Óhætt er að fullyrða að flest fólk hafi verið slegið og sorgmætt þegar fréttir bárust af því um heimsbyggðina að franskur maður, Dominique Pelicot hafi árum saman gefið konu sinni slævandi lyf með þeim afleiðingum að hún missti meðvitund og síðan kallað til karlmenn úr nágrenninu og hvatt þá til að nauðga henni. Upp komst um kauða og hann dreginn fyrir dóm. Hin hugrakka Giséle vakti aðdáun allra þegar hún ákvað að sýna stolt andlit sitt fremur en að fela sig en dómstólar buðu henni að vernda hana þegar hún mætti til réttarins. Nýlega komust breskri fjölmiðlar svo að því að Kamilla drottning þeirra hafði skrifað Giséle bréf og verið í bréfasamskiptum við hana meðan á réttarhöldunum stóð.

GIséle Pelicot
Kamilla hefur í ríflega áratug beitt sér til stuðnings samtaka sem styðja konur sem eru beittar ofbeldi á heimilum sínum. Hún hefur heimsótt kvennaathvörf, tekið þátt í góðgerðasamkomum til að afla fjár fyrir slík samtök og talað fyrir nýjum leiðum til að bregðast við málum þar sem kynbundið ofbeldi á sér stað. Kamilla hafði hins vegar alls ekki ætlað sér að gera opinberan stuðning sinn við Giséle Pelicot. Mál hennar snerti drottninguna djúpt og vildi leggja sitt af mörkum til að hjálpa þessari konu sem þurfti ekki aðeins að horfast í augu við að maki hennar hafði beitt hana óskiljanlegu og grófu ofbeldi heldur einnig að mæta augliti alls heimsins þegar hún bar vitni gegn honum.
Kamilla er þess fullviss, að sögn bresku miðlanna, að hugrekki Giséle muni breyta viðhorfum fólks til kynbundins ofbeldis og hjálpa til við að skömmin og ábyrgðin á ofbeldinu setjast á herðar þeirra sem eiga sök á því. Nýlega var sýnd heimildamynd um drottninguna á ITV sjónvarpsstöðinni og þar sagði hún: „Eitt af því sem gerir svo erfitt að skilja heimilisofbeldi – er ekki marblettirnir eða glóðaraugun, sem við sjáum því miður vegna þess, heldur það að þetta er fyrirbæri sem læðist hægt og rólega að konum og endar því miður of oft með kona drepin.“ Bretar hafa undanfarin ár unnið markvisst að því að skapa þeim sem þola ofbeldi á heimilum sínum betri úrræði og aðferðir lögreglu í slíkum málum eru mikið breyttar frá því sem var.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.