Kemur auga á opnar dyr þegar einar lokast

Sigurbjörg og Peter á ferðalagi um Jórdaníu, hér eru þau við Dauðahafið.

Tekur flugið á miðjum aldri

Sigurbjörg Pálsdóttir er innanhússarkitekt sem starfaði hjá IKEA í mörgum löndum allt frá því hún fékk vinnu hjá IKEA á Íslandi 1989 og var þar allt til 2015 að hún ákvað að hætta og snúa sér að öðru. “Það var bara rétti tíminn til að gera eitthvað nýtt,” segir hún hressilega. Sigurbjörg fór í nám 24 ára gömul til Bandaríkjanna1981 með þáverandi eiginmanni sínum og eldri dóttur þeirra þar sem hún lærði Innanhússarkitektúr. Hún prjónaði lopapeysur í gríð og erg til að hafa upp í leiguna á milli þess sem hún las námsbækurnar en á þeim tíma fékk hún 65 dollara fyrir peysuna en þá var leigan 250 dollarar á mánuði. Sigurbjörg var orðin svo flink að prjóna að ein peysa á dag voru ekki óalgeng afköst ef mikið lá við. Og á námsárum liggur alltaf mikið við. Nú er öldin önnur og Sigurbjörg hefur viðað að sér mikilli reynslu og þekkingu í starfi sínu víða um heim. Og nú nýtir hún prjónahæfileikana til að prjóna grófa púða ef hún er aðgerðarlaus. Leti er eitur í beinum Sigurbjargar en hún hefur þurft að læra að “að gera ekki neitt” sem hún hefur komist að að geti stundum verið skemmtilegt líka. Meðal annars vegna þess að hún þjáist af brjósklosi sem hefur oft verið svo slæmt að hún gæti látið meta sig öryrkja. En það vill hún ekki gera á meðan hún getur hreyft sig.

Kom heim úr námi skömmu fyrir fyrra hrun

„Á meðan ég var í námi ríkti mikil bjartsýni á Ísland. Ég fékk mikla hvatningu og allir fullyrtu að ég myndi fá nóg að gera þegar ég kæmi heim. En það var aldeilis ekki raunin því strax 1986  – ´87 varð mikið hrun á Íslandi og ég fékk hvergi vinnu sama um hvað ég sótti.” IKEA var þá komið hingað til Íslands og Sigurbjörg sótti um og átti alveg eins von á höfnun. En viti menn, hún var ráðin sem yfirmaður útstillingadeildar 1988 og þar með var framtíðin ráðin. Hún segir lífið vera svo undarlegt stundum. Í rauninni voru önnur störf sem hana langaði meira í á þessum tíma, t.d. hönnunarstarf á stofu. En þarna fékk hún starf sem átti eftir að verða henni mjög happadrjúgt. „Lífið er oft samsett af svo mörgum tilviljunum og þegar maður hugsar til baka man maður eftir atvikum sem hafa valdið vonbrigðum en eftir á að hyggja hafa þau verið hið mesta happaspor.”

Einar dyr opnast þegar aðrar lokast

Útskriftarverkefni Peters 1990 frá Konunglegu arkitekta-akademíunni i Kaupmannahöfn. Stólarnir eru nú í framleiðslu hjá nýja fyrirtækinu þeirra.

Sigurbjörg var starfandi verkefnastjóri 1994 fyrir nýju IKEA byggingunni í Holtagörðum þar sem leiðir hennar og seinni eiginmanns hennar, Peters Kumhart, sem er danskur arkitekt, lágu saman. „Fljótlega var ljóst að við áttum samleið,“ segir Sigurbjörg og er ánægð með það hvernig lífið hefur oltið áfram, mjög oft óvænt en alltaf skemmtilega þegar upp var staðið en hún hefur verið klók að koma auga á opnar dyr þegar einar hafa lokast.

„Peter er fjórum árum yngri en ég. Hann hefur haft það starf undanfarin ár að byggja upp IKEA verslanir í Belgíu. Maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér svo nú vil ég halda áfram og nýta þá miklu og góðu reynslu sem við búum yfir og skapa eitthvað nýtt og spennandi.

