Fólki á öllum aldri finnst það orðið gamalt og þjáist vegna þess. 19 ára unglingar geta verið jafn þjakaðir af áhyggjum yfir aldri sínum og 55 ára fólk. Ég hef verið að velta þessu fyrir mér, segir hin 57 ára gamla Kati Reijonen í pistli á Huffington Post. „Þeir segja að 50 sé hið nýja 30. Ég segi 50 er 50 og það er líka allt í lagi.“ Lifðu núna endursagði og stytti pistilinn.
Að láta drauma sína rætast
Kati telur upp nokkur atriði sem gleðja og fylgja hækkandi aldri. Það eru nokkrir hlutir sem fólk yfir fimmtugt getur ekki gert en miklu fleiri sem það getur gert. Það er orðið of seint að ætla að læra að verða ballettdansari eða heilaskurðlæknir. Konur á þessum aldri verða heldur ekki ófrískar. Konur eru líka lausar við vesenið sem fylgir blæðingum. Er það ekki frábært, spyr Kari. Hún segir að það sé ýmislegt sem eldra fólk getur gert. Það getur til dæmis skrifað bækur, stofnað fyrirtæki, sofið út og hlustað á hallærislega tónlist án þess að skammast sín fyrir það. Það getur átt sér drauma og látið þá rætast.
Kari segist hafa heyrt það einhversstaðar að leyndardómur þess að verða hamingjusamari þegar fólk eldist sé að reyna að breiða það út að vísdómur fylgi hækkandi aldri. Það eigi að kenna yngra fólki að hlusta á eldra fólk og það sé oftar en ekki reiðubúið að hlusta. Eftir því sem aldurinn færist yfir þarf fólk ekki að uppfylla væntingar annnarra, því fólk vænti ekki svo margs af þeim sem eru að eldast. Fólk geti því gert það sem því sýnist hvenær sem því sýnist.
Aldur hefur ekkert með glæsileika að gera
Aldur hefur ekkert með glæsileika að gera. Julianne Moore er 55 ára og lítur frábærlega út. Jane Fonda er 77 ára og lítur sömuleiðis afar vel út. Aldur segir heldur ekkert um persónuleika fólks. Það er skrítið að fólk skuli eyða svo miklum tíma í að hugsa um aldur. Hvað er fólk að hugsa um þegar það veltir aldri fyrir sér? Töluna, hversu langan tíma það hefur hér á jörð. Útlit, heilsutengda sjúkdóma. Hvað sem það er nú sem fólk er að velta fyrir sér, ætti það að hætta að hugsa um það og einbeita sér að því að lífið er hér og nú. Þú ert það sem þú ert óháð aldri.
Aldri fylgir ávinningur
Það er ekki fórnarkostnaður að eldast, því fylgir ávinningur. Fólk sem komið er á miðjan aldur hefur kvatt margsinnis en það hefur líka oft heilsað. Fólk kynnist nýju fólki á öllum aldri. Það reynir líka nýja hluti og lífið verður oft áhugaverðara. Börnin eru uppkomin, foreldrahlutverkinu er lokið. Smábörn eru sæt og skemmtileg en það er miklu skemmtilegra að eiga uppkominn börn og fylgjast með því hvernig þau kjósa að eyða lífi sínu. Öll börn sama á hvaða aldri þau eru gera mistök en það er ekki hlutverk foreldranna að skipta sér af því þegar þau eru uppkomin.
Upp úr miðjum aldri er hægt að njóta alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Það er hægt að finna ástina upp á nýtt á sama hátt og fólk gerði þegar það var ungt. Það sama gildir um að fá sér ís eða ganga berfættur í grasinu. Það eru svo margir skemmtilegir hlutir sem hægt er að gera og reyna. Kari segir að lokum að henni hafi aldrei fundist hún jafn frjáls. Einhleyp, atvinnulaus og í fjárhagslegu limbói það hljómi ekki vel á hennar aldri. En þegar maður uppgvötvi að maður hafi engu að tapa þá þýði það um leið að maður hafi allt að vinna, segir hún.