Millý Svavarsdóttir var á Heilsustofnuninni í Hveragerði í fjórar vikur í vetur. Hún var uppgefin á að vera með stöðuga verki, vegna vefjagigtar og vöðvabólgu og heimilislæknirinn ráðlagði dvöl í Hveragerði. Hún ákvað að fara ekkert heim þessar fjórar vikur. „það var búið að segja mér að það væri miklu betra að vera hér allan tímann og hvíla sig um helgar í stað þess að fara heim til að taka til“, segir hún.
Besti sjúkraþjálfarinn
Millý var með þéttskipaða dagskrá. Var í leikfimi, vatnsleikfimi og jóga, leirböðum og heitum bökstrum. Hún prófaði einnig gjörhygli en segist hafa átt í erfiðleikum með að ná henni alveg. Hún stundaði einnig gönguferðir og sótti fyrirlestra á hverjum degi. Hún segir starfsfólkið líka einstakt. „Ég hef aldrei verið hjá jafngóðum sjúkraþjálfara og sjúkranuddarinn var mjög góður“, segir hún.
Losnaði við sinadrátt
Hún rómaði sundlaugina og nuddpottana þar, sem hún sagði þá bestu sem hún hefði prófað.Kneipp bunurnar væru líka alveg ótrúlega góðar, hún segist hafa losnað við sinadrátt í fótunum eftir að hún fór að stunda þær. Svo dreif hún sig á matreiðslunámskeið. „Það var mjög gaman og við lærðum að gera hnetubuff“segir hún. „Við fengum fullt af uppskriftum og ég væri alveg til í að prófa að elda þetta heima, en kannski ekki uppá hvern dag. En ég finn að mér verður rosalega vel af þessum mat“.