Eg er núna i því ferli að efla okkar eigið fyrirtæki og við hlökkum til að starfa saman i framtíðinni,“ segir þessi kraftmikla kona sem nú er á miðjum aldri og er með hugann við nýsköpun.

Leituðu að vinnu í þriðja landinu

Þegar ljóst var að framtíð þeirra Sigurbjargar og Peters yrði saman ákváðu þau að leita að vinnu i þriðja landinu en ekki í heimalöndum þeirra til að fá tækifæri til að hefja nýtt líf á nýjum stað fyrir bæði og hvorugt bæri ábyrgð á hinu. Þau fóru því til Englands og fóru bæði að vinna hjá IKEA þar. Stelpurnar hennar voru með þeim en þar sem Sigurbjörgu fannst enska skólakerfið ekki henta stelpunum ákvað hún að taka tilboði frá IKEA um starf í aðalstöðvum fyrirtækisins í Hollandi og þar fóru dætur hennar í amerískan skóla þar sem þær voru mjög ánægðar. Peter var áfram hjá IKEA í Englandi svo að þau voru í fjarbúð í nokkur ár enn. Svo leið og beið og stelpurnar voru farnar að heiman og út í lífið og Sigurbjörg og Peter héldu áfram að búa hvort í sínu landinu vegna atvinnu. Þau eiga ekki börn saman og eru alveg sátt við það því lífið hefur farið með þau á óvæntar slóðir og stundum á þvæling þar sem börnum hefði ekki verið greiði gerður að veltast með. Sigurbjörg færði sig yfir til Peters í Danmörku og þótti dásamlegt að búa þar sem þau unnu saman við að byggja nýjar IKEA búðir. Hún segist vera flökkukind í eðli sínu og hefur geysilega gaman af að kynnast nýjum stöðum og nýrri menningu, hefur óendanlega gaman af framandi matargerð svo þessi lönd sem hún kynntist í starfi sínu hjá IKEA voru ómetanleg uppspretta lærdóms.

Lærði að vera “extrovert”

Starfsmannafagnaður hjá IKEA i Kuwait 2015, þemað var „arabiskar nætur“

Sigurbjörg segir að í starfi sínu hjá IKEA hafi hún orðið að tileinka sér að vera “extrovert” manneskja. Hún segist hafa lært að vera ófeimin og opin en sé í eðli sínu feimin og hlédræg. “Það persónueinkenni gerir það að verkum að ég nýt þess að vera ein,” segir hún. “Ég hef alltaf þurft að kúpla mig út og vera ein eftir mikla vinnutörn og nú finnst mér ég aftur geta verið ég sjálf þar sem ég er farin að vinna hjá sjálfri mér. Svo er ég í fyrsta skipti ekki að sjá um börn eða starfsmenn sem kalla stöðugt á athygli mína eftir að hafa verið fyrst móðir og svo yfirmaður á fjölmennum vinnustað sem hvort tveggja hefur eflt mig mikið sem manneskju“.

Ólifu viðarbord frá Jórdaníu sem líka er i framleidslu hjá fyrirtæki þeirra.

Af hverju að stofna fyrirtæki komin á þennan aldur

„Ég hef alltaf haft mjög gaman af að vinna og notið þess að búa til eitthvað nýtt,“ segir Sigurbjörg Pálsdóttir sem hefur haft þann starfa að opna nýjar IKEA verslanir í mörgum löndum. „Nú er komið að tímamótum og mér finnst vera kominn tími til að gera eitthvað nýtt, og nú fyrir sjálfa mig. Ég er enn mjög  þrekmikil og nýt þess að vinna að spennandi verkefnum sem ég er nú í aðstöðu til að búa mér til sjálf.“

Þegar Sigurbjörgu bauðst að fara til Jórdaníu

Dætur og barnabörn Sigurbjargar á góðum degi á Íslandi.

