Þegar #metoo-byltingin svokallaða fór af stað óraði líklega engan fyrir því hversu víðtæk áhrif hún myndi hafa. Enn er öldugangur og af og til brimskaflar þegar upp koma ný og ný mál. Kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðurinn endurspeglar þetta svo sannarlega og undanfarið hafa verið mjög áberandi þættir og kvikmyndir um konur sem taka völdin í sínar hendur og hefna sín.
Það var William Congreve, ekki William Shakespeare, sem skrifaði línuna, … nor hell a fury like a woman scorned“ í leikriti sínu The Mourning Bride. Hvort einhver sannleikur leynist í þessum orðum er ekki gott að segja því lengst af voru konur einfaldlega valdalausar og urðu að láta yfir sig ganga framhjáhöld eiginmanna sinna, að þeir yfirgæfu þær og barnahópinn ef þeim sýndist svo, að þeim væri nauðgað og þær barðar án þess að nokkur möguleiki væri á að ná fram einhverju réttlæti. Þetta hefur vissulega breyst og konur hafa fleiri og betri tækifæri á ýmsum sviðum en réttarkerfið hefur reynst afllítið þegar kemur að því að taka á kynbundnu ofbeldi og enn í dag er flestum málum ýmist vísað frá eða ofbeldismenn fá væga dóma. Stór hluti kvenna kýs þess vegna að kæra ekki.
„Kannski er það þess vegna sem handritshöfundar hafa í auknum mæli farið að velta fyrir sér hvað gerðist ef konur ákveddu að taka sjálfar á málum.“
Promising Young Woman, áhrifamikil mynd um nauðgun og afleiðingar hennar, hlaut margar tilnefningar til Óskarsverðlauna árið 2020. Þar leikur Carey Mulligan greinda og hæfileikaríka unga konu sem flosnar upp úr námi í læknaskóla eftir að bestu vinkonu hennar er nauðgað og sú sviptir sig lífi í kjölfarið. Algjört skeytingarleysi þeirra sem eru ábyrgir fyrir dauða hennar gengur aðalpersónunni að hjarta og hún ákveður að leita hefnda. Handritshöfundar myndarinnar fengu Óskar fyrir besta frumsamda handritið.
Innblásnar af #metoo
Emerald Fennell, handritshöfundur og leikstjóri kvikmyndarinnar hefur verið opinská um að hún hafi sótt innblástur í #metoo-byltinguna svokölluð þegar hún hóf að skrifa fyrstu drögin að handritinu. Hún segir að kvikmyndin hafi verið tilraun til að senda kvenhatri og kvenhöturum miðjufingurinn og þakka þeim konum sem hleyptu #metoo af stokkunum. Þær Jodi Kantor og Megan Twohey blaðamenn á New York Times skrifuðu fréttina af Hollywood-mógúlnum Harvey Weinstein og gáfu þeim konum sem hann áreitti raddir. Emerald segir þær meðal annarra hafa verið ofarlega í huga sér. Fleiri sjónvarps- og kvikmyndaverk má nefna sem sóttu sér innblástur í sömu frétt, Unbelievable, The Assistant, Bombshell og The Morning Show. Metoo-hreyfingin hrinti af stað umskiptum á stöðu kvenna í leiklistarheiminum og ennþá markar fyrir gárum eftir upphaflegu ölduna.
BAFTA-verðlaunin fyrir bestan leik, handrit og leikstjórn fyrir árið 2020 hlaut Michaela Coel. Hún skrifaði, leikstýrði og lék aðalhlutverk í þáttunum I May Destroy You sem sýndir voru á BBC1 og HBO. Þættirnir vöktu gríðarlega athygli, enda fjallað um eldfimt efni eða lyfjabyrlun og nauðgun. Sigur hennar þykir einnig vera ein ný ábendingum að tímarnir séu að breytast í kvikmyndabransanum. Þættir Michaelu tala einmitt inn í baráttu kvenna gegn kynbundnu ofbeldi ekki hvað síst þá fordóma að konur kalli yfir sig ofbeldi með neyslu vímuefna, klæðaburði eða framkomu. I May Destroy You fjalla um Arabellu, ungan áhrifavald og Twitter-stjörnu, og höfund metsölubókarinnar Chronicles of a Fed-Up Millennial. Hún vinnur að annarri bók en skemmtanalífið glepur og það verður henni örlagaríkt.
