Jarðarberjatiramisu

Enn erum við að sjá dásamleg íslensk jarðarber í hillum verslana. Þau innfluttu fást allt árið en á meðan þessi íslensku fást er mikil synd að nýta ekki þetta dýrindishráefni til matargerðar. Eftirréttir eru auðvitað tilvaldir til þess og hér er einn algerlega ómótstæðilegur:

400 g rjómaostur við stofuhita

3/4 bolli flórsykur (má nota 1/2)

7 msk. Marsala vín

1/2 bolli sýrður rjómi

1 askja íslensk jarðarber

3/4 bolli sjóðandi vatn

2 msk. sykur (má nota 1 msk.)

2 1/2 tsk. skyndikaffiduft

1 pakki ,,lange vinges“ kexkökur

rifið suðusúkkulaði

Hrærið rjómaost, flórsykur og 5 msk. Marsala víni  í hrærivél þar til blandan er orðin kekkjalaus. Bætið sýrða rjómanum saman við og hrærið áfram. Skerið helminginn af jarðarberjunum í sneiðar og hinn helminginn í tvennt. Bætið því næst skyndikaffinu og sykrinum út í heita vatnið og hrærið þar til þurrefnin hafa leyst upp. Bætið afganginum af Marsala víninu, eða 2. msk. út í blönduna. Dýfið kexkökunum ofan í vökvann og raðið þeim þannig að þær þeki botninn á diski sem er u.þ.b. 24 sm í þvermál og með háum börmum. Dreifið því næst 2/3 af rjómaostsblöndunni yfir kökurnar og þekið síðan með jarðarberjasneiðum. Dýfið fleiri kökum í vökvann og leggið ofan á jarðarberin. Deifið afganginum af rjómaostsblöndunni yfir kökurnar. Stráið rifnu súkkulaði síðan yfir og skreytið með  jarðarberjahelmingunum. Geymið í kæli í a.m.k. 4 klst. áður en þessi ,,desertdjásn“ er borin fram. Best er að útbúa þennan eftirrétt daginn áður, þannig er hann bestur.

Ritstjórn nóvember 12, 2021 22:50