreytt á því að þeir fáu úr alþýðustétt sem náðu að brjótast til mennta fyrir eigin dugnað og gáfur þurftu síðan að gjalda fyrir það og að þurfa að taka við illa undirbúnum og lélegum prestum sem jafnvel biskup sá að ekki væri skikkanlegt að veita betri eða ríkari sóknir.
En yfirvöld á Íslandi hafa jafnan farið sínu fram hvernig sem hjarta alþýðunnar hefur slegið eða hugur hennar starfað. Mál Odds dró þó þann dilk á eftir sér að skipuð var nefnd frá Alþingi árið 1863 til að skoða málið og lagðist nefndin gegn skikkunarvaldi stiftsyfirvalda. Má því líta svo á að Oddur hafi sigrað ef litið er fram hjá því að vegna uppreisnar sinnar fékk hann hvergi vinnu við sitt hæfi á Íslandi og varð því að flýja til Englands. Helsti tilgangur Odds með ferðinni til Englands var þó að læra hvernig bræða ætti lifur og gera hana að verðmætri afurð. Við þetta vann Oddur síðan næstu árin og gat sér gott orð. Keypti hann lifrina hér og flutti út afurðir hennar; eldsneyti á lampa og lýsi til lækninga, bæði til Frakklands og Englands.

Anna Vilhjálmsdóttir var mun betur „ættuð“ en Oddur og föður hennar fannst ekki jafnræði með þeim.
Velættuð unnusta
Oddur var mikill sjómaður og ekki er að efa að það var að hluta til þess vegna sem hann sótti í að komast til Suðurnesja. Hann vissi hvar aflann var helst að fá. Í Kirkjuvogi í Höfnum bjó Vilhjálmur Hákonarson. Höfðu hann og forfeður hans öðlast viðurkenningu Danakonungs fyrir einstakan dugnað bæði við búskap og sjósókn, og verið sæmdir dannebrogsorðu langt fram í ættir. Vilhjálmur var framsýnn maður og duglegur og þótti hinn mesti höfðingi í alla staði.
Vilhjálmur var kvæntur velættaðri konu og víst er að þau væntu mikils af börnum sínum. Hjónin áttu ekki önnur börn sem upp komust en dæturnar Steinunni og Önnu. Um það leyti sem Oddur var á ferð með lifrarbræðslupottinn var Steinunn gift en Anna sat enn í föðurhúsum. Skemmst er frá því að segja að þau Anna og Oddur urðu ástfangin en foreldrar Önnu lögðust gegn þeim ráðahag.
Við höfum áður kynnst því að Oddur var ekki sá maður sem lét mótlætið brjóta sig og sama máli virðist hafa verið að gegna um Önnu. Þau tvö hittust fyrst þegar presturinn kom til að semja við föður hennar um að taka alla hans þorskalifur í bræðslu og heitt hlýtur augnaráðið að hafa verið sem þetta unga fólk sendi hvort öðru því brátt tók að kvisast um sveitina að hinn ungi lifrarbræðslumaður leggði leið sína oftar en þurfa þótti í Kirkjuvog.
Oddur var heiðarlegur maður og hann gekk á fund föður Önnu til að biðja um hönd konunnar sem hann elskaði. Vilhjálmur var fljótur að vísa þessu bónorði á bug. Víst var biðillinn glæsilegur og vel menntaður en faðirinn ætlaði dóttur sinni betri hluti. Húsbóndinn í Kirkjuvogi virtist þess fullviss að vald hans væri óskorað og að dóttir hans mundi sætta sig við það. Vinnufólk á hans eigin heimili veitti því athygli að dóttirin unga var að búa sig til brottfarar en þegar sá orðrómur barst Vilhjálmi til eyrna kaus hann að kalla til njósnara sem hann treysti til að sitja um dóttur sína. Fátt gefur ungu fólki hins vegar meira hugrekki og langlundargeð en einmitt ástin.
Unnustan sótt að næturþeli
Árið 1870 hafði bóndinn í Kirkjuvogi mörgum skyldum að gegna. Hann vissi að dóttir hans hafði verið ráðin í því að giftast þeim manni sem hann sjálfur gat ekki samþykkt en bóndi sá enga leið til að vera til staðar og vakta dóttur sína alla tíð. Sjálfsagt trúði hann einnig að dóttirin fagra sæi að sér. Að áliðnu hausti þetta sama ár hafði faðirinn slakað heldur á klónni og brá sér bæjarleið. Þegar hann kom aftur uppgötvaði hann að rúm dóttur hans var tómt.
Hún hafði sætt lagi um leið og faðir hennar fór að tína saman eitthvað af fatnaði og öðrum eigum sínum í poka og laumast í náttmyrkrinu til móts við unnusta sinn. Oddur beið hennar með hesta í nágrenni bæjarins og þau riðu til Njarðvíkur þar sem þeirra beið bátur sem reri með þau til Reykjavíkur. Vilhjálmur Hákonarson dannebrogsmaður var hæglætismaður en hann reyndi þó að fá dóttur sína til að hverfa aftur heim. Eins og lögum var þá háttað á Íslandi hefði Vilhjálmur í raun réttri getað lögsótt Odd fyrir brúðarránið en hann ákvað heldur að gefa eftir og á gamlárskvöld árið 1870 voru þau Anna og Oddur gefin saman.
Þrátt fyrir að Oddur hafi stundað ýmis störf önnur en andlega þjónustu prestsins var hann þó alls ekki fráhverfur því hlutverki. Árið 1875 fékk hann Lund í Borgarfirði og þremur árum seinna sótti hann um og fékk Stað í Grindavík. Séra Oddur var snjall ræðumaður og vel máli farinn. Hann var talinn sérlega bænheitur og þótti fólki gott til hans að leita til að biðja fyrir sjúkum. Allir sem þekktu hann voru sammála um að hann væri einlægur trúmaður en hann hafði mörg önnur áhugamál sem voru veraldlegri. Oddur hafði mikinn áhuga á sjósókn og hélt úti mánaðarritinu Sæbjörgu sem fjallaði um björgunarmál og slysavarnir sjómanna. Hann gaf einnig út mörg önnur rit um sjósókn og baráttumál sjómanna og telja margir að fræðsla hans og frumkvæði hafi bjargað ófáum mannslífum.
En, eins og títt er um hugsjónamenn, voru ekki allir sem litu silfrið sömu augum og séra Oddur og lögðust gegn félagsmálabrölti hans. Ekki hafa meðulin alltaf verið vönduð í þeirri baráttu því það varð til þess að hann sótti um lausn frá embætti að Stað kominn fast að sextugu og flutti til Kanada þar bjó hann þar til hann andaðist árið 1911. Eftir að hann kom til Kanada lærði séra Oddur læknisfræði og stundaði lækningar. Hann var jafnframt andatrúarmaður og sagt var að hann hefði læknað marga með handayfirlagningum.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.