„Hún fer út á lífið með vinum sínum og þar er henni byrluð ólyfjan. Daginn eftir man hún ekki hvað gerðist en veit innst inni að það er eitthvað óþægilegt. Hún leitast því við með hjálp vina sinna að rifja upp atburði næturinnar.“
Arabella er enginn engill. Hún neytir alls konar vímuefna og hegðar sér frjálslega en það er einmitt eitt áhrifamesta atriði þáttanna. Hvernig sem Arabella er skiptir nefnilega engu hvað árásina á hana varðar. Hún á rétt á að líkami hennar séu virtur og enginn snerti hana án leyfis. Michaela hefur sjálf upplifað nauðgun og sú reynsla var kveikjan að handritinu. Þá var hún að vinna að sjónvarpsþáttunum Chewing Gum og líkt og Arabella skrapp hún á djammið til að fá hvíld frá vinnunni. Nauðgunarlyfi var blandað í drykkinn hennar og hún rankar við sér daginn eftir á skrifstofu sinni, síminn hennar mölbrotinn á gólfinu og í huga hennar óljósar minningar um mann í bleikri skyrtu og víðar nasir. Michaela hófst handa við að rifja upp atburði næturinnar og að lokum varð henni ljóst að henni hafði verið nauðgað af tveimur mönnum. Sigur I May Destroy You er þess vegna bylting í tvennum skilningi. List þeldökkrar konu er viðurkennd og horfst í augu við nauðgunarmenningu vestrænna samfélaga án fegrunar.
Framhjáhald líka ofbeldi
Innan fjölskylduráðgjafarfræða er framhjáhald flokkað sem heimilisofbeldi þegar það er síendurtekið og beinlínis notað til að grafa undan sjálfstrausti og sjálfsmati makans. Trúnaðarbrestur í langtíma sambandi verður þegar makinn á í kynferðis-, eða nánu tilfinningasambandi við annan aðila. Makinn upplifir sig svikinn og þetta grefur undan trausti í sambandinu og hefur langtíma afleiðingar. Sá sem er svikinn þróar oft með sér kvíða og óöryggi, á bágt með að treysta öðrum og almennt nokkru. Þótt konur séu vissulega oft ótrúar mökum sínum eru karlmenn enn í meirihluta þeirra sem halda framhjá. Lengi sættu konur sig við svikin enda fárra kosta völ kysu þær að fara.
Í bresku þáttaröðinni Wilderness er annað uppi á teningnum. Jenna Coleman, sú sem lék Viktoríu drottningu í samnefndri þáttaröð leikur þar unga eiginkonu sem kemst að því að maðurinn hennar stendur í framhjáhaldi. Hún ákveður að fyrirgefa honum en þegar viðhaldið dúkkar upp ásamt eiginmanni sínum þar sem parið er á ferðalagi í óbyggðum hefst óvenjuleg atburðarrás. Það nægir eiginlega að segja að Liv er ekki kona sem borgar sig að svíkja í tryggðum.
En sjónvarp og kvikmyndir hafa almennt lítið með raunveruleikann að gera þótt vissulega geti magnaðir listamenn endurspeglað hann á einhvern hátt. Ef draga á lærdóm af auknu framboði á efni um konur í hefndarhug væri hann sá helstur að samfélagið þarf að taka öðruvísi á kynbundnu ofbeldi en það vissum við auðvitað fyrir. Engu að síður eru þáttaraðir og verk eins og þau sem hér er fjallað um umhugsunarverð og velta upp nýjum hliðum á félagslegum veruleika sem þarfnast skoðunar og breytinga.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.