Ef að karlar vilja ná sér í konur ættu þeir að endurskoða hvaða „pikköpplínur“ þeir nota, þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem gerð var í háskóla í Kansas í Bandaríkjunum. Samskiptasérfræðingurinn Jeffrey Hall segir að því oftar sem karlmaður reynir að vera fyndinn og því oftar sem konan hlær að gamanmálum hans, því líklegri sé hún til að hafa áhuga á stefnumóti. Sjáist karl og kona hlægja saman sé það ákveðin vísbending um rómantísk tengsl. Grein um þetta efni birtist á vefnum Science Daily, Lifðu núna endursagði og stytti.
Tengsl skopskyns og greindar
Þetta kom meðal annars í ljós þegar Hall rannsakaði tengsl milli skopskyns og greindar. Undanfarinn áratug hefur vísindamenn greint á um hvernig konur meti skopskyn karlmanna, en það er oft sagt vera mikilvægur þáttur í fari maka. Útfrá skopskyninu meti þær hugsanlega greind karlmanns sem þær hafi augastað á. Skopskyn er ekki eingöngu merki um greind, segir Hall. Ef þú hittir einhvern sem þú getur hlegið með getur það þýtt að framtíðarsamband verði ríkt af gleði og skemmtilegheitum. Í grein sem var birt í netútgáfu sálfræðitímaritsins Evolutionary Psychology greinir Hall frá rannsóknum sem hann gerði þar sem engin tengsl fundust milli skopskyns og greindar. Í rannsókn þar sem 35 þátttakendur voru látnir skoða hundrað fésbókarsíður ókunnugs fólks áttu þeir að reyna að meta persónuleika fólksins. Niðurstaðan var að fólk með ríkt skopskyn var líklegara til vera opnir persónuleikar frekar en vera sérstaklega gáfað. Annað sem mátti lesa úr rannsókninni var að konur setja jafn fyndið og skemmtilegt efni á netið og karlar.
Enginn munur á skopskyni kynjanna
Í annarri rannsókn þar sem þrjúhundruð háskólanemar voru spurðir um húmor í tilhugalífi kom í ljós að engin tengsl voru milli gáfnafars og þess hversu fyndinn hann eða hún sögðust vera. Engin munur fannst heldur á því hvernig karlar og konur skilja eða kunna að meta húmor. Þriðja rannsóknin var gerð á fimmtíu og einu gagnkynhneigðu pari háskólastúdenta sem þekktust ekki. Pörin sátu ein saman og töluðust við í tíu mínútur. Síðan var lagður spurnigalisti fyrir þau. Niðurstöður rannsóknarinnar bentu ekki til þess að annað kynið reyndi að vera fyndnara en hitt. Hins vegar bentu niðurstöðurnar til þess að því oftar sem karlmaðurinn reyndi að vera fyndinn og því oftar sem konan hló því líklegri væri hún til að verða áhugasöm um manninn. Þá kom í ljós að karl og kona sem hlógu saman voru líklegri til að hafa áhuga hvort á öðru.
Leikrit sett á svið
Þar sem Hall fann engin tengsl milli húmors og gáfnafars veltir hann upp skýringum á því hvers vegna húmor er svo mikilvægur í makaleit: Húmor bendir til þess að viðkomandi sé félagslyndur og hafi viðkunnalegan persónuleika. Hluti af félagslyndi er hæfileikinn til að gantast með öðrum, segir Hall. Karlmenn nota húmor til þess að komast að því hvort kona hafi áhuga. Þannig reyna karlmenn að fá konur til þess að sýna á spilin segir hann. Hjá sumum karlmönnum er þetta meðvituð herkænska. Þegar karlmenn með sínum gamanmálum fá konur til að hlægja eru þeir að „fara með rullu í leikriti tilhugalífsins“ þar sem karlmenn fara með hlutverk hirðfíflsins og konurnar eru viðhlæjendur. Texti leikritsins er áhrifamikill, heldur leikendum við efnið og stjórnar öllu í samskiptunum, allt frá því að bjóða einhverri á stefnumót til þess hvort á að borga fyrir matinn. Þá hefur húmorinn mikið gildi einn og sér, sameiginlegur hlátur getur orðið leið til þess að langvarandi samband þróist, segir Hall.