Nú styttist í að haustvertíðin með ferska lambakjötið gangi í garð. Hér bjóðum við upp á uppskrift að sérlega bragðgóðum lambakjötspottrétti sem hefur notið mikilla vinsælda. Fyrir utan að kitla bragðlaukana uppfyllir rétturinn líka fegurðarkröfur sælkera því maturinn bragðast betur ef hann er líka fallegur eins og allir vita.
800 g lambakjöt, t.d. framhryggjarsneiðar skornar í bita
hvíti hlutinn af 1 blaðlauk
2-3 hvítlauksrif
3 sm bútur af engiferi
2 msk. olía
2 tsk. karrí, má vera meira
1 tsk. kóríander, malað
1 tsk. cumin, malað
2 tsk. paprikuduft
1 tsk. turmerik
½ tsk. chilipipar eða cayennepipar
salt
4-5 gulrætur
1 sæt kartafla, meðalstór, má nota venjulegar íslenskar
1 dós kókosmjólk (400 ml)
1 -2 dl vatn
2-3 tómatar
safi úr hálfri límónu
1-2 vorlaukar, aðeins grænu blöðin
Takið kjötið af beinunum og tilvalið er að frysta beinin til að nota í soð síðar. Fitusnyrtið kjötið og skerið í litla bita. Saxið blaðlaukinn smátt og saxið hvítlauk og engifer mjög smátt. Hitið olíuna í wok pönnu ef hún er til taks eða bara venjulega pönnu og steikið blaðlaukinn við háan hita í 2-3 mín. Bætið hvítlauk og engifer saman við og steikið áfram í hálfa mínútu í viðbót. Stráið karrí, kummin og kóríander yfir, hrærið allt saman og takið grænmetið upp úr með gataspaða og setjið á disk. Bætið olíu á pönnuna og brúnið kjötið því næst við góðan hita. Setjið aðeins nokkra bita í einu á pönnuna svo hitinn haldist hár og bitarnir brúnist nokkuð. Afhýðið sætukartöfluna og skerið í teninga og skerið gulræturnar í sneiðar. Setjið á pönnuna þegar búið er að brúna kjötið, kryddið með paprikudufti, turmeric, chilipipar og salti og hrærið blaðlauksblöndunni saman við. Hellið kókosmjólk og vatni yfir, hrærið vel og látið sjóða við meðalhita í 20 mínútur og lengur því mjög gott er að ,,langelda kjötið“ og rétturinn er ekki síðri daginn eftir. Hrærið oft á meðan. Skerið tómatana í bita og látið út í. Sjóðið í 10 mínútur í viðbót eða þar til kjötið og grænmetið hefur meyrnað og sósan þykknað. Bragðbætið með límónusafa og salti eftir smekk. Stráið söxðum vorlauk yfir og berið fram með hrísgrjónum.