Þau Sigurbjörg og Peter búa í Belgíu þar sem Peter fer til vinnu á daginn en Sigurbjörg vinnur heima að fyrirtæki þeirra. Það var 2011 sem Sigurbjörgu bauðst að fara til Jórdaníu á vegum IKEA og stofna þar verslun. Hún þurfti þá að velja um að lifa áfram þægilegu lífi sem hún og Peter höfðu búið sér í Danmörku eða framandi líf í Jórdaníu. Hún ákvað að skoða Jórdaníutilboðið aðeins betur, fór þangað í einn dag og segir að hún hafi fundið um leið og hún kom þangað að þar var eitthvað sem heillaði hana svo að henni fannst ljóst að hún yrði að taka þessu atvinnutilboði og prófa að búa í þessu framandi landi. Starfið fólst í því að byggja upp IKEA veslun í Amman og síðan nokkrar í Marokkó og Kuweit og Peter hafði líka fengið loforð um vinnu hjá IKEA þarna suðurfrá svo lífið blasti við þeim. Hlutirnir gerast hins vegar ekki eins hratt í þessu samfélagi eins og hún var vön þar sem hún hafði starfað áður. Þar er alltaf viðkvæðið „Bukra insjalla“ sem þýðir „á morgun ef guð lofar“. Og svo ber enginn ábyrgð á því hverju guð lofar svo hlutirnir geta dregist úr hófi að mér fannst.”

Sigurbjörg sá um að ráða starfsfólk í Amman, þar sem verslunin var staðsett, og þjálfa það og segir það hafa verið ómetanlegt tækifæri til að kynnast heimamönnum. Fólk í þessum löndum er ekki vant því að yfirmenn séu vingjarnlegir og stéttaskiptingin er gífurleg. Þar öskra yfirmenn á undirmenn sem hlýða skilyrðislaust. Foreldrar krakkanna sem ég réð til vinnu voru svo þakklát og voru sífellt að bjóða mér í fjölskylduboð og þakka mér fyrir. Hún segir sögur af múslimahatri fara verulega fyrir brjóstið á sér síðan þá og að hennar reynsla af múslimum sé verulega góð. Allt tal um að allir múslimar séu eins og Ísis samtökin sé á miklum misskilningi byggt og beri vott um fáfræði. 

Fyrirtækjahugmyndin fæddist

Pals&Co hönnun i sölurými á Íslandi fyrir jólin. Í góðum félagsskap með „knot knot“ púdum Ragnheiðar Aspar Sigurðardóttur og flottum sjölum frá Andreu Fanneyju Jónsdóttur; Unun að vinna med þessum ungu flottu íslensku hönnudum.

„Á þessum tíma fæddist hugmyndin að þessu litla fyrirtæki sem ég stofnaði og þar sem miklar tafir urðu á opnun IKEA verslunarinnar auk þess sem fyrir dyrum stóð bakaðgerð sem ég þurfti að fara í ákvað ég að hætta í föstu starfi hjá fyrirtækinu. Ég hef síðan tekið að mér minni verkefni fyrir fyrirtækið  og bý núna í Belgíu með Peter og nú hefur líf okkar verið hefðbundið í nokkurn tíma. Hann hefur farið til vinnu á morgnana en ég vinn að heiman, fer í stuttar viðskiptaferðir til Jórdaníu í vöruleit jafnframt því að taka að mér verkefni fyrir IKEA.

Nú á Sigurbjörg tvær dótturdætur og vill geta valið hvernig hún ver tímanum á meðan þær eru litlar því sá tími komi ekki aftur. „Ég vil geta haft þetta frjálsræði sem við eigum að hafa þegar árin færast yfir. Þá eigum við að geta notið afraksturs mikillar vinnu í gegnum tíðina. Ég vil geta farið að heimsækja börnin mín og barnabörnin þegar hentar en svo vil ég vera sjálfstæð og alls ekki upp á dæturnar komin. Það eru sannarlega ekki sjálfsögð mannréttindi en mikið óskaplega fylgir því mikil vellíðan að geta hagað lífi sínu þannig,” segir Sigurbjörg  að lokum og má segja að sé á byrjunarreit, komin á miðjan aldur.

 

 

 

 

Ritstjórn desember 15, 2017 13:12