Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur, stjórnmálamaður og jafnréttisstýra hefur víða komið við á starfsferli sínum. Hún lét af starfi jafnréttisstýru fyrir rúmu ári og flutti frá Akureyri til Reykjavíkur í Búsetaíbúð í Einholti, eða Hippaholti eins og hún kallar það. En hvað skyldi hún hafa fyrir stafni í dag? „Því er fljótsvarað“, segir hún. Ég er sjálfstætt starfandi fræðimaður og er að skrifa bók“. Hún verður dularfull þegar blaðamaður Lifðu núna spyr um hvað bókin sé. „Það er Vesmannaeyjatengt, svo mikið má segja“ segir hún og segist vona að bókin komi út á næsta ári. „Síðan er ég eins og alltaf í alls konar félagsstússi. Ég er til dæmis núna í dómnefnd Fjöruverðlaunanna, sem eru bókmenntaverðlauna kvenna. Nú er ég að lesa bækur öll kvöld og allar helgar og það er ekki leiðinlegt. Það koma út um 40 bækur eftir konur núna og ætli ég sé ekki búin að lesa 30. Þar af eru margar ljóðabækur og það vekur athygli hvað konurnar eru öflugar í ljóðunum, ekki síst ungu stelpurnar. En konur eru að skrifa bækur á öllum sviðum, ljóð, skáldsögur, glæpasögur og svo framvegis. Það er mikil gróska í skrifum kvenna“, segir hún. Þær eru þrjár sem sitja í dómnefndinni fyrir skáldsögur eftir konur, en síðan er önnur dómnefnd sem fjallar um fræðibækurnar.
Það kemur ekki á óvart að Kristín sé virk í kvennabaráttunni, enda hefur hún verið það alla ævi. Hún segist vera í ýmsum hópum sem tengjast henni. „Þegar ég er búin með þetta verkefni sem ég er með núna, ætla ég að snúa mér aftur að kynjasögurannsóknum. Þar er enn mikið verk að vinna og nóg efni. Það hefur sáralítið verið skrifað um margar af þeim konum sem voru í forystu kvenréttindabaráttunnar, fyrir utan Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Til dæmis fyrstu konurnar í bæjarstjórninni, Katrínu Magnússon, Þórunni Jónassen og Guðrúnu Björnsdóttur. Það er sáralítið til um þær. Þórunn Jónassen var til dæmis mikil merkiskona, en hún var hálfsystir Hannesar Hafstein. Laufey Valdimarsdóttir, hún liggur líka óbætt hjá garði og fleiri og fleiri, svo sem Jónína Jónatansdóttir fyrsti formaður Verkakvennafélagsins Framsóknar. Það er áhugavert að að tengja sögu einstaklinganna og sögu baráttunnar. Það er hægt að segja svo margt í gegnum einstaklingssöguna“.
Kristín segist kunna vel við að búa í Einholtinu. „Það er ljómandi gott. Þetta er frábær staðsetning að vera svona nálægt miðbænum í göngufæri við verslanir veitingastaði og Hörpuna. Það eru mikil lífsgæði fólgin í því. Ég er núna miklu nær fjölskyldu og vinum en þegar ég var á Akureyri og við höfum fasta punkta sem við hittumst í kringum, höldum til dæmis alltaf Lundaboð. En nú þarf að sækja lundann norður í land, stofninn í Vestmannaeyjum fór svo illa þegar sílin hurfu að það er bannað að veiða hann, en norðlenski lundinn er alveg jafn góður“, segir Kristín og hlær. Hún segir að munurinn á veðráttunni sunnan heiða og norðan sé ótrúlega mikill. „Sérstaklega hvað veturinn er langur fyrir norðan, það er aðalmunurinn. Það var ekki svo oft ófært á meðan ég bjó fyrir norðan, en fyrir mig, sunnlending alinn upp í Vestmannaeyjum, þá var það þessi langi vetur sem var öðruvísi. Ég er ekki skíðamanneskja en þetta er annað fyrir þá sem eru aldir upp við að njóta vetrarins“.
„Svo stunda ég menninguna“, heldur Kristín áfram „þar hefur Sinfónían algeran forgang. Það er alveg dásamlegt að fara á tónleika með hljómsveitinni“. Hún mælir líka með Óperubíóinu í Kringlunni, en næsta ópera sem þar verður sýnd er La Traviata, 15.desember. „Það eru sýningar á laugardögum sem eru endurteknar á miðvikudögum. Ég mæli eindregið með óperubíóinu og dagskráin eftir áramót er mjög spennandi, til dæmis Valkyrjan eftir Wagner og Carmen“.
Kristín saknar ekki stjórnmálanna. „Ég rífst við sjónvarpið og það er misjafnt hvað manni finnst, en talandi um pólitíkina. Fyrir utan mannréttindamálin, hef ég miklar áhyggjur af umhverfisverndarmálunum. Ég hef áhyggjur, af því að þróunin gengur miklu hraðar en menn héldu. Það sem verið er að gera er einungis smáskref miðað við þann ógnarhraða sem er á loftslagsbreytingunum. Það ætlar enginn að axla ábyrgð strax, menn segja bara ekki ég, ekki ég. Núna hafa menn vísað í, að vandamálið sé orðið svo stórt að stjórnvöld verði að stýra aðgerðum. En þetta er svo miklu meira en það og snýst líka um einstaklingana, hvað þeir geta gert og hvernig við hegðum okkur. Þetta eru mikil alvörumál“, segir Kristín að lokum.